Skjótum rótum um áramótin
Skjótum rótum, Rótarskot, er ný leið til þess að styrkja öflugt og mikilvægt sjálfboðastarf björgunarsveitanna í landinu.
Sala á flugeldum er stærsta fjáröflunarleið björgunarsveitanna. Til að kom á móts við þá sem ekki vilja skjóta upp flugeldum en samt styrkja björgunarsveitirnar er hafin sala á svokölluðum Rótarskotum.
Hvert Rótarskot gefur af sér tré sem plantað er í nafni kaupandans, með stuðningi Skógræktarfélags Íslands, í nýjan Áramótaskóg Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Allur ágóðinn af sölu Rótarskotanna rennur til björgunarsveitanna. Rótarskotin fást á flugeldasölustöðum um allt land.