Bled er fallegur átta þúsund manna bær við Bled-vatnið í Efri-Karníólu í Slóveníu, en bærinn liggur um 50 km norðvestan höfuðborgarinnar, Ljubljana, við rætur Júlínönsku-alpanna.
Bled er fallegur átta þúsund manna bær við Bled-vatnið í Efri-Karníólu í Slóveníu, en bærinn liggur um 50 km norðvestan höfuðborgarinnar, Ljubljana, við rætur Júlínönsku-alpanna.
Mynd / Aðsend
Á faglegum nótum 5. júlí 2024

Frá ráðstefnu ICAR í Bled í Slóveníu

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur hjá RML

Árleg ráðstefna og aðalfundur ICAR (International Committee for Animal Recording) voru haldin í Bled í Slóveníu dagana 19.-24. maí sl. Þessi samtök eru á heimsvísu og láta sig varða allt sem við kemur skýrsluhaldi og skráningum búfjár og má þar nefna staðla fyrir skýrsluhald og rafræn samskipti, arfgreiningar, efnamælingar á mjólk, sæðisgæði og svo mætti áfram telja.

Guðmundur Jóhannesson.

Alls eru fyrirtæki og samtök frá 55 löndum aðilar að ICAR nú og fer stöðugt fjölgandi.

Bled er fallegur 8 þús. manna bær við Bled-vatnið í Efri-Karníólu í Slóveníu. Bærinn liggur um 50 km norðvestan höfuðborgarinnar, Ljubljana, við rætur Júlínönsku- alpanna. Aðalatvinnuvegurinn er ferðaþjónusta en á seinni hluta 19. aldar reisti svissneski náttúrulæknirinn Arnold Rikli heilsuhæli við Bled-vatn sem lagði að mörgu leyti grunn að ferðaþjónustu dagsins í dag. Núna eru nokkur stór og glæsileg hótel í bænum og afþreyingarmöguleikar miklir, eins og golf, hjólreiðar, fjallgöngur, siglingar o.fl. Triglav- þjóðgarðurinn er í nágrenni bæjarins en hann dregur nafn sitt af hæsta tindi Slóveníu og Júlíönsku-alpanna, Triglav (2.864 m). Triglav mætti þýða á íslensku sem Þríhöfði eða Þríhyrningur en triglav þýðir þríhöfða.

Ráðstefnur ICAR eru mjög oft í samvinnu og samstarfi við aðalfund Interbull og svo var einnig nú. Undirritaður sótti ráðstefnuna fyrir hönd RML en að venju var um fjölda erinda um hin ýmsu málefni nautgriparæktarinnar að ræða. Efnistök sem voru fyrirferðarmikil að þessu sinni snúa að aukinni notkun holdasæðis á mjólkurkýr samhliða aukinni notkun á kyngreindu sæði, loftslagsmálum og sjálfbærni auk þess sem gagnasamskipti og gagnamagn voru einnig til umræðu. Hér á eftir og á næstunni ætla ég að reyna að gera nokkra grein fyrir þeim erindum sem ég átti þess kost að hlýða á en auðvitað er ómögulegt að fylgjast með öllu þegar um samhliða málstofur er að ræða. Í þessari fyrstu frásögn beini ég sjónum að sameiginlegum fundi Interbull og ICAR fyrsta daginn sem hafði yfirskriftina nýir eiginleikar.

Rauði þráðurinn þar sneri að ræktun skilvirkari og úthaldsbetri kúa þar sem kastljósinu var beint að þunga kúnna, áti og metanlosun. Erindi voru m.a. frá Bretlandi þar sem menn hafa verið að skoða notkun sláturupplýsinga til þess að rækta kýr með betri fóðurnýtingu, þ.e. framleiða fleiri kg mjólkur á hvert kg fóðurs. Ástæðan er einkum sú að erfitt er að nálgast gögn um lífþunga kúa í þeim mæli að hægt sé að nota í ræktunarstarfinu. Notaðar voru upplýsingar um fallþunga, holdfyllingar- og fituflokkun. Í ljós kom að arfgengi fyrir fallþunga var 0,79, sem er ótrúlega hátt, en þess ber að geta að í gagnasafninu voru bæði mjólkur- og holdakýr. Arfgengi á holdfyllingarflokkun var 0,32 og á fituflokkun 0,36. Meðalkjötprósenta í gagnasafninu var 52% og áhrif kjötmats, daga frá burði og aldurs voru nokkur á kjötprósentuna.

Breytileiki í þunga jókst eftir því sem lengra leið frá burði. Samband lífþunga og fallþunga reyndist vera; lífþungi = 286 + 1,1 * fallþungi. Höfundar sögðu nauðsynlegt að hreinsa gögnin vel, setja t.d. mörk á daga frá burði við 400 daga og fram kom að tilfinnanlega vantar ástæðu förgunar til þess að geta hreinsað út sjúkar kýr sem skekkja gögnin vegna óeðlilega lítils fallþunga.

