Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Hrönn Guðmundsdóttir og Hjörtur Bergmann Jónsson hafa stundað skógrækt í aldarfjórðung í landi Lækjar í Ölfusi. Með því segjast þau vera að nýta
landsvæði sem gagnaðist ekki neinum öðrum búskap og græða upp rýrt land.
Hrönn Guðmundsdóttir og Hjörtur Bergmann Jónsson hafa stundað skógrækt í aldarfjórðung í landi Lækjar í Ölfusi. Með því segjast þau vera að nýta landsvæði sem gagnaðist ekki neinum öðrum búskap og græða upp rýrt land.
Mynd / ál
Viðtal 15. nóvember 2024

Skógrækt kemur öllum bændum við

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hjörtur Bergmann Jónsson var kjörinn formaður deildar skógarbænda hjá Bændasamtökum Íslands (BÍ) í febrúar á þessu ári, en hann hefur stundað skógrækt á landi Lækjar í Ölfusi í rúman aldarfjórðung ásamt eiginkonu sinni, Hrönn Guðmundsdóttur.

Hann segir starf formannsins vera gefandi en eitt af mikilvægustu verkefnum hans er að fá hinn almenna skógarbónda til að skrá sig í Bændasamtök Íslands. Hlutverk deildar skógarbænda í BÍ samkvæmt Hirti er að halda utan um þá sem rækta skóg á bújörðum. „Mikilvægt er að skógarbændur sameinist undir einu merki, þannig verðum við sterkari,“ segir hann.

Óbilandi áhugi Hrannar

Hjörtur segir að helsta ástæðan fyrir því að hann leiddist út í skógrækt sé óbilandi áhugi Hrannar eiginkonu hans. Hún er skógfræðingur og starfaði um árabil hjá Suðurlandsskógum og Landssambandi skógareigenda. Hrönn er fædd og uppalin í Kópavogi og flutti með Hirti til Þorlákshafnar árið 1979. Hjörtur ólst upp á Læk og starfaði sem sjómaður að mestu fram að aldamótum.

Á tíunda áratugnum skiptu nokkrir landeigendur í Ölfusinu með sér óskiptu landi sem hafði verið í lítilli notkun. Þar með eignaðist Lækur 80 hektara landskika við rætur Hellisheiðar sem hjónin ákváðu að nýta undir skógrækt. „Ég hef alltaf haft áhuga á búskap og að rækta tré er ekkert öðruvísi en að rækta hross eða kindur. Þetta er lifandi vera og þú getur plantað þúsund trjám og þegar þau vaxa upp eru þau mismunandi einstaklingar.“ Rétt eins og bændur velja búfé til ásetnings þurfa skógareigendur að grisja og ákveða hvaða tré verði látin lifa.

Eftir að Hjörtur kom í land fór hann að vinna með föður sínum í plastverksmiðju á Læk, þar sem framleiddir voru meðal annars girðingastaurar og vegstikur. Verksmiðjan var seld árið 2006, en Hjörtur hafði stofnað Girðingaþjónustu Suðurlands tveimur árum áður. Hjörtur seldi frænda sínum girðingaverktökuna árið 2014 þegar hann hóf störf sem hafnarstjóri í Þorlákshöfn. Þar kláraði Hjörtur sinn starfsferil þegar hann fór á eftirlaun árið 2023.

Mest af útplöntuninni fór fram á árunum 1999 til 2005. Síðan þá er komið að umhirðu og grisjun til að viðhalda verðmæti skógarins. Hér standa hjónin við kurlaðan við sem nýtist í stígagerð og sem áburður.

Burðarviður og jólatré

Meðal þeirra verkefna sem eru í gangi núna hjá deild skógarbænda er að fá viðurkennda CE-merkingu á burðarvið úr íslensku hráefni. „Í dag megum við framleiða þiljur, gólf og fjalir, en til þess að hönnuðir og byggingameistarar megi nota íslenskan burðarvið þarf hann að vera með CE-vottun. Síðan erum við að fá í gegn að jólatré verði merkt „Íslenskt staðfest“ þannig að fólk geti séð með öruggum hætti þegar það er að kaupa jólatré hvort það sé íslenskt eða innflutt,“ segir Hjörtur.

Deild skógarbænda vill jafnframt stuðla að því að fleiri viðarvinnslum verði komið upp víðar um landið til þess að jafna flutningskostnað. „Nú eru það mest Skógarafurðir á Austurlandi sem eru að vinna
timbur úr íslenskum við, en það er fullt af timbri að verða klárt til vinnslu í öðrum landshlutum.“

Þá er unnið hart að því að koma Kolefnisbrúnni á laggirnar, en hún miðar að því að bændur geti ræktað skóg til að framleiða kolefniseiningar. „Þetta þarf að þróast mjög hratt núna af því að þessi kolefnisbindingarmál koma miklu fleirum við en bara skógarbændum,“ segir Hjörtur. Hann segist andsnúinn því að erlend stórfyrirtæki kaupi upp heilu jarðirnar hér á Íslandi til að dæla út trjám og kaupa sér friðhelgi í mengun.

