Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Lesendarýni 14. mars 2019
Hvað er sameiginlegt með orkupakka þrjú og innflutningi á hráu kjöti?
Höfundur: Ögmundur Jónasson
Í fyrstu er fátt að sjá sem er sameiginlegt. En þó þarf ekki að leita lengi til að sjá hvað það er. Það sem er sameiginlegt er afsal á lýðræðislegu valdi.
Brussel vill orkuna á markað
Orkupakki þrjú á sér langan aðdraganda, allt aftur á miðjan síðasta áratug liðinnar aldar. Þá var birt í Brussel svokölluð grænbók um orkumál en í henni var kveðið á um að nú skyldi stefnt að því að líta á orku sem hverja aðra markaðsvöru. Þetta var alger nýlunda en í samræmi við þessa stefnu leit fyrsti orkupakkinn von bráðar dagsins ljós og liðu aðeins örfá ár þar til hann var kominn í íslensk lög. Það var árið 2003. Þá var orkupakki tvö löngu kominn á vinnsluborðið og varð að lögum hér árið 2008. Og sagan endurtók sig með þriðja orkupakkann sem nú bíður afgreiðslu á Alþingi, af eða á. Vonandi verður honum hafnað og helst undið ofan af því sem áður er orðið.
Þessir pakkar hafa allir stefnt í þá átt sem boðað var í grænbókinni, að búa í haginn fyrir markaðsvæðingu – og í framhaldinu einkavæðingu – orkunnar, fyrst með því að greina í sundur framleiðslu, dreifingu og sölu í bókhaldi og nú síðast hvað varðar sjálft eignarhaldið; frá og með þriðja orkupakkanum skuli það ekki vera á sömu hendi.
Beisli og mél frá ACER
Eignarhaldsákvæðið svo og bann við samráði var að finna í orkupökkum eitt og tvö, en í þriðja pakkanum er hert á þessum ákvæðum. Enda þótt Íslendingar muni hafa fengið undanþágu hvað eignarhaldið áhrærir er engu að síður hafið ferlið hér á landi um aðgreiningu sjálfs eignarhaldsins. Þannig stefnir ríkið nú að því að kaupa eignarhluta Landsvirkjunar, Rarik, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða í Landsneti. Öll eru þessi fyrirtæki í eign almennings, þannig að almenningi er ætlað að kaupa Landsnet af almenningi.
Þetta er hins vegar bara forsmekkurinn af því sem koma skal.
Ef við förum undir ACER má búast við kærum vegna markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar. Það mál yrði síðan leyst með því að búta þá stofnun niður og selja síðan einstakar virkjanir í partasölu!
Viljum við þetta? Eftir að við fengjum upp í okkur beisli og mél frá ACER fengjum við einfaldlega engu um þetta ráðið!
„Ekkert annað en markaðspakkar“
Þótt vissulega sé gott að tryggja almannaeign á dreifikerfinu þá er vegferðinni þar með engan veginn lokið, sem áður segir, og um það voru yfirlýsingar Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur iðnaðarráðherra á nýafstöðnum ársfundi Landsvirkjunar upplýsandi. Í fyrsta lagi sagði ráðherrann réttilega um orkupakka eitt og tvö, að þeir væru „ekkert annað en markaðspakkar, og sá þriðji (væri) það líka.“
Verra var þegar ráðherrann lýsti afstöðu sinni til orkuauðlindar þjóðarinnar. Samkvæmt mbl.is sagðist Þórdís Kolbrún „hafa heyrt af því að hópur fólks sem ætlaði að berjast gegn samþykkt þriðja orkupakkans á Alþingi ætlaði að fara fram undir slagorðinu „Okkar orka“ og sagðist hún túlka þau skilaboð sem svo að þessi hópur teldi orkuauðlindina af sama meiði og fiskinn í sjónum, þ.e. í sameign þjóðarinnar. Svo er ekki, sagði ráðherra, og lagði áherslu á að vatnsafl og jarðvarmi og nýtingarréttur af þeirri auðlind væri í hendi landeigenda.“
Tíðrætt um íslenska garðyrkju
Stjórnmálamaður með þessar skoðanir mun ekki eiga erfitt með að samþykkja orkupakka þrjú, enda ekkert annað en enn einn markaðspakkinn! Ég leyfi mér nú samt að halda því fram að ýmsir samflokksmenn ráðherrans líti ekki alveg eins á málið, alla vega ekki þeir sem ég hef setið fundi með undir kjörorðinu „orkan okkar“. Þeim hefur til dæmis orðið tíðrætt um garðyrkjubændurna sem orkupakki þrjú mun leggja bann við að fengju niðurgreidda raforku. Og erum við þá að nálgast fyrirsögn þessa pistils. Samkvæmt orkupakka þrjú er slitið á öll tengsl stjórnmálamanna við orkugeirann sem hér eftir skuli rekinn á markaðsforsendum og öll lýðræðisleg inngrip bönnuð.
