Dæmi um gólfmottuhönnun fyrir lokaða flóra, þar sem hönnunin tryggir að hland hreinsast hratt frá og rennur í safntank.
Dæmi um gólfmottuhönnun fyrir lokaða flóra, þar sem hönnunin tryggir að hland hreinsast hratt frá og rennur í safntank.
Mynd / Aðsendar
Á faglegum nótum 29. janúar 2025

Hægt að bæta verulega ammoníaksnýtingu fjósa

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Hvort sem það er nú sanngjarnt eða ekki, sérstaklega þegar horft er til flutninga á vörum og fólki um allar koppagrundir, þá eru kýr oft gerðar að umtalsefni þegar kemur að tali um sótspor. Fyrir vikið hafa vísindamenn um allan heim unnið að alls konar lausnum svo unnt sé að draga úr sótspori nautgriparæktar.

Vegna þessarar vinnu við rannsóknir á aðferðum til að minnka sótspor kúabúa koma reglulega fram nýjungar sem eru áhugaverðar fyrir kúabændur að því leyti að þær bæta nýtingu aðfanga og/eða afurða. Verður hér fjallað um nokkrar hugmyndir sem hafa komið fram og eiga að geta dregið úr uppgufun á ammoníaki frá fjósum, og um leið aukið áburðargildi búfjáráburðar.

Gólfið

Eitt af því sem bændur geta gert til þess að draga úr losun á ammoníaki frá fjósum sínum er að horfa sérstaklega til gólfgerðarinnar sem er notuð. Fjós með haughúsi eða stokkakerfi eru mjög opin, þ.e. oftast eru rimlar yfir þessum hauggeymslum, og upp úr þeim gufar ammoníak. Erlendis hefur mikil vinna verið lögð í að finna leiðir til þess að draga úr þessari uppgufun, m.a. með sérstaklega hönnuðu gólfkerfi sem lokar vel á uppgufun ammoníaks en um leið er ákjósanlegt fyrir skepnur þ.e. þegar horft er til dýravelferðar. Í raun snýst verkefnið um það að draga úr yfirborðinu sem loft getur leikið um og þar með minnkar uppgufunin „sjálfkrafa“. Þeir sem eru með lokaða flóra eru í raun betur settir en hinir með haughús undir eða stokka en þó eru til lausnir fyrir allar fjósgerðir.

Með því að minnka yfirborð mykjunnar er hægt að draga úr uppgufun ammoníaks frá henni.

Gólfmottur

Í dag eru í boði margs konar gerðir af gólfmottum sem hafa það að markmiði að hafa áhrif á ammoníakslosun frá gólfi undir nautgripum. Fyrir lokaða flóra, þ.e. flóra sem þarf að skafa reglulega, eru til gólfmottur sem leiða hland frá gólfinu hratt og örugglega en það dregur úr losun ammoníaks. Svona mottur geta verið hallandi eða með rásum og leiða þá hlandið að rennu, sem svo liggur að einhvers konar söfnunartanki.

Fyrir bændur sem eru með gólfbita á göngusvæðum eru líka til lausnir sem einnig draga úr uppgufun ammoníaks og þá eru það fyrst og fremst gólfmottur sem eru með færri og/eða minni op en eru fyrir á milli gólfbitanna. Hönnun slíkra gólfmotta er miðuð við að opnunin sé þó enn nógu mikil svo að mykjan falli niður á milli.

Hlandrennur

Fyrir utan það að draga úr yfirborði fjósgólfanna, til að minnka uppgufun ammoníaks, þá þarf að vera til staðar söfnunarkerfi fyrir hlandið. Í raun eru til margar aðferðir til þess að koma hlandi frá þeim stað sem það fellur til og yfir í lokaða geymslu en líklega er algengast í dag, í fjósum víða um heim, að veita því í eins konar rennum frá gólfinu og að geymslustað (sjá mynd).

Líklega eru hlandrennur í lokuðum flórum algengasta aðferðin sem er notuð í dag til að koma hlandi yfir í söfnunartanka.

Kúaklósett

Undanfarin ár hafa komið fram alls konar nýjungar sem miða að því sama, þ.e. að finna leiðir til þess að draga úr losun ammoníaks frá fjósum en líklega er engin þó eins framandi og svokallað kúaklósett frá fyrirtækinu Hanskamp! Kerfið byggir á því að vera með sérstakan söfnunarbúnað sem er settur upp á kjarnfóðurbása í fjósum. Kerfið virkar þannig að kýrnar fara inn í kjarnfóðurbása, til þess að fá þar aukaskammt af tilbúnu fóðri, og þegar þær eru komnar inn í básana fer lokunarbúnaður niður aftan við kýrnar og á búnaðinum eru eins konar fötur sem safna því sem til fellur á meðan kýrnar éta! Með þessu móti er hægt að minnka það magn af mykju sem annars myndi falla á gólf fjósanna og safna þannig saman bæði skít og hlandi og koma beint í söfnunartanka. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hanskamp minnkar ammoníaklosunin um 50% ef svona kúaklósettum er komið fyrir í fjósum.

Kúaklósettið frá fyrirtækinu Hanskamp er áhugaverð nýjung, sem hefur þó enn ekki náð mikilli útbreiðslu.

Fleiri nýjungar

Hér að framan hafa verið nefndar nokkrar þekktar aðferðir við að draga úr losun ammoníaks frá fjósum og er sú upptalning engan veginn tæmandi. Bæði eru til fleiri aðferðir sem og aðrar aðferðir sem eru í raun mun tæknilegri og þróaðri. Þá má leiða að því líkum að fleiri nýjungar líti dagsins ljós á komandi tímum. Eitt kerfi er þegar orðið nokkuð notað en það er frá hollenska fyrirtækinu Lely og heitir Sphere. Sphere er í raun fullþróað kerfi þar sem gengið er enn lengra í ferlinu við að draga úr losun, með því að meðhöndla mykjuna sérstaklega með hvötum og ná þannig fram enn betri eiginleikum búfjáráburðarins.

Kerfið aðskilur í raun mykjuna í þrjá meginflokka: Þvagið sjálft sem inniheldur kalíum, þurrefni mykjunnar sem inniheldur lífrænt köfnunarefni og fosfat, og að síðustu í áburðarhæft steinefni í sýrðri lausn síunarkerfis Lely Sphere. Með þessu móti geta bændur mun betur en áður stjórnað næringarefnaflæðinu yfir á tún og akra og ná þannig betri nýtingu á mykjunni. Samkvæmt hollenskum rannsóknum má minnka losun ammoníaks frá hefðbundnu fjósi um allt að 77% sé þetta nýstárlega kerfi notað.

Hvað sem framtíðin hefur upp á að bjóða er næsta ljóst að kúabúum mun standa til boða margs konar áhugaverðar lausnir til þess að hámarka nýtingu næringarefna og bæta enn frekar hina mikilvægu hringrás næringarefna, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á efnahag og umhverfi.

Lely Sphere er sérþróað söfnunarkerfi fyrir ammoníak.

Skylt efni: Fjós | ammoníak

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...