COP16, hvað svo?
Ráðstefna samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD), COP16 er nýyfirstaðin.
Yfirheitið var „Friður með náttúrunni“ en meginþemað var hvernig ríki, samfélög, stofnanir og aðrir hagaðilar geti setið við sama borð og fundið lausnir svo nýting mannfólks á auðlindum náttúrunnar leiði ekki af sér frekari hnignun vistkerfa. Á COP15 árið 2022 var samþykktur rammasamningur sem inniheldur 23 markmið til þess að viðhalda gæðum líffræðilegrar fjölbreytni í vistkerfum jarðarinnar. Samningurinn fékk nafnið Global Biodiversity Framework (GBF) og var hann jákvætt og nauðsynlegt skref í vegferð mannfólks með náttúrunni.
Markmiðin á COP16 voru töluvert flóknari en á ráðstefnunni fyrir tveimur árum. Nú þegar metnaðarfull markmið hafa verið sett þarf að fjármagna þau og innleiða. Miklar umræður sköpuðust um stöðu vestrænna ríkja og ábyrgð þeirra á að aðstoða ríki sem skortir bolmagn til að fjármagna rannsóknir og aðgerðir til verndar mikilvægra vistkerfa, t.d. regnskóga og annara vistkerfa, sem búa yfir ríkri líffræðilegri fjölbreytni. Einnig var mikið rætt um hvernig stýra ætti nýtingu erfðaefnis og hvernig raunvirði vistkerfa náttúrunnar ætti að deila á sanngjarnan hátt, ef hægt er að nálgast náttúruna á þann hátt. Mörg önnur málefni voru til umræðu og þau sem tengjast Íslandi sérstaklega voru t.d.:
- áframhaldandi vinna að flokkun og aðgerðum gegn framandi ágengum tegundum
- fjölþjóðlegt kerfi um útnefningu verndarsvæða í úthafi
- tengsl líffræðilegrar fjölbreytni og lýðheilsu
Rammasamningurinn er ekki lagalega bindandi en bæði samningurinn og markmiðin eru góðir hvatar og verkfæri til þess að stuðla að verndun líffræðilegrar fjölbreytni Íslands. Stofnanir eins og Land og skógur eru mikilvægar í þessu samhengi því þær búa yfir þekkingu til þess að beina verkefnum í réttan farveg. Starfsfólk Lands og skógar eru því aðilar að ýmsum samstarfsverkefnum sem tengjast markmiðum GBF náið, til dæmis:
- Markmið 1: Skipulag og stýring svæða til að draga úr tapi á líffræðilegri fjölbreytni
- Markmið 2: Endurheimt 30% allra hnignaðra vistkerfa
- Markmið 6: Draga úr útbreiðslu ágengra framandi tegunda um 50% og lágmarka áhrif þeirra
- Markmið 21: Tryggja að þekking sé tiltæk og aðgengileg til að bæta líffræðilega fjölbreytni
Sérfræðingar stofnunarinnar taka einnig þátt í stefnumótunarvinnu sem er nauðsynleg til að áætlanir og verkferlar verkefna sem tengjast málefnum líffræðilegrar fjölbreytni samræmist og uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar.
Á vettvangi Samnings S.þ. um líffræðilega fjölbreytni (CBD) þurfa aðildarþjóðir reglulega að skila upplýsingum um stöðu mála varðandi stefnumótun og nauðsynlegar aðgerðir hjá sér. Eftir COP15 er þjóðunum ætlað að uppfæra sínar landsstefnur og aðgerðaáætlanir um líffræðilega fjölbreytni (National Biodiversity Strategy and Action Plan – NBSAP) og samræma við markmið rammasamningsins. Ísland á eftir að klára þetta skref en vinna við nýja og uppfærða stefnu um líffræðilega fjölbreytni er nú í gangi og er leidd af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu en í stýrihóp vinnunnar eru einnig fulltrúar úr fleiri ráðuneytum sem og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Afurð þeirrar vinnu verður hvítbók sem stefnt er að því að klára næsta vor en í hvítbókinni verða skilgreind lykilviðfangsefni, meginmarkmið og nauðsynlegar aðgerðir er varða verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu náttúrunnar.
Samráð er veigamikill þáttur í stefnumótunarvinnunni og samkvæmt upplýsingum frá stýrihópnum er stefnt að víðtæku samráði við fagstofnanir, félagasamtök, hagaðila og almenning á mismunandi stigum vinnunnar. Sérfræðingar Lands og skógar taka að sjálfsögðu þátt í þeirri vinnu því efling heilbrigðra vistkerfa með ríkri líffræðilegri fjölbreytni mun styrkja vistgetu og þanþol vistkerfanna okkar og styðja við íslenskt samfélag um komandi kynslóðir.