Heggur (Prunus padus)
Heggur er blómstrandi tré af rósaætt og náskyldur kirsuberjatrjám. Í raun má segja að heggur sé beinlínis kirsuberjatré enda ættkvíslarheitið það sama.
Gallinn við kirsuberin á heggnum er þó sá að aldinið utan á fræhylkinu eða steininum er mjög lítið. Því eru þessi ber ekki þægileg undir tönn. Þau eru raunar líka beiskari en þau kirsuber sem vinsælust eru til átu enda hefur heggur ekki verið kynbættur með bragðgæði berjanna í huga.
Aðra kosti hefur heggur hins vegar marga. Hann er hraðvaxta fyrstu árin en fer þó snemma að blómstra og þá dregur úr hæðarvextinum. Á haustin prýðist hann svörtum berjum. Hérlendis ætti heggur að geta náð að minnsta kosti tíu metra hæð ef honum er leyft að vaxa upp sem einstofna tré. Gjarnan er hins vegar sóst eftir því að heggur breiði úr sér sem stór, margstofna runni frekar en tré enda verður blómskrúðið meira eftir því sem plantan er marggreindari og víðfeðmari.
Heggur er nefnilega mjög blómviljugur og gjarnan blómstrar hann ríkulega á hverju ári. Tegundin á uppruna sinn á breiðu belti frá Mið- og Norður- Evrópu austur til Asíu allt til Kína, Kóreu og Japans. Hann er jafnvel að finna á afmörkuðum svæðum í Suður-Evrópu og Norður-Afríku, í Himalajafjöllum og víðar. Hérlendis þrífst hann vel og er mjög harðgerður ef ræktuð eru kvæmi frá t.d. Norður-Noregi. Suðlægari kvæmi henta einkum á sunnanverðu landinu. Heggur þarf þó alltaf rakan og frjósaman jarðveg til að þrífast vel.
Á Íslandi hefur heggur lengi verið notaður í garðrækt en tvímælalaust má mæla með aukinni ræktun hans í stálpuðum skógum, einkum til fegrunar á skógarjöðrum, við vegi og heimreiðar, í rjóðrum og við áningarstaði í skógum. Þar nýtur hann sambýlis við aðrar trjátegundir. Rétt er að velja honum sólríka staði þar sem hann er líklegastur til að blómstra vel. Og jafnvel þótt okkur mennina langi ekki í berin af honum gæða fuglar sér á þeim og þannig styður heggur við fuglalífið í skóginum og nágrenni hans. Auk þess að gróðursetja hegg sem stök tré í bland við aðrar tegundir er ekki er úr vegi að gróðuretja hann í lundum í frjósömu landi. Hann þolir vel vindálag og frost á óheppilegum tímum.
Blóðheggur er rauðblaða afbrigði af hegg sem fannst í gróðrarstöðinni Fagerhult í Smálöndunum í Svíþjóð snemma á síðustu öld. Allur blóðheggur er væntanlega kominn af því eina tré. Rauði liturinn stafar af stökkbreytingu í genamengi trésins en kemur líka fram í blómum hans sem hafa tilkomumikinn bleikan lit. Blóðheggur hefur talsvert verið ræktaður hérlendis og er ekki síður harðger en sá græni. Meindýr virðast jafnvel hafa heldur minni lyst á honum en venjulegum grænum hegg. Ekki er að sjá að rauði liturinn hamli vexti blóðheggs miðað við grænan hegg. Til veikleika tegundarinnar má helst telja hættu á kali hjá suðlægum kvæmum og stundum herjar á hann sveppsjúkdómur sem kemur í veg fyrir eðlilegan þroska berja. Tjón af völdum meindýra er sjaldan verulegt.
Margir lesendur kannast ef til vill líka við annan rauðleitan hegg, svokallaðan virginíuhegg. Hann er reyndar stökkbreytt afbrigði annarrar heggtegundar norður- amerískrar, Prunus virginiana. Á rauðum virginíuhegg vaxa blöðin út græn á litinn en verða smám saman rauð. Eftir því sem líður á sumarið og nývöxtur minnkar dregur úr hlutfalli grænna blaða og tréð verður æ rauðara á litinn. Liturinn á rauðum virginíuhegg er enn dýpri og tilkomumeiri en á blóðhegg, sérstaklega þar sem hann nýtur vel sólar.
Óhætt er að mæla með aukinni ræktun á hegg vítt og breitt um landið, bæði í görðum og skógum, hvort sem liturinn er grænn eða rauður. Þótt hann verði hins vegar seint til timburnytja að ráði, er viðurinn bæði harður og oft með fagurlitaðan kjarna og því gætu eldri tré gefið spennandi efnivið til minni háttar smíða og handverksiðju.