Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni
Stefán Jónsson briddsspilari hefur reynst Bridgesambandi Íslands hvalreki með áhuga á íþróttinni og margs konar kynningarstarfi
Hann hefur sem dæmi margoft hjálpað til við beinar útsendingar á netinu þegar viðureignir standa yfir. Þá leyfir Stefán briddsáhugafólki reglulega að fylgjast með ævintýrum sem hann ratar í við briddsborðið og segja sumir að kenna megi þingeyskt blóð Stefáns, nokkuð heitt á köflum, af áræði og kröfum sem hann gerir til sjálfs sín í spilinu góða.
Stefán var á meðal rúmlega 100 Íslendinga sem lögðu leið sína á árlegt stórmót á Madeira sem nú er nýlokið. Telst umsjónarmanni briddsþáttar Bændablaðsins svo til að aldrei hafi fleiri Íslendingar ferðast suður til portúgölsku blómaeyjunnar til að taka í spil. Og strax á fyrsta keppnisdegi í tvímenningnum gerðust mikil undur. Stefán fékk spil norðurs sem sjást á stöðumyndinni sem hér fylgir – og haldið ykkur nú fast!
Það eru ekki allir sem upplifa að fá 12 slagi á hendi í bridds, enda lýsir Stefán gjöfinni þannig að norðurspilin séu slagaríkasta hönd sem hann hefur nokkru sinni fengið á ferlinum.
„Ég sat í þriðju hönd í norður með þetta 9-4 skrímsli,“ segir Stefán, „og var að velta fyrir mér hvort væri rétt að opna á einu laufi, tveimur laufum (yfirsterkum) eða sex laufum.“
En þá opnaði makker hans á tveimur hjörtum sem lofuðu sexlit í hjarta og 10-13 punktum.
Það er stundum þannig að þegar maður fær nánast of góð spil eins og í þessu dæmi verður sagna ekki minnst í árþúsund.
Eftir opnun á tveimur hjörtum gat Stefán meldað rólega 3 lauf, eðlilega kröfusögn. Makker hans tók undir laufið. Eftir það var leiðin greið í 7 lauf.
Um 40 borð af 140 náðu alslemmunni.