Raunhæfar leiðir til að efla nautgriparækt á Íslandi
Samkvæmt öllum tölulegum upplýsingum um afkomu íslenskra kúabænda sem lesa hefur mátt um hér á síðum Bændablaðsins, þá hefur þróun á kjörum þeirra verið afleit undanfarin ár. Frá forystumönnum bænda hafa tillögur til aðgerða verið mjög sparlegar. Mestmegnis hafa það verið lítt raunhæfar kröfur til ríkisvaldsins um aukin framlög þaðan. Það er kunnara en frá þurfi að segja að eitt af markmiðum búvörulaga, sem eru farvegur samskipta bænda og ríkisvaldsins, var að draga úr ríkisstuðningi en ekki auka hann.

Með þessum skrifum ætlum við að benda á örfá atriði sem við ætlum að gætu stuðlað að bættri stöðu mjólkurframleiðenda á næsta áratug eða svo. Byrjum samt á að rifja upp atriði úr sögunni sem bestu menn virðast fljótir að gleyma og skýrast kemur fram í viðtali við Guðna Ágústsson í Mbl. 7. desember sl. þar sem tímaskyn hans virðist hafa skolast til; nautgripabrennurnar miklu á Bretlandseyjum um síðustu aldamót voru vegna faraldurs gin- og klaufaveiki en höfðu ekkert með kúariðu að gera.
Búnaðarlög og tilraunainnflutningur
Með setningu búnaðarlaga árið 1998 var lögfest beint samráð ríkis og bænda um að móta með samningum átak sem stuðlaði best að m.a. auknum tekjum bænda. Þar var gengið út frá framlagi bæði bænda og ríkisins. Þarna voru ýmsir góðir hlutir gerðir, sem hér verða ekki ræddir nema einn sem að vísu komst ekki til framkvæmdar vegna afstöðu bænda sjálfra þegar á reyndi. Það sem hér er rætt um voru tillögur um innflutning á erlendum kúm til kynbóta á íslenska kúastofninum. Þetta samþykkti Guðni sem þá var landbúnaðarráðherra en bændur höfnuðu.
Innflutningur áður fyrr
Landnámsmenn komu með það sem kallað er íslenska kýrin frá nágrannalöndum, hliðstætt því sem lagt var til fyrir aldamótin.
Umræða var lengstum ákaflega lítil um innflutning en einstaka höfðingjar og danskir kaupmenn fluttu inn gripi og skjalfestar heimildir eru um danskt naut á Möðruvöllum í Hörgárdal um 1900 sem líklega má finna kýr út af. Síðan upp úr 1940 gerist Runólfur Sveinsson, skólastjóri á Hvanneyri, talsmaður innflutnings. Þá var verið að flytja inn sauðfé og holdanaut en frekari innflutningur fékk ekki undirtektir þá. Kringum 1990 fór Benjamín Baldursson, bóndi á Ytri-Tjörnum (faðir annars greinarhöfunda), að ræða innflutning mjólkurkúa. Aðalfundur LK lýsti fljótt samhljóða stuðningi við málið og beitti sér fyrir að tilraun var gerð í Færeyjum með íslenskar kýr og NRF kýr fæddar í Færeyjum. Yfirburðir NRF kúnna voru öllum sem að tilrauninni komu augljósir og Gunnar Ríkharðsson kynnti hana og niðurstöður vel. Ein ljósmynd úr tilrauninni sagði meira en þúsund orð. Færeyingar virðast síðan lifa jafnvel af afurðum NRF kúnna og við af okkar. Samtök bænda óskuðu í viðræðum um búvörusamninga í framhaldinu eftir stuðningi við þessa hagræðingaraðgerð. Guðni, sem var þá landbúnaðarráðherra, samþykkti en bændur höfnuðu því miður og ekki er séð nú að það hafi verið þeim til hagsbóta.
Fyrri rannsóknir
Árið 2007 komu út útreikningar á samanburði á íslenskum kúm og kúm af nokkrum kúakynjum með notkun framleiðsluhermunar. Einn af höfundum þeirrar skýrslu er núverandi fjármálaráðherra lýðveldisins. Útkoma úr þannig útreikningum er verulega háð vali á forsendum. Að okkar mati voru þær því miður valdar um of íslenska kúakyninu í vil. Niðurstöður sýndu samt verulega hagkvæmni með norrænu kynjunum. Umræða varð nær engin um þessi mál þá.
