Nýjar vatnsrennibrautir í Þorlákshöfn
Sveitarfélagið Ölfus hefur fjárfest í tveimur nýjum vatnsrennibrautum fyrir Sundlaug Þorlákshafnar.
Kostnaður við brautirnar er um 150 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum frá Gesti Þór Kristjánssyni, forseta bæjarstjórnar Ölfuss, verður hærri rennibrautin tæplega 80 metra löng og byrjar í 9,5 metra hæð og verður því í flokki með þeim hæstu hér á landi. Lægri rennibrautin verður 52,4 metra lokuð vatnsrennibraut með svokallaðri skál eða keilu áður en hún endar í sinni eigin innbyggðri lendingarlaug. Stigahúsið upp í brautirnar verður um 12 metra hátt, lokað og upphitað með sameiginlegum stiga fyrir báðar nýju rennibrautirnar.
Nýju brautirnar verða settar upp í vetur og verða formlega teknar í notkun næsta vor.