Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Egill Einarsson efnaverkfræðingur varar við áformum um stóraukna raforkuframleiðslu í vindorkugörðum og segir framleiðslu á rafeldsneyti eins og
ammóníaki mjög óhagkvæma.
Egill Einarsson efnaverkfræðingur varar við áformum um stóraukna raforkuframleiðslu í vindorkugörðum og segir framleiðslu á rafeldsneyti eins og ammóníaki mjög óhagkvæma.
Mynd / smh
Viðtal 12. mars 2025

Varað við hraðri orkuuppbyggingu með vindmyllugörðum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Egill Einarsson efnaverkfræðingur segir að óráðlegt sé að framleiða rafeldsneyti eins og ammóníak með vindorku, til orkuskipta fyrir skipaflota og þungaflutninga, eins og áform eru um í vindorkuverkefnum sem eru nú í skipulagsferli.

Egill Einarsson hefur á undanförnum vikum birt tvær greinar í Bændablaðinu um orkuog loftslagsmál, þar sem vikið er meðal annars að hagkvæmni ýmissa orkugjafa og sett í samhengi við áform um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þar kemur fram að með því að nota rafmagn til framleiðslu á ammóníaki nýtist aðeins um fjórðungur upprunalegu orkunnar þegar það er svo brennt sem eldsneyti.

Egill bendir á hversu óhagkvæmt rafeldsneyti er í framleiðslu og áform um framleiðslu þess óraunhæf en þær tegundir rafeldsneytis sem eru þar fremst á blaði séu ammóníak og metanól. Nauðsynlegt sé að benda á ýmsa vankanta varðandi nýtingu og notagildi þessara efnasambanda. T.d. er orkuþéttleiki einungis helmingur af því sem er í jarðefnaeldsneyti og heildarnýting um 16%. Vegna lágs orkuinnihalds hentar það ekki í flugvélar en kannske í skip en þróun þeirra er skammt á veg komin og til dæmis er líklegt að skipta þurfi um vélar í þeim skipum sem fara yfir í ammóníak.

Horfir til blandaðra leiða

Þegar Egill er spurður um hvað hann telji vænlegustu kostina í stað rafeldsneytis, segist hann helst horfa til blandaðri leiða og bein nýting vetnis, þótt það sé einnig flokkað sem rafeldsneyti, geti orðið álitlegur orkugjafi þar sem nýtni þess sé tvöfalt meiri í gegnum efnarafal en með brennslu á rafeldsneyti. Hann hefur bent á að útreiknað kostnaðarverð á rafeldsneyti hérlendis sé tvisvar til þrisvar sinnum hærra miðað við orkuinnihald en á jarðefnaeldsneyti og þar er raforkukostnaður helsti kostnaðarliðurinn. Því ætti ekki að útiloka innflutning á rafeldsneyti sem framleitt er með ódýrri raforku. Til dæmis fer verð á sólarorku ört lækkandi og framleiðsla þess gæti orðið hagkvæmari kostur í sólríkum löndum en að framleiða það hér.

Grunnatriðið í þessari umræðu sé hins vegar spurningin um orkuþörf Íslendinga, en núverandi stjórnvöld og fyrri tali á þann veg að taka þurfi risastór skref í orkuöflun á næstu áratugum og þar er fyrst og fremst verið að vísa til uppbyggingar rafeldsneytis. Með því til dæmis að leggja stór og verðmæt landsvæði undir vindmyllugarða sé verið að fórna meiri verðmætum fyrir minni.

