Kolefnisjafnvægi milli lífs og dauða
Mynd / sá
Fréttir 5. júlí 2024

Kolefnisjafnvægi milli lífs og dauða

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Talið er að kolefnisbinding skóga minnki eftir því sem skógar eldast. Þar með breytist árleg meðaltals-kolefnisbinding eftir aldri skóganna.

Í matsskýrslum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) hefur m.a. verið fjallað um að kolefnisupptaka eldri skóga dali og því geti verið skynsamlegt að fella þá til nytja og planta nýjum trjám.

Aðspurð um hvernig þessu hátti til á Íslandi, segja þau dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógerfðafræðingur hjá Landi og skógi, dr. Brynhildur Bjarnadóttir, líffræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, dr. Bjarni Diðrik Sigurðsson, líffræðingur, skógfræðingur og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Arnór Snorrason, skógfræðingur hjá Landi og skógi og Pétur Halldórsson, upplýsingafulltrúi hjá sömu stofnun, að skógur í vexti bindi mikinn koltvísýring allt þar til hann hafi náð tilteknum aldri.

„Þegar trén verða gömul hægir á vextinum, tré taka að drepast og á endanum verður jafnvægi milli lífs og dauða, á milli kolefnisupptöku og -losunar. En kolefni í skógarjarðvegi heldur áfram að aukast á meðan skógurinn er til,“ segja þau.

Sumar trjátegundir sem notaðar séu í íslenskri skógrækt geti lifað í margar aldir og bundið kolefni eins lengi og trén eru á lífi, kjósi skógareigandinn að leyfa trjánum að verða gömlum.

Bindingunni viðhaldið

„Í sjálfbærum nytjaskógi er stöðug binding og loftslagsáhrifin eru tvíþætt. Kolefni binst í nýjum viði sem myndast og ef viðurinn er nýttur í varanlega nytjahluti viðhelst forðinn. Timburhús geyma t.d. kolefnið svo lengi sem þau standa. Eins dregur úr nettólosun ef viðurinn er notaður í stað ósjálfbærra jarðefna úr olíu og kolum.

Á sama tíma taka yngri kynslóðir trjáa við af þeim sem hafa verið felld og fjarlægð. Það viðheldur bindingunni. Í því lífhagkerfi sem senn tekur við af olíuhagkerfinu er hverri þjóð dýrmætt að eiga nægilega mikið af aðalhráefni lífhagkerfisins, timbri. Það verður notað í allt sem olía er notuð í nú en einnig í stórauknum mæli við mannvirkjagerð, til dæmis í háhýsi framtíðarinnar,“ segja þau Aðalsteinn, Brynhildur, Bjarni, Arnór og Pétur.

Þau benda jafnframt á að skógar á Íslandi séu fæstir „eldri“ eða „gamlir“, að því leyti að í „gömlum“ skógum séu standandi tré sjaldnast gömul. Elstu standandi birkitrén í náttúruskógum landsins séu um 150 ára gömul.

Bindi kolefni til langframa

Ólafur S. Andrésson, lífefnafræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands, hefur bent á að hafa beri í huga að úr felldu trjánum losni megnið af bundna kolefninu á skemmri tíma en það taki nýja skóginn að vaxa upp. Þetta sé í rauninni spurning um að halda sem mestu af bundnu kolefni á viðeigandi landsvæði til langframa.

Jafnframt þurfi að halda til haga að í sumum tilvikum rati ekki nema 10–15% af skógarviði í nýtanlegt timbur, og oft sé meðallíftími timburs ekki nema nokkrir áratugir. Í langtíma kolefnisbúskap þurfi að taka þessa þætti með í reikninginn.

Þá segir Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands, að nytjaskógrækt, eins og hún hefur verið mest stunduð bæði hér á landi og erlendis, leiði til lítillar aldursdreifingar trjáa, öll trén séu meira eða minna jafngömul.

Losi meira en nemur bindingu

„Í þannig jafngömlum skógi koma fram þessar aldurssveiflur í kolefnisbindingu, mest þegar skógurinn er tiltölulega ungur en síðan dregur úr hraða bindingarinnar með aldri og að lokum fer skógurinn að losa meira en hann bindur,“ segir Ingibjörg. Hvenær það gerist fari eftir tegund trjáa sem plantað var og við hvaða loftslagsskilyrði. „Þetta er hins vegar ekki vandamál í náttúrulegum skógum þar sem aldursdreifing er mikil. Þar helst bindingin stöðug til lengri tíma og skilyrði fyrir líffræðilega fjölbreytni eru hámörkuð. Það er einmitt mikilvægt að hafa þetta atriði í huga við endurheimt náttúruskóga, þ.e. að tryggja sem mesta aldursdreifingu og að þeir ferlar sem stuðla að sífelldri endurnýjun viðhaldist. Hér á landi virðist því miður lítill munur gerður á þeim skógum sem plantað er sem loftslagsaðgerð og skógrækt sem hefur það markmið að framleiða skógarafurðir,“ segir hún.

Ingibjörg segir einnig rétt að halda til haga þeim hættum sem skapist með einsleitum plantekruskógum með lítilli aldursdreifingu: aukinni eldhættu og dreifingu sjúkdóma og skordýraplága.

Skylt efni: Skógar | kolefnisbinding

Kolefnisjafnvægi milli lífs og dauða
Fréttir 5. júlí 2024

Kolefnisjafnvægi milli lífs og dauða

Talið er að kolefnisbinding skóga minnki eftir því sem skógar eldast. Þar með br...

Opnar gróðurhúsin fyrir almenningi
Fréttir 5. júlí 2024

Opnar gróðurhúsin fyrir almenningi

Nýr garðyrkjustjóri tók nýlega við stjórnartaumunum í Sunnu á Sólheimum og meðal...

Uppskerubrestur hækkar verð
Fréttir 4. júlí 2024

Uppskerubrestur hækkar verð

Framleiðendur appelsínuþykknis og -safa segja komna upp kreppu í iðnaðinum á hei...

Aukið framboð íbúðahúsnæðis
Fréttir 3. júlí 2024

Aukið framboð íbúðahúsnæðis

Nýlega var undirritað samkomulag á milli ríkisins, Sveitarfélagsins Stykkishólms...

Kjötmjöl í lífrænan uppgræðsluáburð
Fréttir 3. júlí 2024

Kjötmjöl í lífrænan uppgræðsluáburð

Land og skógur annast sjötíu og sjö landgræðslusvæði sem spanna yfir 250 þúsund ...

Öl er innri kálfur
Fréttir 2. júlí 2024

Öl er innri kálfur

Hún er heldur óvenjuleg kvöldgjöfin í Hvammi í Ölfusi og með sanni má segja að þ...

Samtal við atvinnulíf og sveitarfélög
Fréttir 2. júlí 2024

Samtal við atvinnulíf og sveitarfélög

Stjórnvöld kynntu á dögunum uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Samtal við ...

Íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir og sektir
Fréttir 1. júlí 2024

Íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir og sektir

Í apríl og maí í ár var úrskurðað um ellefu íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir á s...