Vinna hefst við gerð reglna um raforkuöryggi
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp um raforkuöryggi. Á hópurinn meðal annars að skoða valdheimildir opinberra aðila og úrræði til að tryggja fullnægjandi raforkuöryggi.
Breyting var gerð á raforkulögum á vorþingi 2021 með það að markmiði að tryggja raforkuöryggi. Breytingarnar kveða m.a. á um gerð reglugerðar um viðmið fyrir fullnægjandi raforkuöryggi, sem og mat á fullnægjandi framboði á raforku.
Ráðherra kallaði eftir tilnefningum í upphafi árs og hefur starfshópurinn, sem ráðherra hefur nú skipað það hlutverk að vinna tillögu að reglugerð um raforkuöryggi.
Hópurinn á að veita yfirsýn á heildsölumarkaði raforku og skilgreina öryggismörk um fullnægjandi framboð raforku og heimildir Orkustofnunar til að grípa inn í til að tryggja að framboð geti mætt eftirspurn.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir í tilkynningu á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins afar mikilvægt að fá yfirsýn yfir raforkumarkaðinn og að tryggja raforkuöryggi, ekki hvað síst raforkuöryggi íslenskra heimila. „Það var eitt af mínum fyrstu verkum eftir að ég kom í umhverfis- og auðlindaráðuneytið.“
Formaður starfshópsins er Halla Hrund Logadóttir, Orkumálastjóri.
Aðrir sem starfshópinn skipa eru: Breki Karlsson, f.h. Neytendasamtakanna, Friðrik Friðriksson, f.h. HS Orku hf., Kristín Linda Árnadóttir, f.h. Landsvirkjunar, Svandís Hlín Karlsdóttir, f.h. Landsnets hf., Tryggvi Felixson, f.h. umhverfis- og náttúruverndarsamtaka, Þrándur Sigurjón Ólafsson, f.h. Orku náttúrunnar ohf.,
Hanna Björg Konráðsdóttir, hjá Orkustofnun, og Magnús Dige Baldursson, hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, munu starfa með starfshópnum.
Starfshópurinn á að skila ráðherra drögum að reglugerð fyrir 15. Mars 2022.