Komið er á fót yfirþjóðlegri stofnun, ACER, sem á að fylgjast með því að þessu verði framfylgt. Hún mun hafa úrskurðarvald í deilumálum sem kunna að verða í viðskiptum yfir landamæri og gefur hún auk þess út fyrirmæli um hvernig viðskiptum verði háttað á öllu svæðinu.
Og þá að kjötinu
Nákvæmlega hið sama gerist með lagabreytingum um innflutning á hráu kjöti. Þeir vísindamenn sem mest mark er á takandi sökum þekkingar sinnar og rannsókna vara við innflutningnum. Brussel kemur þetta hins vegar ekkert við né dómstólum sem dæma samkvæmt reglum þaðan. Markaðurinn einn eigi að ráða.
Varnaðarorð vísindamanna og hrikaleg reynsla okkar af innfluttum sjúkdómum hlýtur hins vegar að kalla á viðbrögð þeirra sem ætlað er að standa vörð um almannahag.
Hvort sem um er að ræða orkuauðlindirnar eða heilsu manna og dýra þá er komið að því að reisa rönd við yfirgangi markaðsaflanna.
Sóttvarnarlæknir, mislingar og frelsið til að grilla
Fyrir fáeinum dögum kom upp mislingatilfelli í íslenskri flugvél. Gripið var til bráðaaðgerða af hálfu sóttvarnarlæknis. Embættið vissi að voðinn var vís. Og þau sem spyrja hve vitlegt sé að hefja innflutning á hráu kjöti ættu að fara að dæmi sóttvarnarlæknis og leyfa varfærninni að njóta vafans.
Ekki eru þó allir á þeirri skoðun. Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skrifar í Fréttablaðið í vikunni sem leið undir fyrirsögninni Frelsi til að grilla. Þar segir m.a.: „Með bættum lífskjörum verða Íslendingar veraldarvanari. Algengt er að fólk ferðist víða um heim, verji tíma í stórborgum og jafnvel afli sér menntunar eða starfi erlendis. Það er vant fjölbreyttu borgarlífi sem og úrvali vöru og þjónustu … Það vill velja um jarðarber frá Spáni eða Íslandi og það hvort ferska steikin komi frá Hollandi eða Íslandi. Takmarkanir á innflutningi ferskvöru eru óheimilar samkvæmt EES-samningnum auk þess sem það er neytendum alltaf til hagsbóta að hafa val … Fyrst og fremst eigum við að treysta fólki. Við eigum að treysta íslenskum landbúnaði til að standast erlendum snúning, eftirlitsstofnunum til að sinna sínu eftirliti af myndugleika og ekki síst að treysta neytendum til að kjósa hvað þeir láta ofan í sig.“
Þegar frelsi eins skaðar aðra
Þessi einföldun af hálfu stjórnmálamanns vekur hroll. Mislingarnir í flugvélinni ættu að minna á hve mikilvægt það er að hlustað sé á ábyrga vísindamenn og að stjórnmálamenn átti sig á því að smitsjúkdómar koma okkur öllum við og eiga ekki að snúast um frelsi einstaklinga til að flytja í kjötborðin okkar vöru sem valdið getur samfélaginu öllu ómældu tjóni. Þar með snýst frelsið upp í andhverfu sína.
Hér er fjallað um hvernig bregðast eigi við aðkallandi vanda. Mínar áhyggjur eru ekki um það hvernig brugðist er við hverju sinni, heldur hitt hvort við yfirleitt megum bregðast við. Það á nefnilega við bæði um raforkuna og innflutninginn á matvælum, að þegar markaðslögmálin hafa verið leidd til öndvegis fylgir það með að vilja okkar er úthýst.
Ögmundur Jónasson