Danir, Finnar og Svíar kynntu verkefni á vegum norræna kynbótamatsins (NAV) sem gengur út á erfðamat fyrir efnaskiptaþunga. Efnaskiptaþungi er fall af lífþunga og er sambandið nálægt því að vera; efnaskiptaþungi = lífþungi 0,75. Eins og margoft hefur komið fram er neikvætt samband milli lífþunga og ýmissa framleiðslueiginleika sem endurspeglast kannski best í því að stórar kýr þurfa meira magn fóðurs til viðhalds en minni kýr án þess að mjólka meira. NAV stendur frammi fyrir þeim vanda að upplýsingar um lífþunga er takmarkaðar og fara minnkandi en hins vegar er aðgengi að gögnum um fallþunga gott. Fram kom að fylgni fall- og efnaskiptaþunga er há, eða 0,77- 0,85 eftir kúakynjum. Arfgengi fallþunga reyndist vera 0,56 hjá Holstein og rauðum kúm en 0,37 hjá Jersey-kúm. Meginniðurstaðan var sú að notkun sláturgagna við erfðamat fyrir fóðurnýtingu eykur öryggi matsins og minnkar skekkju þannig að erfðamat fyrir þennan eiginleika er betra en áður. Þetta er áreiðanlega eitthvað sem við getum dregið ákveðinn lærdóm af við þróun erfðamats fyrir fóðurnýtingu íslenskra kúa.

Karoline Bakke hjá Geno í Noregi kynnti erfðafræðilegt samband þurrefnisáts, lífþunga og framleiðslu iðrametans í norskum mjólkurkúm (NRF). Í rannsókninni var þurrefnisát og lífþungi borið saman við metanlosun kúnna með það að markmiði að bæta fóðurnýtingu og minnka metanlosun. Gögnum var safnað á 25 búum í Noregi á síðustu fjórum árum, alls 452 þús. mælingar á ríflega 2 þús. kúm. Helstu niðurstöður voru að meðalosun metans var 418 g/ dag, meðallífþungi var 607 kg og meðalát 20,4 kg þurrefnis/ dag. Arfgengi fyrir losun metans reyndist vera 0,39, 0,57 fyrir lífþunga og 0,29 fyrir þurrefnisát. Arfgengi fyrir þurrefnisát mældist hærra þegar keyrt var tvíbreytulíkan með losun metans sem þýðir að mælingar á metanlosun geta komið að gagni við kynbætur fyrir betri fóðurnýtingu. Karoline tók fram að rannsókninni væri ekki lokið og t.d. þyrfti að taka tillit til nythæðar þar sem aukinni nyt fylgdi meiri losun vegna aukinnar fóðurumsetningar. Meginniðurstaðan var þó í takt við aðrar rannsóknir, þyngri kýr -> meira át -> meiri losun.

Frá Háskólanum í Wageningen og CRV í Hollandi kom athyglisvert erindi þar sem markmiðið var að skoða hvort kynbæta mætti hraustar kýr fyrir enn meiri hreysti. Skoðuð var seigla (resilience) kúnna sem skýra má þannig að aukin seigla þýði að kýrnar jafna sig hraðar eftir áföll eins og t.d. júgurbólgu.

Í rannsókninni var seigla metin sem munur milli væntrar dagsframleiðslu mjólkur og raunverulegrar. Þannig er munurinn lítill hjá kúm með mikla seiglu en mikill hjá kúm með litla seiglu. Auk þess er tekið tillit til fjölda áfalla á mjólkurskeiðinu þannig að eiginleikinn er skilgreindur sem fjöldi áfalla og hversu hratt kýrnar jafna sig á þeim. Rannsóknin sýndi að seigla er með lágt arfgengi og jákvætt samband við heilsufars-, frjósemis- og endingareiginleika sem skýra 55% af eiginleikanum. Þau 45% sem út af standa eru hins vegar viðbótarupplýsingar varðandi heilsufar kúnna og geta því aukið á hreysti og endingu þeirra. Hollendingar hafa nú þegar birt kynbótamat fyrir eiginleikann þar sem t.d. 92 þýðir að það tekur kúna 14 daga að ná fyrri nyt eftir áfall og fjöldi áfalla á mjólkurskeiði er 4,8. Kynbótamat upp á 108 þýðir aftur á móti að kýrin verður fyrir 2,4 áföllum á mjólkurskeiði og jafnar sig á 7 dögum að meðaltali. Það þarf ekki að horfa lengi á þessar tölur til þess að sjá hve miklu máli skiptir að kýrnar jafni sig hratt á fáum áföllum til þess að fjárhagslegur ávinningur sé orðinn verulegur.

Seinni málstofurnar tvær fjölluðu einkum og sér í lagi um endurbætur aðferða við erfðamat og samanburð milli landa. Meðhöndlun óþekktra foreldra við keyrslu erfðamats fékk þó nokkra athygli sem og uppbygging á fjölþjóðlegu erfðamati þeirra landa sem nota EuroGenomicsflögu til arfgreininga. Þá var einnig umfjöllun um endurbættan hugbúnað til þess að meðhöndla gríðarstór gagnasöfn en slíkt er víða orðið áþreifanlegt vandamál með fjölgun mælinga, mæliþátta og arfgreindra gripa.

Sá lærdómur sem við getum dregið af þessum fundi og erindum er sá að við þurfum svo fljótt sem verða má að þróa mat fyrir fóðurnýtingu kúnna. Til þess höfum við nú þegar gögn um fallþunga kúnna en flest bendir til að bæta megi matið með fleiri mælingum á metanlosun. Hérlendis er einungis verið að mæla metanlosun á Hvanneyri en til þess að safna megi nægilegu magni gagna þyrfti að framkvæma þessar mælingar á fleiri búum. Jafnframt bættri fóðurnýtingu væri vert að huga enn betur að mati á heilsufarsþáttum og þar kemur eiginleiki eins og seigla sterkt inn í myndina. Slíkt er þó tæplega raunhæfur möguleiki fyrr en hægt verður að safna gögnum um dagsnyt verulegs fjölda kúa með rafrænum og sjálfvirkum hætti.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...