„Við stöndum þétt saman ...“
Mynd / John Wayne Hill
Af vettvangi Bændasamtakana 5. desember 2024

„Við stöndum þétt saman ...“

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Atburðarásin í íslensku stjórnmálunum hefur verið hröð síðustu vikurnar og þegar þessar línur eru skrifaðar bendir ýmislegt til þess að á því verði engin breyting. Ný ríkisstjórn sýnist í burðarliðnum og þrír flokksformenn nálgast stjórnarmyndunarviðræðurnar meira að segja syngjandi um að „Valkyrjustjórnin“ „standi þétt saman og snúi bökum saman“. Hvort sem þessi fyrsta sviðsmynd verður að veruleika eða einhver önnur, og þá væntanlega yfir á hinn væng pólitíska litrófsins, leyfi ég mér að vera bjartsýnn á að stjórnarmyndunarviðræður klárist á skömmum tíma. Í fyrsta lagi vegna þess að línurnar til bæði hægri og vinstri virðast nokkuð skýrar og í öðru lagi vegna þess að okkur liggur á að fá að stjórnvelinum vaska sveit sem setur sér metnaðarfullan kúrs og gengur hratt til verka.

Trausti Hjálmarsson.

Stóru málefnin sem mest voru til umræðu í aðdraganda kosninganna, s.s. efnahagsmálin, heilbrigðismál, velferðarmál og menntamál munu að sjálfsögðu rata inn í nýjan stjórnarsáttmála og sem betur fer líka margt sem lítið sem ekkert var minnst á í kosningabaráttunni. Umhverfismálin, loftslagsmál, virkjanaframkvæmdir og framboð á raforku eru þar á meðal og vonandi er að atvinnulífinu verði tryggð viðunandi umgjörð. Án verðmætasköpunar þess er tómt mál að tala um fjárhagslegan styrk til þess að standa undir þeirri fyrsta flokks þjónustu sem íslenskur almenningur gerir svo skýlausa kröfu um.

Íslenski landbúnaðurinn leggur í þeim efnum mikið af mörkum til samfélagsins. Ekki eingöngu fjárhagslega heldur einnig í lykilhlutverki sínu varðandi fæðuöryggi þjóðarinnar. Þar má reyndar betur ef duga skal. Þrátt fyrir talsverðan eigin styrk og framleiðslugetu erum við háð innflutningi á áburði, kjarnfóðri, olíu og ýmsu öðru sem knýr frumframleiðslu landbúnaðarins. Þær birgðir sem til eru í landinu hverju sinni duga skammt ef skyndilega lokast fyrir aðgengi að slíkum aðföngum. Á því þarf að gera bragarbót.

Við höfum alls staðar mætt miklum áhuga á málefnum landbúnaðarins hjá frambjóðendum og mörgum þeirra sem að afloknum kosningum sitja á þingi. Þess vegna er ég vongóður um að ný ríkisstjórn muni taka tafarlaust á brýnustu málunum sem snúa að bændum og flestum er ljóst að mörg þeirra hafa verið látin reka á reiðanum alltof lengi.

Stærsta og brýnasta viðfangsefnið mun vonandi rata alla leið inn í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Íslensk stjórnvöld geta ekki deginum lengur látið ásælni og uppkaup erlendra auðkýfinga á íslensku landi sig engu varða. Bændasamtökin vöktu á þessu athygli í auglýsingum, á sérstökum fundum með frambjóðendum og á þeim fjölmörgu bændafundum sem efnt var til í nóvember. Á þá fundi mættu auk bænda fjölmargir frambjóðendur og þingmenn sem fyrir vikið eru meðvitaðir um hættuna sem að steðjar vegna stefnuleysis stjórnvalda.

Nýleg fyrsta frétt Stöðvar 2 um málið með góðu viðtali við nýráðinn framkvæmdastjóra okkar hratt af stað talsverðri umræðu um þessi ískyggilegu uppkaup og hættuna á því að íslenskt land verði selt á uppsprengdu verði vegna t.d. dýrmætra vatnsréttinda, framlags eigendanna til kolefnisjöfnunar eða annars sem ekkert hefur með hefðbundinn landbúnað og lífsnauðsynlega matvælaframleiðslu að gera.

Og ný ríkisstjórn þarf í senn að þekkja tækifærin, hin jákvæðu „grænu ljós landbúnaðarins“, og skilja þann aðsteðjandi vanda sem blasir við. Án nauðsynlegrar nýliðunar verður íslenskur land- búnaður hvorki fugl né fiskur þegar til lengri framtíðar er litið. Hann verður líka hálfgerður vesalingur ef stór hluti bænda í ýmsum búgreinum neyðist til þess að drýgja tekjurnar með verulegri aukavinnu utan býlisins og um leið vinnuálagi sem stórlega skerðir lífsgæði. Fyrir rúmu ári síðan lét þáverandi matvælaráðherra þau orð falla að íslenskir bændur búi ekki í sama efnahagslega veruleika og aðrir og það gangi ekki upp.

Stefnuleysi stjórnvalda hvað varðar eignarhald og nýtingu þess lands sem þjóðinni er treyst fyrir er nú þegar farið að skemma út frá sér. Sama má segja um stefnuleysi í umhverfisþáttum landbúnaðarins og um leið t.d. stuðning við búgreinar á borð við landgræðslu og skógrækt. Í langflestum búgreinum þurfa bændur skýra stefnu í tollvernd sem tryggir þeim hið minnsta rekstrarskilyrði og stuðning sem talist getur sambærilegur við það sem kollegum þeirra í nágranna- og viðmiðunarlöndum okkar bjóðast.

Búvörusamningar renna út í lok ársins 2026. Reynslan kennir okkur að samningaviðræðurnar sem þeim tengjast á milli stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands mega ekki hefjast seinna en um leið og ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og tekið við veldissprotanum. Það er íslenskur ósiður að setjast ekki niður við samningaborðið fyrr en í óefni er komið. Búvörusamningar eru víðfeðmir og flóknir. Þeir krefjast langs tíma í greiningarvinnu og skoðanaskipti. Dagleg óvissa bænda um fjölmarga þætti í rekstri sínum er miklu meira en nægileg án þess að búvörusamningar séu líka í lausu lofti.

Niðurstöður í nýlegri viðhorfskönnun sem Gallup gerði fyrir Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í landbúnaði verður nýrri ríkisstjórn vonandi hvatning til dáða í málefnum landbúnaðarins. Í henni kom fram að 87,6% landsmanna eru mjög eða frekar jákvæðir gagnvart íslenskum bændum og 80% svarenda töldu best að flestar eða allar landbúnaðarvörur væru framleiddar hér á landi. Niðurstöðurnar eru bæði afgerandi og ánægjulegar. Þjóðin stendur „þétt saman og snýr bökum saman“ í afdráttarlausri samstöðu sinni með íslenskum bændum og ánægju með gæðin í framleiðslu þeirra.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...