Komin með sauðfé á ný
Bændurnir á Bergsstöðum í Miðfirði fengu sauðfé aftur í haust eftir að hafa þurft að skera niður vegna riðu sem greindist vorið 2023.
Samkvæmt venju hafa bæir þurft að vera fjárlausir í minnst tvo vetur eftir að upp kemur sauðfjárriða. Vegna breyttrar stefnu í baráttunni gegn sjúkdómnum var bændunum á Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði boðið að kaupa fé með verndandi arfgerðir gegn riðu í haust, ári fyrr en upphaflega stóð til.
Áður en riðan greindist í apríl 2023 voru 700 kindur á Bergsstöðum og var hjörðin meðal þeirra afurðahæstu á landinu. Sauðfjárhjarðirnar á Bergsstöðum og Urriðaá verða sennilega þær síðustu sem hljóta þau örlög að vera drepnar í heild. Nú felst stefna stjórnvalda í að rækta upp verndandi erfðaeiginleika í íslensku sauðfé og ef sjúkdómurinn greinist er eingöngu skorið niður það fé sem hefur ekki meðfædda vörn.
Tóku við 1997
Elín Anna Skúladóttir og Ari G. Guðmundsson hafa stundað sauðfjárbúskap á Bergsstöðum í Miðfirði frá árinu 1997. Þau urðu fimmtug í byrjun þessa árs en voru 23 ára þegar þau tóku við búinu. „Ég er langyngst af mínum systkinum og það var farið að halla undan fæti hjá foreldrum mínum. Þá var annaðhvort að stökkva til og taka við eða að jörðin færi í aðrar hendur. Ég gat ekki hugsað mér það af því ég vildi hvergi annars staðar vera,“ segir Elín sem ólst upp á Bergsstöðum.
Í haust keyptu Elín og Ari 370 lömb af hátt í tuttugu bændum víða um land, en lengst fóru þau í Öræfasveit. Þau reikna með að það muni taka þrjú ár að ná sömu stofnstærð og var áður. „Við áttum ekki von á að ná svona mörgum gripum í haust, en það var miklu meira úrval en við gerðum ráð fyrir,“ segir Ari.
Verndandi arfgerðir
Hið opinbera gerir kröfu um að gripirnir sem þau kaupa beri ýmist verndandi eða svokallaðar mögulega verndandi arfgerðir gegn sauðfjárriðu. Mikið átak hefur verið í dreifingu slíks erfðaefnis með sæðingum, en einnig hafa fundist margir gripir í gegnum erfðarannsóknir.
Áður en verndandi arfgerðir gegn riðu fundust í íslensku sauðfé var eina verkfærið í baráttunni við sjúkdóminn að drepa allar kindur á sýktum bæjum, rífa allar innréttingar úr fjárhúsum, sótthreinsa allar byggingar, skipta um jarðveg og halda bæjunum fjárlausum í minnst tvo vetur. Elín og Ari hafa þurft að ganga í gegnum allt þetta, en fá að endurnýja sinn sauðfjárstofn fyrr en áætlað var.
Ný lömb í lok september
Elín segir að boltinn hafi byrjað að rúlla síðasta haust, en þá kom upp riða á bænum Stórhóli í Vestur-Húnavatnssýslu. Þá var í fyrsta skipti gripið til svokallaðs hlutaniðurskurðar þar sem eingöngu var slátrað sauðfé sem ekki bar verndandi arfgerðir. Bændunum á Stórhóli var jafnframt gefin heimild til að hefja uppbyggingu á sínum stofni með kaupum á sauðfé með meðfædda vörn gegn riðu. Elín og Ari ákváðu að láta reyna á hvort þau gætu endurnýjað sinn stofn með svipuðum skilyrðum.
Matvælastofnun (MAST) samþykkti í lok síðasta árs beiðni bændanna á Bergsstöðum. „Þá förum við í símann og hringjum í bændur víðs vegar um landið til þess að biðja þá um að búa til lömb fyrir okkur,“ segir Ari. Þetta var í tæka tíð fyrir fengitímann og gátu bændurnir sem hjónin höfðu samband við gert ráð fyrir þeim við sæðingar. „Það voru ótrúlega góð viðbrögð hjá bændum. Þeir tóku rosalega vel í að koma okkur á lappirnar aftur,“ segir Ari.
