Vindmyllusvæðin fimm í Fljótsdal.
Vindmyllusvæðin fimm í Fljótsdal.
Mynd / Matsskýrsla Fjarðarorku
Fréttir 11. nóvember 2024

Land tryggt undir vindmyllusvæðin

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Skipulagsstofnun hefur fengið fyrirhugaðan vindorkugarð í Fljótsdalshreppi inn á sitt borð til umfjöllunar.

Magnús Bjarnason. Mynd/smh

Um óvenjulegt vindorkuverkefni er að ræða hér á Íslandi þar sem nýta á vindorkuna til framleiðslu á rafeldsneyti á Reyðarfirði.

Ein af hliðarafurðum verkefnisins yrði vistvæn áburðarframleiðsla auk þess sem varmi sem fellur til sem aukaafurð verður notuð til þess að styrkja hitaveitu Fjarðabyggðar og fyrir fiskeldi á landi.

Hugmyndin er að rafeldsneytið verði notað til orkuskipta í skipum, bæði flutningsskipum og fiskiskipum.

Framleiðsla á 220 þúsund tonnum rafeldsneytis

Félagið Fjarðarorka hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar sem er eins konar verkáætlun umhverfismatsins. Magnús Bjarnason er stjórnarformaður Fjarðarorku, sem er íslenska félagið sem heldur utan um verkefnið. Að baki því stendur danska fjárfestingafélagið Copenhagen Infrastructure Partners og er það hluti af Orkugarði Austurlands, sem er samstarfsvettvangur um nýtingu grænna tækifæra á Austurlandi.

Í matsskýrslunni kemur fram að um 350 MW virkjun verður að ræða og dreifast vindmyllurnar á fimm svæði innst inni í Fljótsdal, beggja vegna hans, á 87 ferkílómetra svæði. Sú orka á að duga til að framleiða 220 þúsund tonn af rafeldsneytinu ammóníaki á ári. Er í forsendum verkefnisins gert ráð fyrir að með því megi draga úr útblæstri á koltvísýringi sem nemur útblæstri skipaflotans, um 500 þúsund tonnum á ári.

Samtal við íbúa

Magnús segir að athugun á matsáætlun taki sjö vikur, en allt ferlið við að gera skýrsluna tekur tvö ár, síðan tekur við kynningarferli sem taki samanlagt 13 vikur. Þá er verkefnið líka komið til verkefnisstjórnar Rammaáætlunar og segir Magnús að beðið sé þess að hún ljúki því að vinna úr niðurstöðum faghópa og undirbúi tillögur að flokkun.

„Fjarðarorka hefur nú þegar í undirbúningi verkefnisins haft samráð við sveitarstjórn Fljótsdalshrepps og mun halda því áfram meðan á verkefninu stendur.

Einnig hafa verið haldnir íbúafundir fyrir íbúa Fljóts­dalshrepps,“ segir Magnús og bendir á að verkefnið um Orkugarð Austurlands hafi verið kynnt íbúum Fjarðabyggðar og Fljótsdalshrepps auk fjölda hagaðila á Austurlandi
og víðar.

Fuglarannsóknir með Náttúrufræðistofnun

Magnús segir að Fjarðarorka, ásamt rannsóknaraðilum, hafi einnig haft samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands um aðferðarfræði við fuglarannsóknir í tengslum við möguleg áhrif á fuglalíf á svæðinu en mikilvæg fuglasvæði eru í grennd við fyrirhuguð virkjanasvæði. Gerður hefur verið samningur við Náttúrustofu Norðausturlands og Náttúrustofu Austurlands til þess að hafa umsjón með rannsóknum sem munu taka tvö ár.

„Þessar túrbínur munu sjást, það er engin undankomuleið frá því,“ segir Magnús um mögulega sjónmengun af vindmyllunum. „Það er þó ekki búið að hanna eða teikna nákvæma útfærslu á þessum reitum þannig að það er ekki hægt að segja til um það með neinni vissu hvaðan muni sjást til þeirra. Í matsskýrslunni er gert ráð fyrir að þær sjáist víða að, en það er miðað við hámarks sýnileika,“ bætir hann við.

Áhrif á þrjú sveitarfélög

Áhrifa af vindmyllunum mun gæta, með einum eða öðrum hætti, í þremur sveitarfélögum; í Fljótsdalshreppi, þar sem staðsetningin reitanna er, í Múlaþingi sem liggur í raun utan um Fljótsdalinn að vestan­ og norðanverðu og loks er Fjarðabyggð austan við svæðið. Magnús segir að lögð hafi verið áhersla á að vera í opnu samtali við sveitarfélögin og almennt er hægt að segja að sveitarstjórnir og íbúar séu tilbúnir til að skoða þetta verkefni frekar.„Við höfum líka gert samninga við átta landeigendur á svæðinu um not á um 87 ferkílómetra svæði, þannig að þeir vilja taka þátt í þessu.

Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að orkuskipti þurfa að eiga sér stað, bæði í samgöngum á vegum en einnig í skipaflotanum. Stefna stjórnvalda í þeim málum liggur einfaldlega fyrir. Þá er spurningin, ætlum við að flytja inn það rafeldsneyti sem þarf í slík umskipti eða ætlum við að framleiða það sjálf,“ segir Magnús og telur óhjákvæmilegt verði annað en að einkaframtakið komi að þessum orkuskiptum á Íslandi. „En auðvitað er möguleiki á opinberri þátttöku í verkefninu með einhverjum hætti,“ bætir hann við.

Fasteignagjöld forsenda leyfisveitinga

Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps, segir að vissulega séu vindmyllur stórar og hafi sjónræn áhrif, en þau séu mismunandi eftir því hvaðan horft sé.

„Helstu umhverfisáhrifin af sjálfri framkvæmdinni eru vegagerð og sökklar undir myllurnar. Núna er verið að setja upp rannsóknarstöðvar fyrir mælingar á farleiðum fugla.

Miðað við þjóðfélagsumræðuna eru orkumálin umdeild og ég geri ráð fyrir að svo verði einnig um þessa framkvæmd,“ segir Helgi.

Hann bætir því við að rétt sé að fram komi að sveitarstjórn Fljótsdalshrepps vilji að aflétt verði undanþágum fasteignagjalda orkumannvirkja. „Orkuframleiðsla er einn arðbærasti atvinnuvegur á Íslandi og sá atvinnuvegur ætti því að geta greitt fasteignagjöld eins og önnur og minna arðbær atvinnustarfsemi þarf að gera. Það er því ákveðin forsenda leyfisveitinga að nærsamfélögin fái tekjur af notkun auðlindanna í þeim.

Þetta er ekki flókin aðgerð. Það þarf aðeins stjórnmálamenn sem hafa kjark til að taka ákvörðun um þetta og koma í framkvæmd,“ segir Helgi.

Skylt efni: Vindmyllur

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu
Fréttir 29. nóvember 2024

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu

Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Laxabraut 31 ...

Kjúklingar aftur í Grindavík
Fréttir 29. nóvember 2024

Kjúklingar aftur í Grindavík

Reykjagarður hf. hefur endurvakið kjúklingarækt í Grindavík eftir ellefu mánaða ...