Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Hjördís Jónsdóttir hjá Landi og skógi við mælingar á alaskaösp í Íslensku skógarúttektinni.
Hjördís Jónsdóttir hjá Landi og skógi við mælingar á alaskaösp í Íslensku skógarúttektinni.
Mynd / Björn Traustason
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra stærst að halda utan um úttekt á íslenskum skógum.

Verkefnum í rannsóknum og þróun innan stofnunarinnar má skipta í hagnýt rannsóknarverkefni til að tryggja góðan og hagkvæman árangur í verklegum framkvæmdum tengt landgræðslu og skógrækt. Þá eru grunnrannsóknir til að byggja upp almenna þekkingu sem getur nýst síðar sem hagnýt þekking. Síðan eru vöktunarverkefni sem gjarnan eru hluti af upplýsingagjöf til stjórnvalda og fylgjast með breytingum, t.d. á vistkerfum sem stundum kalla á viðbrögð, t.d. ef nýir skaðvaldar finnast sem geta valdið skemmdum á gróðri.

Brynjar Skúlason.
Íslensk skógarúttekt

Brynjar Skúlason stýrir sviði rannsókna og þróunar. Hann segir verkefnin sem falla undir sviðið mjög fjölbreytt en fyrst og fremst sé hans hlutverk að greiða úr málum sem upp koma frá degi til dags, bæði faglegum málum og þeim sem tengist rekstrinum. Mestu skipti að starfsfólk sviðsins hafi umhverfi og aðstæður til að skila góðri vinnu og hlutverk sviðsstjóra sé að uppfylla það með fólkinu.

„Stærsta einstaka verkefnið er Íslensk skógarúttekt sem metur vöxt og viðgang íslenskra skóga og metur m.a. framlag skóganna til kolefnisbindingar,“ segir Brynjar og útskýrir að það haldi utan um dreifingu skóganna um landið, hversu hratt þeir vaxi, og segi til um skógræktarskilyrði um land allt.

„Mat á kolefnisbindingu íslenskra skóga er mikilvægt að þekkja fyrir loftslagsbókhald Íslands og liður í upplýsingagjöf til stjórnvalda til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar. Nýræktun skóga og aukin útbreiðsla náttúrulegra birkiskóga er mjög stórvirk leið til að binda kolefni úr andrúmslofti og draga úr hnattrænni hlýnun,“ segir Brynjar.

Skógavefsjá og kolefnisreiknir

Meðal afurða Skógarúttektarinnar er Skógavefsjá þar sem skoða má útbreiðslu bæði náttúrulegra og ræktaðra skóga. Önnur afurð er Skógarkolefnisreiknirinn sem nota má til að áætla kolefnisbindingu vítt og breitt um Ísland eftir ræktunarstað, landgæðum og trjátegundum.

„Skógarúttekt er dæmi um sífelluverkefni sem hefur að markmiði að gefa sem best yfirlit yfir skógarauðlindina á hverjum tíma. Síðustu ár hefur mikil áhersla verið á að meta skóginn út frá framlagi til kolefnisbindingar en áherslur kunna að breytast,“ útskýrir Brynjar.

Aðspurður hvaða breytingar og þróun hann sjái fyrir sér innan rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi svarar hann að aukin áhersla sé á bætta nýtingu á lífrænum úrgangi til uppgræðslu sem hluta af hringrásarhagkerfinu. „Urðun á lífrænum úrgangi verður ekki heimil í framtíðinni og því þarf að finna honum farveg til nýtingar,“ segir hann. „Sviðið hefur verið að auka áherslu á bætt gæði skógarplantna í samstarfi við plöntuframleiðendur og bæta í við vöktun á skaðvöldum í skógi og trjám. Vegna hnattrænnar hlýnunar og aukinnar umferðar ferðafólks og vöruflutninga milli landa, skapast aukin hætta á að til landsins berist bæði meindýr og plöntusjúkdómar sem þarf að vakta og einnig að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum til að draga úr líkum á að slíkt gerist.“

Brynjar nefnir einnig fjölbreytt verkefni á sviði trjákynbóta og fræræktar. „Við erum nálægt því að geta framleitt hérlendis fræ af öllum helstu trjátegundum sem eru mikilvægastar fyrir skógrækt á Íslandi. Með bættri aðstöðu til frekari fræræktar innandyra fyrir lerki verður þessu markmiði náð,“ segir hann.

Aukin áhersla hefur verið lögð á rannsóknir á gæðum skógarplantna, í samvinnu við plöntuframleiðendur. Mynd/Land og skógur
Ný rannsókn á vistkerfi blandaðra skóga

Nýhafið er umfangsmikið rannsóknarverkefni á vistkerfi skóga sem innihalda mismunandi trjátegundir og eru á mismunandi aldri, með áherslu á líffjölbreytni. Brynjar segir aukna áherslu verða á líffjölbreytni tengda ræktun og endurheimt vistkerfa í framtíðinni og rannsóknarstarf muni taka mið af því. „Ræktaðir skógar eru víða að komast í nytjastærð,“ segir hann og heldur áfram: „Um þá þarf að hirða til að úr þeim verði verðmæti. Þróun í umhirðu og úrvinnslu skóganna mun því fá sífellt aukinn sess í framtíðinni og nýliðin Fagráðstefna skógræktar á Akureyri fjallaði einmitt um skóginn sem fjölbreytta auðlind og er það ef til vill tímanna tákn,“ segir hann jafnframt.

Frá örfoka landi í algróið

„Það er markmið sviðs Rannsókna og þróunar að afla þekkingar og miðla henni, um landgræðslu og skógrækt, sem nær frá verkefnum á örfoka landi yfir í að skila landinu algrónu með fjölbreyttum gróðri, allt eftir því hvert markmiðið er á hverjum stað. Við munum gera okkar besta til að miðla nýjum upplýsingum milliliðalaust til almennings og hagaðila eins og bænda gegnum ráðgjafana sem starfa um land allt, gegnum innlendar ráðstefnur og vefsíðu Lands og skógar,“ segir Brynjar.

Hann segir Land og skóg nýja stofnun á gömlum grunni. Sameiningin gefi tækifæri til naflaskoðunar á hvort stofnunin forgangsraði rétt í rannsóknarverkefnum og geri gagn. „Allar fyrirspurnir og ábendingar um hvernig gera má betur í rannsóknum og miðlun upplýsinga í landgræðslu og skógrækt eru velkomnar og sama gildir um áhugasama samstarfsaðila,“ segir Brynjar að endingu.

Skylt efni: Land og skógar

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...

Snjallsímar bannaðir í grunnskóla
Fréttir 15. nóvember 2024

Snjallsímar bannaðir í grunnskóla

Frá því í haust hefur nemendum Kirkjubæjarskóla verið óheimilt að vera með snjal...

Stórtæk ræktun á Hrym í Búðardal
Fréttir 15. nóvember 2024

Stórtæk ræktun á Hrym í Búðardal

Ræktunarstöð fyrir lerkitegundina Hrym hefur verið stofnsett í Búðardal þar sem ...

Fjögur landeldisfyrirtæki í Bændasamtökunum
Fréttir 14. nóvember 2024

Fjögur landeldisfyrirtæki í Bændasamtökunum

Deild landeldis innan Bændasamtaka Íslands var stofnuð sumarið 2022. Fjögur land...

Bændur læra af hver öðrum
Fréttir 14. nóvember 2024

Bændur læra af hver öðrum

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur undanfarin tvö ár staðið fyrir stýrð...

Skipulega haldið utan um feldfjárrækt í Fjárvís
Fréttir 14. nóvember 2024

Skipulega haldið utan um feldfjárrækt í Fjárvís

Nýverið bárust tíðindi af því að verið væri að setja inn upplýsingar um feldfé í...