Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Eitur á akra í nafni umhverfisverndar?
Lesendarýni 13. apríl 2023

Eitur á akra í nafni umhverfisverndar?

Höfundur: Gunnar Bjarnason. Höfundi er annt um íslenskan landbúnað og góða ímynd hans.

Í 4 tbl. Bændablaðsins 2023 birtist grein sem ég hélt fyrst að væri eftir talsmann eiturefnaframleiðanda. Greinin er eftir starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands, þá Hrannar Hilmarsson og Egil Gautason og ber titilinn „Notkun varnarefna í íslenskri akuryrkju“, og undirtitill er „Varnarefni geta verið umhverfisvænn kostur.“ Já, kæri lesandi, lestu þetta aftur – „notkun eiturs, getur verið „umhverfisvænn kostur“.

Í greininni finna þeir Hrannar og Egill að því að notkun Íslendinga á illgresiseitri, sveppaeitri og skordýraeitri sé svo lítil á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd að Ísland skipi sér í flokk með þróunarlöndum vegna lítillar eiturefnanotkunar í akuryrkju. Markaðsdeildir eiturefnaframleiðenda hafa reyndar fyrir löngu fundið út að almenningi þykir ekki góð tilhugsun að borða eitur. Því var orðið varnarefni fundið upp, það hljómar jú betur og truflar neytendur síður.

Ég ætla ekki að rengja þær tölur sem þeir félagar setja fram um magn eiturs sem notað er á Íslandi eða á Norðurlöndunum. Höfundarnir eru báðir starfsmenn LbhÍ við tilraunir og kennslu í landbúnaði og hafa án efa aðgengi að traustum gögnum til að stilla þessum samanburði milli Norðurlandanna upp. Ég vil því þakka þeim fyrir að upplýsa okkur um að íslenskir bændur standi sig betur í þessum efnum en bændur í löndunum í kringum okkur og vona ég að svo verði áfram. Ég sé þetta sem stórt tækifæri fyrir íslenska bændur til að styrkja þá ímynd að íslenskar landbúnaðarvörur séu hágæðavara.

Ég efast ekki um að Hrannar og Egill séu færir á sínu sviði og grein þeirra sé sett fram af góðum hug með það að markmiði að benda bændum á leiðir sem geta aukið uppskeru og dregið úr hættu á tjóni. Ég vil hins vegar setja spurningamerki við það sem mér finnst skína í gegnum skrif þeirra, að „hámarks uppskera, hvað sem það kostar“ sé hið eina rétta sem stefna skuli að í landbúnaði. Ef ekkert annað en hámarksafköst skiptir máli, hafa þeir félagar ef til vill rétt fyrir sér þegar þeir tala fyrir aukinni eiturnotkun í akuryrkju á Íslandi? Með sömu rökum er víða um heim verið að blanda sýklalyfjum í fóður eldisdýra, því rannsóknir sýna jú fram á að íblöndun sýklalyfja hraðar vexti dýra, gefur meira kjöt og því meiri afköst framleiðslueiningarinnar. Sú hugsun að hámarka framleiðslu og skammtímahagnað án tillits til hagsmuna umhverfis, eldisdýra, vinnuafls eða annars hefur valdið stórkostlegum vandamálum víða um heim jafnt í landbúnaði sem og öðrum atvinnugreinum.

Hrannar og Egill eru annars vegar tilraunastjóri og hins vegar lektor við eina landbúnaðarháskóla landsins. Í stefnu skólans kemur m.a. fram að hlutverk skólans sé að „skapa og miðla þekkingu á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu á norðurslóðum.“

Einmitt í ljósi þessa kvikna margar spurningar og ég sakna þess að þeir félagar taki sér tíma í að miðla til okkar, bæði bænda og almennings hvaða aðrar leiðir gætu verið færar til að auka uppskeru og minnka líkur á uppskerubresti af völdum sjúkdóma eða plága. Ég held að þeir hafa þekkinguna til þess. Þó eiturnotkun geti vissulega í einhverjum tilfellum verið réttlætanleg eða nauðsynleg, þá ætti hún að vera síðasta úrræðið. Eða hvað? Forfeður okkar komust að því að sáðskipti draga mjög mikið úr sjúkdómaálagi og næringarefnaþurrð í jarðvegi.

Í grein Hrannars og Egils segir orðrétt: 

„Það er hins vegar ekki raunhæft að gera ráð fyrir að öll kornrækt sé í sáðskiptum við túnrækt og því verður meiri þörf fyrir varnarefni með aukinni kornrækt hérlendis.“

Í alvörunni? Er þessi framtíðarsýn það sem okkar færustu sérfræðingar hjá framsæknum háskóla, sem vill stuðla að nýsköpun, sjá fyrir sér?

Væri ekki betra fyrir bændur að reyna að haga ræktun þannig að öllum ráðum sé beitt til að minnka líkur á að sjúkdómar komi upp? Varla er túnrækt eini möguleikinn þegar kemur að sáðskiptum?

Í greininni er fullyrt: „... varnarefni verði sífellt minna skaðleg eftir því sem vísindum fleygir fram.“ Er það alveg víst að þessi nýju efni séu minna skaðleg eða er það möguleiki að framleiðendur efnanna segi okkur það þar til annað kemur í ljós? Slík dæmi þekkjum við úr fortíðinni. Eiga neytendur kannski rétt á því að efnin séu skaðlaus en ekki bara minna skaðleg?

„Íslenskt – þú veist hvaðan það kemur“

Kannanir hafa sýnt að Íslendingar treysta íslenskum bændum og kjósa íslenskar vörur fram yfir innfluttar. Ein ástæðan þess er ímynd um hreinleika, s.s. að sýklalyfjanotkun við kjötframleiðslu og eiturefnanotkun við akuryrkju sé minni en í útlöndum. Þessu hafa íslenskir bændur verið duglegir að halda á lofti. Getur verið að einmitt þar liggi tækifæri fyrir íslenska bændur, að stunda arðbæran landbúnað og fá hærra verð fyrir afurðir sínar þar sem þær eru hreinni og framleidddar í meiri sátt við umhverfið en í útlöndum?

Við Íslendingar getum og eigum að mínu mati að framleiða mun meira af þeirri matvöru sem við neytum hér. Við eigum hins vegar ekki að gefa afslátt af gæðum þó það sé gert í útlöndum. Það geta auðvitað komið upp vandamál sem bændur geta ekki leyst sjálfir og þurfa þá að treysta á fræðimenn og menntastofnanir, sem hafa ekki bara þekkinguna heldur líka metnað til að finna nýjar lausnir á vandamálum gærdagsins.

Er aukefnunum ofaukið?
Lesendarýni 30. desember 2024

Er aukefnunum ofaukið?

Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég ...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytj...

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...