„Þetta á að vera tekjustofn fyrir íslenska bændur, af því að á hverri einustu bújörð er hægt að finna einhver svæði sem ekki nýtast í annað en skógrækt,“ segir Hjörtur. Bændur eigi frekar að sameinast í staðinn fyrir að skipta sér í tvær andstæðar fylkingar þar sem önnur berst fyrir skógrækt og hin fyrir sauðfjárrækt.

Fékk skógrækt í hjartað

Hrönn fór á kynningarfund hjá Suðurlandsskógum á tíunda áratugnum og segist hafa fengið áhugann á skógrækt í hjartað og verið stöðugt með annan fótinn hjá þeim. „Svo endaði það þannig að Suðurlandsskógar réðu mig bara í vinnu,“ segir hún. Síðar varð hún framkvæmdastjóri Landssambands skógareigenda.

Hjörtur lýsir skógræktarsvæðinu á Læk sem melum og rofabörðum sem nýttust ekki í neinn landbúnað annan en skógrækt. Hjónin byrjuðu prófanir árið 1997 og gerðu samning við Suðurlandsskóga árið 2000. Stærstur hluti plantanna fór í jörð á árabilinu 1999 til 2005.

Hjörtur bendir á að hið opinbera hefur gert samning við hátt í sjö hundruð bændur um nytjaskógrækt á lögbýlum. Markmiðið með skógræktarsamningum er að græða upp land, gera landið verðmætara, binda kolefni, framleiða við og viðhalda dreifðum byggðum.

„Af því þetta var eitt af fyrstu skógræktarsvæðunum á Suðurlandi var verið að prófa sig áfram með tegundir, kvæmi og ýmislegt svoleiðis.

Sumt er fínt en annað drapst,“ segir Hjörtur. Lerkitegundir stóðu sig illa á meðan fura, greni og birki hafa lifað betur. Nú hafa hjónin plantað talsvert af hrym, sem er kynblendingur af rússalerki og evrópulerki sem vex mjög vel. Skógræktin var að mestu plægð með svokölluðu TTS-herfi, sem er traktorsknúið tæki þar sem tveir diskar með áföstum spöðum snúast og hreyfa við efsta jarðvegslaginu. Þetta er ráðandi aðferð í nytjaskógrækt á Íslandi, en fékk talsverða athygli í tengslum við stórt skógræktarverkefni í nágrenni Húsavíkur núna í haust. Hjörtur bendir á að jarðvegurinn hjá þeim hafi gróið upp og jafnað sig á örfáum árum.

Vegslóði í gegnum skógræktina. Á sínum tíma var beitt svokölluðu TTS- herfi til að auðvelda gróðursetningu. Mólendið greri upp á skömmum tíma.

Tekjur eftir áratugi

Hjónin viðurkenna að það sé ekki mikið upp úr skógrækt að hafa, heldur sé þetta meira hugsjón. „Þú hættir ekkert að vinna til að gera þetta,“ segir Hrönn. Þegar þau voru að planta sem mest voru styrkirnir nálægt lágmarkslaunum fyrir einn einstakling í einn mánuð á ári.

„Tekjurnar hjá okkur koma ekki fyrr en eftir 40 til 80 ár,“ segir Hrönn. Þeir sem fara út í skógrækt gera það ekki til að græða á því, heldur er þetta fólk sem ber virðingu fyrri náttúrunni. „Það er svo margt annað sem gefur manni gott í hjartað og andann en peningar.“

Skógarbændur þurfa að byrja árið á að gera áætlun um útplöntun til þess að fá plöntur, sama hvort þeir eru hluti af skógræktarverkefni eða á eigin vegum.

Þegar fer að vora hefst jarð- vinna og undirbúningur fyrir gróðursetninguna sem er að mestu framkvæmd á vorin og haustin. Grisjun fer að mestu fram á veturna, en Hrönn tekur þó fram að góður skógarbóndi eigi alltaf að vera með klippurnar í vasanum þegar gengið er um skóginn til að snyrta greinar.

Skógarreiturinn hjá Hirti og Hrönn hefur orðið fyrir barðinu á snjósöfnun frá Hellisheiðinni sem hefur leitt af sér talsvert snjóbrot. Þá gengur sjávarrokið upp í hlíðina og eftir einn vetur með metfjölda lægða var skógurinn saltbrunninn en jafnaði sig þegar leið á vorið. „Maður þarf að hafa tröllatrú á þessu og vera bjartsýnn og jákvæður. Þetta kemur bara. Það er dásamlegt að týnast í skóginum – þú leggst bara út af. Þú þarft ekkert að hafa hann margra metra háan,“ segir Hrönn.

5 hlutir sem Hrönn og Hjörtur geta ekki verið án

1. Húsið: „Við getum gist þarna og eldað okkur mat.“

2. Rafmagnskeðjusögin: Hún er létt og meðfærileg í notkun.

3. Kurlarinn: Hann breytir ónýtum greinum og afskurði í hráefni í göngustíga og fleira.

4. Sexhjólið: „Það er rosa gott fyrir fótafúna konu sem er með ónýtt hné.“

5. Traktorinn: Hann er öflugur í jarðvegsvinnu og drætti.

Skylt efni: Skógrækt

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt