Grasrót garðyrkjunnar vanrækt
Á deildarfundi garðyrkjubænda í Bændasamtökum Íslands á dögunum var þungt hljóð í fulltrúum vegna stöðu nýliðunar í greininni, bæði út frá bágri stöðu starfsmenntanámsins í garðyrkju á Reykjum og hversu óaðgengileg greinin er fyrir nýliða að ganga inn í.
Óli Finnsson í Heiðmörk í Laugarási var endurkjörinn í stjórn deildarinnar á fundinum, en þau Inga Sigríður Snorradóttir komu ný inn í greinina árið 2021, með kaupum á garðyrkjustöðinni Heiðmörk sem þá hafði verið um langan tíma í rekstri og einkum þekkt fyrir ræktun á Heiðmerkursalati og -steinselju. Þau Óli og Inga tóku stefnuna á ræktun á eldpipar og snakk-paprikum ásamt steinseljunni og þó það hafi að mestu leyti gengið vel með ræktun og sölu á þeim afurðum, þá segir Óli að rekstrarumhverfi þeirra sem nýliða sé umtalsverð áskorun.
Enginn fjárfestingarstuðningur í boði fyrir garðyrkjubændur
Enginn sérstakur fjárfestingarstuðningur er í boði fyrir garðyrkjubændur, slíkir landbúnaðarstyrkir eru eingöngu í boði fyrir nautgripa- og sauðfjárbændur.
„Það er svolítið eins og kerfið utan um nýliðana hafi ekki verið hugsað til enda, til dæmis þegar komið var fram með þessi kynslóðaskiptalán,“ segir Óli og vísar til breytinga Byggðastofnunar á lánafyrirkomulagi árið 2020 þegar meðal annars möguleg lánveiting til landbúnaðarverkefna var hækkuð úr 75% í 90% af heildarfjárfestingu. „Þar er til dæmis eingöngu gert ráð fyrir lánum fyrir kaupum á stöðvum í rekstri, sem er ekki alltaf ákjósanlegt, auk þess sem slíkri fjárfestingu getur fylgt alls kyns ófyrirséður viðhaldskostnaður.“
Að sögn Óla þjónar nýliðunarstuðningur stjórnvalda einnig illa tilgangi sínum, en hann var fyrst í boði fyrir garðyrkju sem hluti búvörusamninga árið 2016. „Það er hægt að fullyrða að hann sé ómarkviss og hvetji ekki til nýliðunar – og hvergi í stuðningskerfinu er útfært á neinn hátt hvernig eigi til dæmis að uppfæra garðyrkjustöðvar.
Ólíkt stuðningnum í nautgripaog sauðfjárrækt er heldur enginn býlisstuðningur eða gripagreiðslur, sem virkar í raun eins og grunnur fyrir stuðningskerfið. Í ylræktinni er bara gert ráð fyrir framleiðslutengdum stuðningsgreiðslum sem koma sér best fyrir þá garðyrkjubændur sem eru komnir á góðan stað með sinn rekstur og sínar stöðvar; með stöðuga og góða framleiðslu. Stuðningskerfið heldur því best utan um þá sem gengur best, eru með góða framlegð og lágan framleiðslukostnað, en síður utan um þá sem standa höllum fæti í boði fyrir garðyrkju sem hluti búvörusamninga árið 2016. „Það er hægt að fullyrða að hann sé ómarkviss og hvetji ekki til nýliðunar – og hvergi í stuðningskerfinu er útfært á neinn hátt hvernig eigi til dæmis að uppfæra garðyrkjustöðvar.
Ólíkt stuðningnum í nautgripaog sauðfjárrækt er heldur enginn býlisstuðningur eða gripagreiðslur, sem virkar í raun eins og grunnur fyrir stuðningskerfið. Í ylræktinni er bara gert ráð fyrir framleiðslutengdum stuðningsgreiðslum sem koma sér best fyrir þá garðyrkjubændur sem eru komnir á góðan stað með sinn rekstur og sínar stöðvar; með stöðuga og góða framleiðslu. Stuðningskerfið heldur því best utan um þá sem gengur best, eru með góða framlegð og lágan framleiðslukostnað, en síður utan um þá sem standa höllum fæti og oftar en ekki eru það nýliðar sem þurfa mest á því að halda.“
Vantar skilning ríkisins á þörfum nýliða
„Það er fátt sem grípur bændur í ylrækt sem rækta gúrku, tómat eða papriku ef það gengur illa,“ heldur Óli áfram. „Að undanskildum niðurgreiðslum á kostnaði við dreifingu og flutningi á raforku eru engar grunngreiðslur á hvern fermetra ólíkt öðrum ylræktuðum afurðum líkt og salat eða kryddjurtir geta fengið. Garðyrkjubændur í útirækt fá að vísu ákveðinn stuðning sem miðast við uppskeru á hektara, sem er eins konar grunnur en þar vantar tryggingavernd að auki. Þeir bændur sem voru í rekstri í kringum síðustu aldamót upplifðu miklar breytingar á greininni. Afurðaverð á innlendu grænmeti var lágt og samkeppnin við innflutninginn var erfið. Með auknum velvilja neytenda til innlendrar framleiðslu og tilkomu beingreiðslna í stað tollverndar á tómötum, gúrku og papriku náðu margir bændur að stækka býlin sín, verða sterkir framleiðendur og eru undirstaða ylræktar á Íslandi í dag. Þeir nutu góðs af því að geta lækkað framleiðslukostnað og náð hagkvæmni þótt að beingreiðslur og stuðningurinn fyrir þessar tegundir hafi nánast staðið í stað frá aldamótum. Þeir sem koma svo nýir inn núna bera mun hærri kostnað á hvert framleitt kíló og því er samkeppnisstaðan strax orðin mun erfiðari fyrir nýliða í greininni vegna hærri fjármagnskostnaðar og hlutfallslega lægri stuðnings.“
Matskennd úthlutun
Óli segir að sín saga í Heiðmörk sé að vissu leyti þyrnum stráð. Bæði hafi stuðningsumhverfið ekki verið mjög hjálplegt og svo hafi ýmis vandkvæði orðið í rekstrinum ásamt nauðsynlegu viðhaldi á gróðurhúsunum. „Ég fékk nýliðunarstuðninginn fyrst 2021 og svo næstu tvö ár á eftir. Á síðasta árinu fékk ég reyndar ekki helminginn af því sem upp á vantaði til að ná fullri úthlutun.
