Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.
Tré ársins 2024 var útnefnt við hátíðlega athöfn sunnudaginn 8. september. Um er að ræða skógarfuru (Pinus sylvestris) í skógarlundi sunnan við Mánaþúfu í Varmahlíð í Skagafirði og er það í fyrsta sinn sem skógarfura er valin sem Tré ársins.
Skógarfura var mikið gróðursett á 6. og fram á 7. áratug síðustu aldar, en varð fyrir miklum skakkaföllum af völdum furulúsar, sem grandaði henni að mestu, og er hún því sjaldgæf orðin hérlendis.
Tréð er í Varmahlíð í Skagafirði oger13,9máhæðog30,5 cm að þvermáli í brjósthæð manns. Það heyrir undir lögsögu Skógræktarfélags Skagfirðinga. Var félaginu afhent viðurkenningarskjal sem eiganda trésins og skilti sem markar tréð afhjúpað. Skógræktarfélag Íslands útnefnir tré ársins á hverju ári og er tilgangur þess að beina sjónum almennings að því starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt. Jafnframt að benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa á Íslandi. Lambhagi er bakhjarl verkefnisins.