Beint samráð meðal félagsmanna
Dagana 23. janúar til 6. febrúar verður Loftslagsvegvísir bænda í samráðsferli meðal félagsmanna Bændasamtakanna.
Eitt af áherslumálum stjórnar samtakanna er að ná góðu samtali við grasrótina til viðbótar öflugu hefðbundnu félagsstarfi. Á þessum grundvelli hefur verið ákveðið að loftslagsvegvísirinn verði á framangreindu tímabili til kynningar meðal félagsmanna inni á Mínum síðum Bændasamtakanna, þar sem allir félagsmenn eiga möguleika á að koma að sínum ábendingum. Er þetta samráðsferli undanfari þess að bæði deildafundir búgreina og Búnaðarþing taki vegvísinn til umfjöllunar og endanlegrar samþykktar.
Stefnumörkun eins og loftslagsvísir þarf að þjóna hagsmunum landbúnaðarins í heild á sama tíma og aðgerðirnar miða að því að mæta áskorunum í loftslagsmálum. Þátttaka bænda í þróun og útfærslu vegvísisins er því nauðsynleg til að tryggja að hann nýtist sem best. Allir félagsmenn eru þess vegna hvattir til að kynna sér efnið og koma með ábendingar kjósi þeir svo.
![](/media/1/skjamynd-2025-01-22-092721.png)
Af hverju loftslagsvegvísir bænda?
Loftslagsvegvísir bænda er stefnumörkun bænda sem er ætlað að tryggja að aðgerðir í loftslagsmálum sem tengjast landbúnaði taki mið af fjárhagslegri afkomu bænda og íslenskum aðstæðum. Íslenskir bændur hafa verið framarlega í flokki í að innleiða aðgerðir sem hafa dregið úr losun og er lögð áhersla á að bændur geti með slíkri stefnumörkun, eins og loftslagsvegvísinum er ætlað að vera, haldið áfram á þeirri vegferð. Loftslagsvegvísirinn leggur áherslu á víðtæka samvinnu og yfirvegaða nálgun á aðgerðir vegna sérstöðu landbúnaðar þar sem um 96% losunar í landbúnaði kemur frá lífrænum ferlum.
Vegvísirinn byggir á því að það er nauðsynlegt fyrir samfélagið að horfast í augu við mannfjöldaþróun og þær áskoranir sem því fylgja í fæðuöflun fyrir þjóðina. Eftir því sem fleiri eru í mat þarf meiri mat og landbúnaður er frumframleiðsla á matvælum og öðrum nauðsynjun, í því liggur sérstaða. Vegna sérstöðu landbúnaðarframleiðslu er gengið út frá því í loftslagsvegvísinum að viðurkenna þurfi reynslu og þekkingu bænda og samhliða að byggja aðgerðir í loftslagsmálum á gögnum, þekkingu úr fræðasamfélaginu og fyrir fram ákveðnum forsendum sem tryggja að aðgerðirnar gangi ekki gegn matvælaöryggi, fæðuöryggi og velferðarsjónarmiðum.
Vinna við Loftslagsvegvísi bænda á sér nokkuð langan aðdraganda. Unnið hefur verið eftir þeim grunni og áherslum sem settar voru með Umhverfisstefnu landbúnaðarins sem fulltrúar bænda samþykktu á Búnaðarþingi árið 2020. Vegvísirinn er einnig unninn með hliðsjón af markmiðum og skuldbindingum stjórnvalda í málaflokknum. Í þessari vinnu hefur stjórn Bændasamtakanna lagt áherslu á þétt samtal við félagskerfi bænda innan samtakanna ásamt því að leita í þekkingarbrunn dótturfélags samtakanna, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML). Einnig hafa samtökin í þessu ferli átt gott samstarf við ráðuneyti, stofnanir og aðra hagaðila.
Loftslagsvegvísir bænda snýst því ekki um að gjörbylta íslenskum landbúnaði. Yfirvegun, skynsemi og sannprófun eru til dæmis forsendur aðgerða. Lykillinn að því að ná árangri í loftslagsmálum landbúnaðarins er að skoða hvar og hvernig við höfum verið að ná árangri síðustu áratugina og nýta þá þekkingu. Á sama tíma eigum við að vera opin fyrir að skoða allar hugmyndir að aðgerðum og rýna til gagns. Með því að byggja á reynslu, þekkingu og jákvæðum hvötum þá er bændum ekkert að vanbúnaði að halda áfram á sömu braut árangurs. Markmiðið er einfalt, að efla íslenskan landbúnað og að íslenskir bændur geti á sama tíma framleitt loftslagsvænstu afurðir í heimi.
Tökum höndum saman um að móta sjálfbærari framtíð landbúnaðarins!