Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Guðríður Bald­vinsdóttir, bóndi í Lóni 2 í Kelduhverfi.
Guðríður Bald­vinsdóttir, bóndi í Lóni 2 í Kelduhverfi.
Fréttir 25. júlí 2019

Sveitir eru til lítils gagns sem leikvöllur þéttbýlisbúa

Höfundur: MÞÞ

„Eignarhald á bújörðum er bleiki fíllinn í stofunni, þetta málefni er afar erfitt viðfangs og á því margar hliðar og engin einföld lausn,“ segir Guðríður Bald­vinsdóttir, bóndi í Lóni 2 í Kelduhverfi, um jarðakaup efnafólks og fækkun búandi bænda.

Víða háttar svo til í sveitum landsins að fólk er flutt í burtu, eftir standa húsin tóm og eru nýtt örsjaldan á ári af afkomendum fyrrum bænda. Fyrir þá sem enn búa í viðkomandi sveit þýðir það að hún er veikari en væri þar búseta, en erfitt sé að ræða þessi mál því í mörgum tilvikum sé um að ræða skyldmenni eða vinafólk. Guðríður segir að engu skipti fyrir þá sem búa í sveitum landsins hvar lögheimili eiganda jarðarinnar sé, í Hafnarfirði eða Lúxemborg.

Guðríður segir aðstæður til búsetu víða með þeim hætti í sveitum landsins að þær teljist vart boðlegar. Nefna megi í því sambandi að afkoma í sauðfjárrækt hafi um áratugaskeið ekki verið góð og hafi leitt til hægrar og öruggrar fólksfækkunar. Slíkt leiði svo af sér að þjónusta skerðist og er hið opin­bera gjarnan ekki saklaust af því að skera niður sína þjónustu til sveita. Hagræðingin felist í því að flytja störf úr sveitum eða minni þéttbýlisstöðum og á höfuðborgarsvæðið eða í stærra þéttbýli, nettengdu tölvurnar virðist hvergi annars staðar geta verið. Eitt starf í dreifbýli er á við fleiri tugi starfa á höfuðborgarsvæðinu.

Aldurssamsetning fer svo úr skorðum þegar fólksfækkun á sér stað, barnafólkið fer í meira mæli en aðrir og félagsleg einangrun þeirra barna og ungmenna sem eftir eru eykst.

Sums staðar er staðan sú að jarðir standa auðar og nánast ónotaðar nema örfáar vikur á ári. Í einhverjum tilvikum af því þær seljast ekki og eða eigendur hafa ekki áhuga á því að selja, eru ef til vill margir og ekki sammála um hvort eigi að selja eður ei. „Þetta er staðan sem ég hef líkt við bleika fílinn í stofunni, það er erfitt að ræða þessi mál því í mörgum tilvikum eru eigendur jarðanna tengdir manni á einhvern hátt, ættingjar eða vinafólk, en það eru samlegðaráhrifin sem skipta máli, það er ekki hægt að leggja alla ábyrgðina á einstaka jarðeigendur,“ segir Guðríður.

Helmingur íbúðarhúsnæðis ekki nýttur til búsetu

Hún segir að í sinni sveit, Keldu­hverfi, sé yfir helmingur alls íbúðarhúsnæðis ekki nýttur til búsetu á ársgrundvelli og eigendur þess eru eingöngu Íslendingar. „Fyrir okkur sem hér búum skiptir í raun engu máli hvers lenskir eigendur jarðanna eru og hvar þeir eiga sitt lögheimili, þetta er bara fólk sem ekki býr á svæðinu en kemur af og til,“ segir hún. Og bendir á að Íslendingar sækist líka eftir veiðiréttindum og öðrum auðlindum landsins líkt og hinir títtnefndu útlendu auðmenn.

„Við sem þjóð þurfum að ákveða hvort við ætlum að halda landinu almennilega í byggð eða ekki. Þannig yrðu jarðeigendur ekki eins berskjaldaðir og nú virðist vera fyrir háum tilboðum í jarðir þeirra, hvaðan svo sem þau koma,“ segir Guðríður og bætir við að þetta sé sú sársaukafulla staðreynd sem fyrst verði að horfast í augu við og áður en menn æsi sig upp í hrópum og köllum um útlendinga sem sölsa undir sig landið.

Öflugar sveitir eru mikilvægari en nokkru sinni

Guðríður segir ábúðarskyldu, nýtingarskyldu eða takmörkun á stærð lands í eigu einstakra aðila vera plástra en ekki lækningu á sári sem nái dýpra, þótt þær aðgerðir séu góð fyrstu skref. „Það þarf að gera sveitirnar eftirsóttar til búsetu, fjölga fjölbreyttum atvinnutækifærum, auka framboð íbúðarhúsnæðis og styrkja innviðina. Öflugar sveitir og skynsamleg nýting á landi eru mikilvægari en nokkru sinni nú þegar við stöndum frammi fyrir gríðarlegum áskorunum í loftslagsmálum. Sveitir eru til lítils gagns sem leikvöllur þéttbýlisbúa,“ segir Guðríður Baldvinsdóttir.

Alþjóðlegt samstarf um líffræðilega fjölbreytni
Fréttir 4. apríl 2025

Alþjóðlegt samstarf um líffræðilega fjölbreytni

Í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er nú hafin vinna við að undirbúa að...

Huldar verur í sviðsljósið
Fréttir 3. apríl 2025

Huldar verur í sviðsljósið

Völva og sjáandi á Akureyri hefur unnið ötullega að því að efla samtal og áhuga ...

Framleiða pakkasósur úr villisveppum á Flateyri
Fréttir 3. apríl 2025

Framleiða pakkasósur úr villisveppum á Flateyri

Hjónin Sæbjörg Freyja Gísladóttir og Eyvindur Atli Ásvaldsson framleiða pakkasós...

Ólíklegt að veiðar verði heimilaðar
Fréttir 2. apríl 2025

Ólíklegt að veiðar verði heimilaðar

Líklegt þykir að þingsályktunartillaga um veiðar á álft og gæs utan hefðbundins ...

Vínbruggun í Húnaþingi í gerjun
Fréttir 2. apríl 2025

Vínbruggun í Húnaþingi í gerjun

Á Hvammstanga er verið að þróa framleiðslu á íslensku víni. Rabarbarafreyðivínið...

Skepnur út undan í almannavörnum
Fréttir 1. apríl 2025

Skepnur út undan í almannavörnum

Dýraverndarsamband Íslands telur brýnt að styrkja stöðu dýra í almannavarnaástan...

Skoða bryggju austan við Vík
Fréttir 31. mars 2025

Skoða bryggju austan við Vík

Fyrirtækið EP Power Minerals Iceland ehf. hyggst gera bryggju við Alviðruhamra á...

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni
Fréttir 28. mars 2025

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni

Nærandi ferðaþjónusta er ný nálgun í ferðaþjónustu sem miðar að því að leggja ræ...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f