Skýrsla Landbúnaðarháskólans
Nú hefur LbhÍ gefið út skýrslu með nýjum útreikningum: „Samanburður á rekstrarhagkvæmni mjólkurframleiðslu á Íslandi með íslenskum og erlendum mjólkurkúakynjum.“ Samanburðarkynin við það íslenska eru öll norræn. Meðal höfunda eru nokkrir bestu landbúnaðarvísindamenn okkar, þó að við bendum á að heitið hefði mátt vera skýrara með að hér á landi er aðeins eitt mjólkurkúakyn.
Að okkar mati er skýrsla þessi ákaflega vel unnin. Við rekjum ekki efni hennar en hvetjum lesendur til að kynna sér það sjálfir. Niðurstöður eru mjög afgerandi um það að með innflutningi erlends erfðaefnis fæst mjög verulegur rekstrarlegur ávinningur eins og fram hefur komið, að bæði bændur og neytendur hljóta að fagna.
Látum verkin tala
Ástæða er til að hvetja bændur að ganga nú til verks. Í framhaldi verða menn að ræða með opnum huga frekari breytingar á umhverfinu. Skoða þarf hvort ekki sé skynsamlegast að leyfa frjálsan innflutning erfðaefnis frá Norðurlöndunum. Svo vel þekkjum við til kynbótafélaga bænda í þeim löndum, að þar standa íslenskum kúabændum allar dyr opnar og þau stunda ræktunarstarf á heimsmælikvarða. Þegar horft er til framtíðar er spurning hvort ekki sé best að byggja mjólkurkúastofninn á blendingskúm sem virðist vera alþjóðaþróun og Nýsjálendingar eru komnir lengst með. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru nú um 60% mjólkurkúnna þar í landi blendingskýr.
Ræktunarráðgjöf mundi beinast að vali kynja til blöndunar á hverjum tíma. Tekið yrði upp samstarf við Interbull (alþjóðakynbótamat sem Ágúst Sigurðsson vann við nokkur ár) um kynbótamat vegna þess að þá værum við orðnir virkir þátttakendur í alþjóðastarfi sem mundu skila bændum miklu.
Þessi mál eru örstutt rædd í skýrslunni. Áhyggjur af sértækum landsáhrifum í kynbótamat eru að okkar mati algerlega óþarfar. Það sýna rannsóknarniðurstöður Interbull um allan heim skýrt.
Verndun íslenska stofnsins
Af þeirri litlu umræðu sem orðið hefur er ástæða til að setja fram önnur sjónarmið í sambandi við verndunarþörf kúastofnsins sem skýrsluhöfundar fjalla aðeins um.
Annar höfundur greinarinnar telur sig hafa flutt þessa umræðu til landsins 1972 í kjölfar námskeiðs hjá W.G. Hill í Finnlandi og áratuga samstarfi um þessi mál á Norðurlöndum, fylgst með umræðu þar og á heimsvísu. Á okkur eru skyldur um slíka vernd en ekki með að gera eina kúakyn landsins að forngripasafni. Úrvalsdæmi um eina bestu verndun í heiminum er íslenska forystuféð sem lengstum var um 1% fjárfjölda í landinu. Í nálægum löndum eru úrelt búfjárkyn í tuga- ef ekki hundraðatali og þar er eina lifandi varðveislan langoftast nokkrir gripir hjá unnendum kynsins og menn sáttir við það. Við þekkjum ekki vöntun á velunnurum íslenska kúakynsins meðal íslenskra bænda. Sjálfsagt er að leiðbeint verði um varðveislu gripa þeirra en hvergi hefur það reynst umfangsmikið starf.
Hugmyndir um að nokkru sinni í framtíðinni yrði leitað til íslensku kúnna um erfðaefni eru að okkar mati hreinir hugarórar. Öll erlend umræða snýst um allt önnur búfjárkyn og raunhæf dæmi um notkun slíks enn torfundin. Muna aðeins vel að langoftast er vernd og ræktun í eðli sínu andstæður.

Aðgerða er þörf
Þessi góða skýrsla verður vonandi upphaf aðgerða og frjórra rannsókna sem bæta hag mjólkurframleiðenda í framtíðinni. Ekki mun af veita. Við lifum á tímum hraðfara breytinga í viðhorfum sem við sáum síðast í alþingiskosningum í nóvember sl. Þær kalla á lifandi umræður meðal bænda og í samfélaginu öllu og raunhæfar aðgerðir í samvinnu við stjórnvöld á hverjum tíma, í stað upphrópana og slagorða sem því miður hefur einkennt umræðu um helstu áskoranir nautgriparæktarinnar allt of lengi.