„Það er mikill þungi í þeirri umræðu að það sé knýjandi orkuskortur í landinu og til stuðnings þeim sjónarmiðum og stórhuga áformum um orkuöflun eru notuð mjög háleit alþjóðleg markmið í loftslagsmálum og vísað í skuldbindingar. Það hefur til dæmis verið talað um að það þurfi jafnvel að tvöfalda raforkuframleiðsluna á frekar stuttum tíma. Ég ætla ekkert mikið að lýsa skoðunum mínum á ráðstöfun eða forgangsröðun á þeirri raforku sem er til staðar í landinu í dag. Lágmarkskrafan er að framboð á raforku fylgi fjölgun þjóðarinnar og að nægileg raforka sé til staðar fyrir smáiðnað eins og garðyrkju og fiskiðnað. Það hlýtur þó að vera eðlilega krafa Íslendinga að almenningur sé í einhvers konar forgangshópi um aðgengi og kjör á raforkunni sem er til ráðstöfunar, umfram erlenda stóriðju til að mynda.“

Við erum umhverfissóðar

Egill segir að samt sem áður sé ljóst að það sé ákveðinn skortur á orku hér á landi. Hann geri ekki lítið úr þeim skoðunum að það þurfi að virkja meira, en það sé þessi áróður um þörf fyrir stóraukna og hraða orkuuppbyggingu sem hann setji spurningarmerki við. „Ég hef gagnrýnt þessa leið sem Ísland fór með Evrópusambandinu í markmiðum sínum um kolefnishlutleysi árið 2040, þegar ljóst sé að Ísland sé meðal fremstu þjóða í framleiðslu á endurnýjanlegri orku með um 99 prósent af raforku framleiddri með þeim hætti og 80 prósent af heildarorku endurnýjanlega. Ég gagnrýni að þessar skuldbindingar séu notaðar til að þjóna þeim málstað að það þurfi að stórauka raforkuframleiðsluna með vindmyllugörðum.

Vandinn er auðvitað að við notum mikið af jarðefnaeldsneyti og það gerir það að verkum að losun okkar samkvæmt viðmiðun ESB er tæplega helmingi meiri á hvert mannsbarn en er að meðaltali í Evrópusambandinu. Neysludrifið kolefnisspor okkar er svo enn stærra, en 71 prósent þeirrar losunar er vegna innflutnings sem reiknast á kolefnisbókhald framleiðsluríkisins. Þannig að í þessum skilningi má alveg halda því fram að Íslendingar séu algjörir umhverfissóðar en mörg sóknarfæri til þess að breyta því,“ segir Egill.

Að sögn Egils er ljóst að með því að hagræða í orkubúskapnum í landinu og horfa til nýrra leiða í orkuöflun, megi draga verulega úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti. „Við erum með þessar alþjóðlegu skuldbindingar og þurfum að sýna ábyrgð í því að nálgast markmið þeirra, en það getum við gert með slíkum aðferðum og um leið með hóflegum hætti. Þær leiðir sem hægt væri að fara er frekari rafvæðing á bílaflotanum, betri nýtni á rafmagni með nýjum tæknilausnum og notkun metans og lífeldsneytis í flutningabílum og fiskiskipum, en í þessum geira er um 45 prósent kolefnislosunar Íslands.

Þá er nauðsynlegt að byggja upp vetnisframleiðslu til að anna þeim hluta sem ekki er hægt að fullnægja með öðrum hætti. Flutningaskip og flugflotinn eru sérstakt viðfangsefni sem ekki er á beinni ábyrgð stjórnvalda.“

Miklir möguleikar með lífeldsneyti

Egill bendir á að mikið hráefni til lífeldsneytisframleiðslu sé til staðar í landinu, metan sé líka aukaafurð úr slíku ferli og það sé mjög vannýttur umhverfisvænn orkugjafi. „Við erum með mikið magn af lífrænu efni eins og þörunga, plöntuleifar, úrgang eins og dýrahræ og sláturúrgang sem fellur til og vel mætti nýta til lífeldsneytisframleiðslu, auk mykju, seyru og annars lífræns úrgangs. Eins og fram hefur komið í umfjöllun Bændablaðsins fer stór hluti af dýrahræjum ólöglega til urðunar í dag, en mætti hæglega nýta til framleiðslu á lífeldsneyti.

Ríkið þarf auðvitað að koma inn og hjálpa til við innviðauppbygginguna því kolefnisbókhaldið af slíkri orkuframleiðslu er alltaf mjög hagstætt.“

Skylt efni: orkumál | vindorka | loftslagsmál

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt