Er innflutningur á trjávið með berki ógnun við íslenska skóga?
Matvælaráðuneytið felldi 16. janúar úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) um að fyrirtæki sem flutt hafði inn trjáboli með berki frá Póllandi skyldi eyða þeim eða endursenda úr landi.
Aðdragandi málsins er sá að í nóvember 2021 voru trjábolirnir fluttir til landsins sem kolefnisgjafi til framleiðslu á kísilmálmi. Við afgreiðslu málsins á sínum tíma leitaði MAST til ýmissa sérfræðinga sem vinna við þessi mál hérlendis, meðal annars hjá Skógræktinni, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Auk þess var leitað frekari upplýsinga hjá innflytjanda og plöntuverndaryfirvöldum í Póllandi (sem gefið höfðu út heilbrigðisvottorð fyrir farminn). Eftir að hafa kynnt sér málið og umsagnir sérfræðinga ákvað MAST 19. nóvember 2021 að hafna þessum innflutningi og var innflytjanda gert að farga sendingunni eða endursenda hana til Póllands. Innflytjandinn ákvað að kæra þann úrskurð, sem endaði að lokum með því, sem fyrr segir, að ráðuneytið felldi úr gildi kröfu MAST um að farga skyldi eða endursenda viðinn.
Helstu deiluefni þessa máls tengjast orðalagi í lögum og hvort heilbrigðisvottorðið sem fylgdi sendingunni hafi verið fullnægjandi fyrir íslenskar aðstæður. Í reglugerð um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum (189/1990) kemur fram að eingöngu sé heimilt að flytja inn trjávið með berki, fylgi sendingunni heilbrigðisvottorð.
Þá er einnig tekið fram að ekki sé heimilt að flytja inn „villtar plöntur sem safnað er á víðavangi“. Rökstuðningur MAST var m.a. sá að samkvæmt reglugerðinni væri fortakslaust bann við innflutningi á trjáviði með berki þar sem trjábolirnir kæmu af villtum plöntum sem safnað hefði verið á víðavangi. Það var hins vegar mat matvælaráðuneytisins að slíkt ætti ekki við í þessu tilfelli, enda kæmi fram í vottorði erlendra yfirvalda að umrædd tré hefðu verið ræktuð á skógræktarsvæðum þar sem tré eru felld reglubundið.
Margt leynist í trjáberkinum
Í nágrannalöndum okkar gilda strangar reglur um trjávið með berki, vegna þeirrar hættu sem fólgin er í slíkum innflutningi.
Helsti ávinningur þess að afbarka við er að lágmarka hættuna á því að barkarbjöllur berist til landsins og sjúkdómar sem þeim fylgja.
Rannsóknir hafa einnig sýnt að með afbörkun minnka mjög líkurnar á því að með viðnum berist aðrir skaðvaldar sem lifað geta undir berkinum, svo sem ýmsar skortýtu- (t.d. blaðlýs og barrlýs), fiðrilda-, bukku- og vesputegundir sem valda gjarnan miklu tjóni í skógum. Barkarbjöllur eru meindýr af ranabjölluætt sem draga nafn sitt af því að þær verpa í innri lög barkarins. Lirfur þeirra nærast á berkinum og mynda í honum göng. Fyrir utan þetta tjón sem barkarbjöllurnar og lirfur þeirra valda á trjánum fylgja þeim oft sveppir sem einnig geta valdið miklum skaða á trjám og leitt þau til dauða. Barkarbjöllur og örverurnar sem fylgja þeim eru nú eitt alvarlegasta vandamálið sem við er að etja í skógrækt víða um lönd, ekki síst á svæðum þar sem trén eru veik fyrir af öðrum ástæðum, til að mynda vegna þurrka.
Enn sem komið er hefur engin barkarbjöllutegund numið land á Íslandi, eflaust að hluta til vegna þeirra ströngu reglna sem hér gilda um innflutning á trjáplöntum. Nágrannalönd okkar hafa ekki verið jafnheppin. Í Evrópu geisa nú alvarlegir barkarbjöllufaraldrar og er talið að vandamálin af völdum þeirra eigi eftir að aukast enn í framtíðinni með áframhaldandi loftslagsbreytingum.
Sem dæmi má nefna tegundina Ips typographus, sem hefur nú þegar dreift sér um stærstan hluta Evrópu og er m.a. mikil ógn við rauðgreniskóga.
Einnig geta nokkrar barkarbjöllutegundir farið illa með birki og fleiri trjátegundir sem algengar eru hérlendis.
Að lokum
Hér á landi eru tiltölulega fáir skaðvaldar og því eru plöntur hér sérlega viðkvæmar fyrir landnámi nýrra meindýra.
Skortur á náttúrulegum óvinum eykur svo enn getu meindýra til hraðrar útbreiðslu, eins og hefur sýnt sig í nýjum skaðvöldum á birki. Innflutningur á viði með berki eykur líkurnar á að fleiri nýir skaðvaldar nemi hér land, ekki síst barkarbjöllur og fylgisveppir þeirra, sem gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir skóga landsins.
Skiptir þá litlu máli hvort trén eru ræktuð sérstaklega til fellingar eða vaxa í náttúrulegum skógum.
Í ljósi úrskurðar ráðuneytisins er nauðsynlegt að skýra regluverk það sem á við um slíkan innflutning með það að markmiði að vernda íslenska skóga.