Nýliðunarstuðningurinn virkar þannig að þetta er pottur sem er til úthlutunar hvert ár og í hann getur fólk sótt sem bæði eru algjörir nýliðar en einnig aðrir sem eru á fyrstu árunum. Eftir því sem fleiri sækja um, því minna er til skiptanna. En þeir sem koma inn í fyrsta sinn hafa meiri forgang. Þetta er mjög ógegnsætt kerfi, til dæmis skiptir heildarupphæð fjárfestingar máli, viðskiptaáætlun, menntun og reynsla. Þetta gengur sumsé út á að skora stig sem eru svo reiknað út til úthlutunar. Það sem er auðvitað gallað í þessu kerfi líka, er að stigagjöfin er að vissu leyti matskennd sem getur svo skorið úr um hvort þú færð núll, þrjár eða sjö milljónir,“ útskýrir Óli.
Bætt stuðningskerfi garðyrkjunnar
„Að einhverju leyti getum við kennt okkar reynsluleysi um að hafa ekki gætt betur að ýmsum atriðum í forsendum fyrri rekstrar. Svo hefði verið þörf á betri úttekt á ástandi gróðurhúsanna og tækjabúnaðinum hjá fyrri eiganda,“ segir Óli spurður um ástæður erfiðleikanna í rekstri Heiðmerkur. „Það var fullt af hlutum sem þurfti að laga en ég áttaði mig ekki á því á þeim tíma sem við vorum að kaupa stöðina. Það fer svo alveg gríðarlegur kostnaður og tími í slíkar lagfæringar – og samfylgjandi uppskerutap. Svo þegar vaxtabyrðin þyngdist skyndilega var það ekki til að auðvelda lífið.“
Hann sér fyrir sér tvo möguleika á betra kerfi. Annars vegar hlutdeildarlán þar sem ríkið einfaldlega kaupir sig inn í búið eða annars konar lánafyrirkomulag með þolinmóðu fjármagni og tryggum vöxtum til langs tíma. „Það virðist blasa við mér að aðkoma ríkisins þarf að vera afgerandi ef það á að vera hægt að hleypa lífi í greinina með aukinni innlendri framleiðslu. Þegar allt kemur til alls þá snýst þetta um að gefa nýliðum svigrúm á að koma sér upp þeirri aðstöðu og skilvirkum framleiðsluferlum án þess að vera með íþyngjandi óvissuþætti í rekstri og viðhaldi hangandi yfir sér.
Ef svo tækist að koma á einhvers konar fjárfestingastuðningi í garðyrkjunni, þá þyrfti það eiginlega líka að vera útfært þannig að hann skilaði sér rekstrarlega til bænda á fyrstu árunum – í einhvers konar möguleikum á lausafjárstuðningi eða fjármögnun. Það er nú einu sinni þannig að í þessum greinum landbúnaðarins er garðyrkjan einna mannfrekust og stór hluti af rekstrarkostnaði er launakostnaður. Við tókum strax í byrjun við fjórum starfsmönnum á stöðinni okkar þegar við keyptum hana.“
Betra stuðningskerfi fyrir nýliða í Evrópu
„Eitt af skilyrðum Byggðastofnunar fyrir kynslóðaskiptalánunum er að keypt sé garðyrkjustöð í rekstri sem er ekki endilega það sem fólk sækist eftir þegar komið er inn í greinina. Ekki er hægt að byrja á núllpunkti og byggja upp frá grunni til að fá þessi lán, sem eru að ýmsu leyti hagkvæm,“ heldur Óli áfram.
„Nýtt stuðningskerfi þyrfti ekki endilega að vera undir hatti Byggðastofnunar, heldur gætu lífeyrissjóðir og bankar – auk ríkisins – komið þar að málum. Ég veit að lífeyrissjóðirnir hafa alveg verið spenntir fyrir svona lánafyrirkomulagi sem myndi vera rekið af fólki í sjóðstýringu sem hefði þekkingu á greininni.
Ég veit til þess að á hinum Norðurlöndunum og í Evrópu eru góðir möguleikar fyrir nýliða í garðyrkju og landbúnaði að fá tryggari fjármögnun og stuðning sem nýliði. Þar er krafa að þú sért yngri en 40 ára og uppfyllir nægileg hæfni- og menntunarviðmið til að hefja uppbyggingu á eigin rekstri í landbúnaði. Þar eru bæði sjóðir Evrópusambandsins ásamt viðbótarstuðningi hvers lands sem tryggja bæði lága vexti, grunnstuðning og sérstakt álag á stuðningsgreiðslur fyrir nýliða fyrstu 5 árin. Vonandi náum við að aðlaga þetta kerfi okkar betur að nýliðum í anda nágrannaríkja okkar svo að nýliðun verði í alvöru spennandi og mögulegur kostur til framtíðar.“