Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Brú yfir Þjórsá úr íslensku timbri.
Brú yfir Þjórsá úr íslensku timbri.
Af vettvangi Bændasamtakana 11. mars 2024

Vegferð viðar og vinnslu

Höfundur: Eiríkur Þorsteinsson, Ólafur Sæmundsen og Hlynur Gauti Sigurðsson.

Skógrækt er langtímaverkefni. Við tölum ekki í áratugum heldur árhundruðum, sem er ekki langur tími í skógrækt.

Fyrstu tré til viðarvinnslu eru alla jafna um 50 ára gömul. Plöntur verða að trjám, skógar verða til og fjöllin eru farin að hverfa á bak við trén. Viðarafurðir sem koma úr skógunum eru orðnar að markaðsvöru og núna á næstu árum mannvirkjum.

Þegar við hófum skógrækt fyrir um það bil 70 árum var markmiðið
að sanna að tré til vinnslu gætu vaxið hérlendis. Nýr skógur gæti klætt landið og bætt fyrir það hvernig við eyddum landnámsskógunum með fjárbeit og kolavinnslu, sem var veruleg þörf þegar litla ísöldin gekk yfir.

Útgerðarbóndi frá Vestmannaeyjum hafði það að orði þegar hann var í Heiðmörk að gróðursetja tré 1954: „Ég vil gjarnan fá þennan mann í vinnu við að selja fisk sem gat sannfært menn um að hægt væri að rækta hér skóg í þessum mosa og hrauni.“ Þessi mikli viðskiptamaður hafði trú á því sem við vorum að gera og vildi gjarnan nýta þekkingu þess manns í viðskiptum. Nú er Skógræktarfélag Reykjavíkur að fella þessi tré og nýta í timburvinnslu. Timburvinnsla á trjám, sem voru ræktuð fyrir 40–70 árum og nú er verið að fella í fyrstu grisjun, er staðreynd og er timbrið nýtt í klæðningar, eldivið, kurl, kyndiköggla, brettaefni, gólfefni, pallaefni, útivistargögn, s.s. borð og bekki, o.s.frv.

Íslenskt flettiefni.

Nýr áfangi er í augsýn. Nú mun væntanlega með vorinu hefjast framleiðsla á íslensku timbri fyrir burðarvirki. Sem sagt efni sem er CE merkt og þar með vottað til framleiðslu í burðarvirki þar sem timbur er notað. Við höfum nú þegar framleitt mannvirki úr íslenskum viði, sem þurfti vottun, en það var nýleg göngubrú yfir Þjórsá. Að þeirri vottun og framleiðslu sameinuðust Límtré Flúðum, Norsk Treteknik og Trétækniráðgjöf slf. CE merking á íslensku timbri kallar á að hönnuðir horfi á það með sömu augum og útgerðarbóndinn í Eyjum og hafi trú á því fyrir þær byggingar sem þeir eru að hanna um leið og þeir horfa til allrar þeirra vinnu sem hefur verið lögð í þessa ræktun. Skógrækt er langtímaverkefni þar sem við tölum um 50–100 ár til að ná árangri. Þetta timbur sem við erum að byrja að nota er úr grisjun á 50–70 ára gömlum trjám. Fyrir rúmu ári síðan vannst stór áfangi þegar íslenskt timbur varð gjaldgengt í Svansvottaðar byggingar, en með CE merkingu verður íslenskur viður enn eftirsóttari.

Í upphafi þessa árs fékkst veittur styrkur úr Aski mannvirkjarannsóknarsjóði til að vinna veg og vanda að CE vottun fyrir íslenskt timbur. Bændasamtök Íslands veittu styrknum viðtöku ásamt Trétækniráðgjöf slf. en að baki umsókninni stóðu einnig Skógræktin og Skógræktarfélag Íslands. Skógrækt á Íslandi hefur þau forréttindi að hún er ung og við höfum þekkingu á því hvaðan hver planta er komin.

Því er tiltölulega auðvelt fyrir okkur að halda utan um uppruna hvers trés sem er fellt og tryggja sjálfbærni skóga hér á landi. FSC vottun kemur síðar enda skilyrði þegar við tölum um útflutning á trjávörum.

Trú okkar Íslendinga á því að hér yxu skógar sem myndu skila viðarafurðum óx þegar Viðarmiðlun Skógræktarinnar var stofnuð í júlí 1996 og hóf sölu á trjávið. Fyrirtæki eins og Byko kom inn í þetta samstarf og var Jón Helgi Guðmundsson forstjóri þar í forystu. Þjóðarvakning varð og má nefna klæðningu á Salnum í Kópavogi sem dæmi. Arkitektar sýndu mikinn áhuga á þessu nýja íslenska byggingarefni og voru fleiri vörur og byggingar búnar til úr íslenskum efniviði.

