Það sem stórkaupmenn þola ekki að heyra
Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að fólki sé alveg sama við hvern það skiptir. Hann viðraði þá skoðun sína í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni nú um síðustu helgi. Sé það rétt hjá honum þá vekur það upp mjög áleitnar spurningar um það hvort okkur sé virkilega sama hvernig staðið sé að framleiðslu. Ég er ósammála þessari fullyrðingu enda held ég að meirihluti fólks hafi sterkari siðferðiskennd en svo að það telji engu máli skipta þó að framleiðslan grundvallist á lágum launum og lakari gæðum.
Hann talaði jafnframt um að mesta kjarabót launafólks væri að breytingar yrðu gerðar á landbúnaðarkerfinu. Að vísu átti umræða þáttarins að snúast um verðlag á Íslandi en eins og gömul rispuð plata færi í gang þá hóf Andrés gamalkunnan málflutnig um að hátt verðlag væri landbúnaðinum einum að kenna.
Það er auðvitað alrangt enda er það miklu frekar verslunin sem að heldur uppi hárri álagningu á vörum almennt. Staðreyndin er sú að hlutfall útgjalda fólks til matvælakaupa er lægra á Íslandi heldur en gengur og gerist innan landa Evrópusambandsins! Stærsti útgjaldaliður heimilanna er auðvitað hátt húsnæðis- og leiguverð. Ég bíð spenntur eftir rökstuðningi Samtaka verslunar og þjónustu eða Félags Atvinnurekenda fyrir því hvernig bændur bera líka ábyrgð á því.
Eftirfarandi atriði virðast fara gríðarlega í taugarnar á Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda sem eru enda farnir að missa stjórnina á umræðunni:
- Fólk er hætt að trúa því að stórkaupmenn séu talsmenn neytenda.
- Hlutfall útgjalda heimila sem fer í matarinnkaup er lægra á Íslandi en víðast í Evrópu.
- Málflutningur um óhagkvæman búskap sem heldur uppi háu verðlagi stenst ekki skoðun. Mun frekar er hægt að rökstyðja óhagkvæma verslun; of stór yfirbygging, hæg tækniþróun.
- Fólki er ekki sama við hvern það skiptir. Það vill geta valið íslenskar vörur.
- Íslenskar landbúnaðarafurðir eru gæðavörur og ef fluttar væru inn fullkomlega sambærilegar vörur þá væru þær eflaust jafnvel dýrari.
- Bændur og neytendur eiga mun betri samleið en stórkaupmenn og neytendur.
Hrefna Sverrisdóttir veitingakona kom með áhugaverðan vinkil í sama þætti sem er umhugsunarverður. Hún spurði hvort við viljum selja sem allra mest vegna þess að það sé ódýrt og framleiða bara ódýrt og flytja langar leiðir. Eða viljum við frekar versla í heimabyggð? Jú það er kannski dýrara en um leið þá er stutt við lítil og meðalstór fyrirtæki.
Spurningin er hvort okkur sé sama hvernig fjármunir okkar nýtast. Viljum við að hár kaupmáttur Íslendinga nýtist til þess að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki eða viljum við að það sem við kaupum sé grundvallað á framleiðslu fyrirtækja sem greiða lág laun og í tilfelli landbúnaðarvara að aðbúnaður dýra sé lakari en tíðkast hér á Íslandi?
Bændur sem reka einmitt lítil og meðalstór fyrirtæki hafa markvisst hagrætt í sínum rekstri á síðustu áratugum og við munum að sjálfsögðu halda því áfram. Sú hagræðing hefur skilað sér til neytenda. Það kristallast í því að fólk þarf að eyða lægra hlutfalli af sínum launum til matvælakaupa hérlendis en víðast annars staðar í Evrópu.
Það er ýmislegt sem má breyta þegar kemur að landbúnaði. Við þurfum ávallt að styðja við nýsköpun og þróa áfram afurðir okkar í takti við kröfur neytenda. Við eigum að þróa eins og við getum framleiðslu nýrra búvara og nýta það sem íslensk náttúra býður upp á.
Sú breyting sem liggur hins vegar mest á er þessi; að verslanir endurskoði álagningu sína á matvöru þannig að svigrúm gefist til þess að bæði lækka verð til neytenda og auka hlutdeild bænda í söluverði vörunnar.
Einar Freyr Elínarson, frambjóðandi til formanns Landssamtaka Sauðfjárbænda.