Fyrstu nýju lömbin komu að Bergsstöðum 24. september síðastliðinn og einkenndust næstu tvær vikur af stanslausum fjárflutningum, en hjónin sóttu öll lömbin sjálf. Elín segir að það muni ekki koma strax í ljós hvernig þessi nýi stofn er í samanburði við þann sem þau höfðu byggt upp áður. „Það er öðruvísi að vera bara með gemlinga í húsunum,“ segir hún og reiknar með að því muni fylgja ákveðnar áskoranir í sauðburði í vor. „Ég er ótrúlega þakklát fyrir þessi 370 lömb sem við fengum frá þessum tuttugu fyrirmyndar sauðfjárbúum,“ segir Elín.
Endurbyggðu nýleg fjárhús
„Ari er búinn að vera í fjárhúsunum síðan 10. apríl 2023 við að rífa niður og byggja upp,“ segir Elín.
Þegar búið var að fjarlægja úr húsunum alla gólfbita, grindur, garða og fleira þurfti að smúla frá haugkjallara upp í rjáfur. Að því loknu kom fulltrúi frá MAST sem úðaði allt með klór.
Eftir það hafi byggingarnar verið fokheldar, sem þau segja ansi sárt. Hluti húsanna var nýbygging sem var ekki orðin tveggja ára gömul og voru ekki liðin meira en þrjú ár frá því eldri hluti húsanna var tekinn í gegn. Hjónin vonast til þess að verða síðustu bændurnir sem þurfi að ganga í gegnum þetta.
Hið opinbera borgar efniskostnaðinn við uppbyggingu sem Ari segir þakkarvert. „En það er eins og vinnan eigi að detta af himnum ofan,“ bætir hann við og bendir á að vinnuliðurinn sé ekki tekinn til greina. „Það eru ekki allir sem geta smíðað,“ segir Ari en hann sé heppinn að kunna til verka. Elín bendir á samanburðinn við vatnstjón á heimilum, en þá sé bæði efniskostnaðurinn og vinnan bætt með tryggingum.
MAST vanti mannlega þáttinn
Hjónin segja að þau hafi þurft að standa í miklu stappi við hið opinbera eftir að riðan greindist. „Það vantar alveg mannlega þáttinn í þetta. Við erum fólk,“ segir Ari. Viðbrögð MAST hafi verið of vélræn þótt margt starfsfólk stofnunarinnar hafi reynst þeim vel.
Elín er jafnframt gagnrýnin á að MAST hafi upphaflega ætlað að farga öllum kindunum á bæjarhlaðinu á Bergsstöðum vorið 2023, en það hefur tíðkast við riðuniðurskurð áður. „Það er svo galið að ætla að slátra hér og láta blóðið renna út í skurð,“ segir Elín, en hún óttaðist að það yki hættuna á því að riðusmitefnið yrði áfram á bænum. Hjónin gripu til þess ráðs að semja sjálf við sláturhúsið á Hvammstanga og settu fulltrúar MAST sig ekki upp á móti því.
„Karólína [Elísabetardóttir í Hvammshlíð] á allan heiður skilið fyrir að þetta sé komið á þann stað sem þetta er í dag. Ef hún hefði ekki flutt til landsins væri þetta á sama stað og við værum ekki komin með fé í dag,“ segir Elín. Hún hefur verið einn helsti drifkrafturinn í erfðarannsóknum á íslensku sauðfé, en þær hafa skilað sér í því að ómetandi verndandi arfgerðir hafa fundist hér á landi.
„Menn gátu ekkert annað en breytt um vinnubrögð. Hitt hafði greinilega ekki virkað,“ segir Ari og bendir á að riða hafi oft komið upp á sömu bæjunum þrátt fyrir harðar aðgerðir.