Um miðja öld voru trjáplöntur aðallega framleiddar af Skógræktar- félagi Reykjavíkur og skógræktarfélögunum. Þrjár stærstu gróðurstöðvar Skógræktar ríkisins voru á Tumastöðum, Vöglum og Hallormsstað. Plönturnar dreifðust í nærumhverfið, s.s. Haukadal, Þjósárdal, Vaglaskóg, Hallormstaðaskóg og víðar.

Skógræktarfélag Reykjavíkur og Skógræktarfélag Eyfirðinga framleiddu plöntur fyrir Öskjuhlíð, Heiðmörk, Kjarnaskóg og nánasta umhverfi. Þær trjátegundir sem mest var gróðursett á þessum árum, og eru að koma til vinnslu núna, voru sitkagreni, lerki, stafafura og alaskaösp. Aðrar tegundir voru gróðursettar til skrauts, eins og birki, víðitegundir, bergfura, skógarfura, rauðgreni og fleiri. Nú, þegar vaxtarskilyrði hafa víða batnað fyrir viðkvæmar tegundir, mætti vel hugsa sér að koma upp laufskógarlundum með eins og t.d. reyniviði, sem er okkar harðviður, og fleiri tegundum í þeim dúr, t.d. eik, hlyni og aski.

Áður en lengra er haldið er rétt að útlista hvaða trjátegundum var plantað á þessu tímabili þ.e.a.s. fyrir 40 til 70 árum. Við tökum fyrir skógsvæðin hér á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Austurlandi og Norðurlandi. Trjá- tegundirnar sem verða nýttar frá þessum svæðum eru timbur úr trjám af ætt berfrævinga og eru trjátegundir sem vaxa í Norður-Ameríku og Norðaustur- Evrópu eins og skilgreint er í staðlinum ÍST EN 1912.

(Skógarfura – Pinus sylvestris. Stafafura - Pinus contorta. Rauðgreni – Picea abies. Sitkagreni - Picea sitchensis. Evrópulerki – Larix decidua. Síberíulerki – Larix sibirica. Rússalerki – Larix sukaczewii). Í nánustu framtíð má reikna með að alaskaöspin – Populus trichocarpa – verði nýtt sem burðarviður.

Skógarauðlindin fer stækkandi. Í þjóðskógunum er elstu tré landsins að finna og hefur grisjunarviður þeirra skóga verið nýttur af mætti yfir áratugina. Skógar skógræktarfélaganna hafa einnig vaxið vel og nú ber mjög á uppgangi hjá nokkrum félögum í viðarvinnslu. Má þar helst nefna skógræktarfélög Reykjavíkur, Eyfirðinga og Árnesinga en nokkur til viðbótar eru líkleg til leiks innan fárra ára. Síðastir í upptalningunni en alls ekki sístir koma skógarbændur. Þó þeirra skógar séu mun yngri en fyrrgreindu frumkvöðlanna tveggja er samanlagt flatarmál þeirra skóga mest. Skógar bænda stækka vel og jafnvel betur en þeir sem eldri eru. Kemur það m.a. til út af aukinni þekkingu og reynslu sem frumkvöðlarnir hafa öðlast. Val á efniviði hefur mikið að segja um árangur skógræktarinnar. Plöntu- og kvæmaval til gróðursetningar síðustu ára eru alla jafna fyrsta flokks með tilliti til vaxtar og gæða. Reikna má með miklu framboði viðar frá skógarbændum til vinnslu á næsta áratug eða svo. Þörfin fyrir grisjun er víða orðin aðkallandi. Það stefnir því í að innan fárra ára verði mjög mikil aukning á framboði á íslenskum viði. Við þetta má bæta að verðlag á viði er í hæstu hæðum á heimsvísu um þessar mundir og gefur það tilefni til að íslenskt timbur sé ekki eingöngu samanburðarhæft í gæðum en ekki síður verði.

Ljóst er að íslenskur viður er samanburðarhæfur við innfluttan burðarvið og innan skamms verður það fyrir allra augum með innleiðingu CE merkingar. Íslensku skógarnir hafa sannað sig. Okkur er því ekkert að vanbúnaði við að byggja úr heimafengnum efniviði.

Skylt efni: Skógrækt

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...