Flatarmál gróðurhúsa jókst úr 10.000 fermetrum árið 1940 í nærri 70.000 árið 1950.
Flatarmál gróðurhúsa jókst úr 10.000 fermetrum árið 1940 í nærri 70.000 árið 1950.
Mynd / Aðsend
Lesendarýni 29. janúar 2025

Aldarafmæli íslenskrar ylræktar 2024

Höfundur: Ingólfur Guðnason, brautarstjóri garðyrkjuframleiðslu, Garðyrkjuskólanum á Reykjum/FSu.

Eitt hundrað ár eru síðan ylræktun sem atvinnugrein hófst á Íslandi og er hún nú ein af undirstöðum landbúnaðar hér á okkar kalda landi. Það er engan veginn sjálfgefið að ræktun í gróðurhúsum hafi náð þeim árangri sem raunin er.

Ingólfur Guðnason.

Frumkvæði, þekking og þrautseigja garðyrkjubænda í óstöðugu rekstrarumhverfi vekur aðdáun. Nú er svo komið að margar gróðrarstöðvar hér á landi eru fyllilega sambærilegar varðandi tækni og framleiðslugetu þeim sem finna má í öðrum löndum.

Slíkur árangur næst ekki í einni svipan. Ræktun grænmetis og blóma í upphituðum gróðurhúsum var komin nokkuð vel á veg seinni hluta 19. aldar í nágrannalöndum okkar, sem fyrir sitt leyti vakti athygli hjá íslenskum ferðalöngum sem höfðu séð til þeirra og þótti mikið til koma. Einkum voru það Danir, Hollendingar og Þjóðverjar sem höfðu náð góðum árangri með gróðurhúsum sem voru oftast hituð með kolakyndingu.

Nafntogaðir Íslendingar höfðu orð á því í riti og ræðu að hér mætti einnig stunda slíka iðju og höfðu sérstaklega í huga möguleikann á að nota jarðhita við upphitun húsanna. Má nefna Sigurð Guðmundsson málara sem nefndi kosti þess að reisa „Drivhus“ í tengslum við jarðhita skömmu fyrir aldamótin 1900. Enn fyrr hafði 18. aldar framfaramaðurinn Ólafur Ólavius viðrað hugmyndir um ámóta „gróðrarskála og vermireiti“ þar sem jarðvarma gætti. Hans Schierbeck landlæknir nefnir einnig slíkt sem vænlegan kost árið 1890.

Erlendir menntamenn sem hingað komu sáu einnig fyrir sér möguleika í ylræktun. Danski skrúðgarðaarkitektinn H.C Larsen, sem kom hingað til lands árið 1922, gerði sér grein fyrir möguleikum ylræktar. Hann taldi að við Þvottalaugarnar í Reykjavík mætti reisa heilt „gróðurskálahverfi“ þar sem rækta mætti í gróðurhúsum með noktun jarðvarma „tómata, agúrkur, melónur, jarðarber, salat, baunir, blómkál og fjölda blómjurta“.

Fyrsta gróðurhúsið með jarðvarma árið 1924

Það var þó ekki fyrr en árið 1924 sem sá draumur varð að veruleika að reist voru gróðurhús hér á landi sem hituð voru með jarðvarma. Bjarni Ásgeirsson frá Knarrarnesi á Mýrum var þjóðþekktur maður á sinni tíð. Hann lagði stund á búfræði og var um tíma formaður Búnaðarfélags Íslands, alþingismaður, landbúnaðarráðherra og sendiherra Íslands í Noregi um skeið. Guðmundur Jónsson skipstjóri, mágur Bjarna, bjó á Reykjum í Mosfellssveit. Bjarni gerðist ráðsmaður á Reykjum 1921 og þeir hugðust í sameiningu stofna þar til fyrirmyndarbúskapar til að mæta aukinni byggð í Reykjavík og nágrenni. Garðyrkja var þar engin undantekning, talsverð ræktun útimatjurta var stunduð á Reykjum. Árið 1922 réðu þeir til sín danskan fjósamann, Johannes Boeskov að nafni. Hann kunni vel til verka í garðyrkju og hafði fljótlega orð á því við þá félaga að nýta mætti þann jarðvarma sem til staðar var á Reykjum til að hita upp gróðurhús og rækta matjurtir og blóm til sölu. Boeskov var umsvifalaust gerður að yfirmanni garðyrkju á staðnum og sendur til Danmerkur til að viða að sér efni í gróðurhús veturinn 1923–24. Fyrsta gróðurhúsið var í kjölfarið reist á Reykjum árið 1924, samtals um 120 fermetrar að flatarmáli og hitað upp með hveravatni.

Boeskov stofnar eigin gróðrarstöð

Þrátt fyrir smávægilega byrjunarörðugleika við upphitun fyrsta gróðurhússins á Reykjum reyndist vel að rækta í því bæði matjurtir og blóm. Árið 1925 fengust um 300 kíló af tómötum ásamt öðru grænmeti og afskornum blómum af ýmsu tagi. Johannes Boeskov, sem sá um ræktunina, sá í hendi sér kosti þess að hann gæti framfleytt sér með ræktun grænmetis og blóma til sölu inn á vaxandi markað. Hann keypti jarðarpart úr landi Reykjakots í Mosfellsdal árið 1925. Þar notaðist hann við þá reynslu sem hann hafði fengið á Reykjum og byggði árið 1926 tvö gróðurhús, ámóta stór og húsið sem var byggt á Reykjum tveimur árum fyrr. Hér er um að ræða fyrstu gróðrarstöð á Íslandi sem byggði reksturinn eingöngu á framleiðslu garðyrkjuafurða. Seinna sama ár kom Lauritz, bróðir Boeskov, til landsins og tók þátt í uppbygginguni í Blómvangi. Svo voveiflega vildi til að Johannes Boeskov lést af voðaskoti ári síðar. Lauritz tók þá alfarið við rekstri stöðvarinnar og rak hana með góðum árangri þar til hann flutti aftur til Danmerkur 1946.

Gróðurhúsum fjölgar – hernámsárin og framhald ylræktunar

Næstu ár voru að mörgu leyti merkisár í sögu gróðurhúsaræktunar. Þá voru reist dálítil gróðurhús í Reykjavík, á Skrúði í Dýrafirði, Akureyri og í Hveradölum, nærri Skíðaskálanum. Flest þessara litlu gróðurhúsa voru hituð upp með kolum eða koksi, önnur með jarðvarma. Allra fyrsta gróðurhús sem reist var hér á landi var reyndar á Sauðárkróki. Þar byggði danski kaupmaðurinn Carl Knudsen ofurlítið gróðurhús árið 1896 sem eingöngu var hitað að vori með gerjuðu hrossataði.

Þegar í ljós kom að almenningur tók framleiðsluvörum ylræktarbændanna vel fór gróðrarstöðvum að fjölga. Þá fór að bera á stærri gróðrarstöðvum, nefna má sem dæmi Fagrahvamm í Hveragerði 1930, Hveravelli við Húsavík 1934, Syðri-Reyki II í Biskupstungum 1936, Víðigerði við Deildartunguhver 1938 og Reyki í Ölfusi 1930. Þar var árið 1939 stofnaður Garðyrkjuskóli ríkisins, sem hafði strax mikil áhrif til aukinnar fagþekkingar í íslenskri garðyrkju. Það sem einkenndi ræktun á þessum árum var mikil tegundafjölbreytni, garðyrkjubændur reyndu hinar ólíklegustu gerðir blóma og grænmetis í leit að þeim vörum sem féll neytendum vel í geð og þeir gátu ræktað með viðunandi árangri.

Á hernámsárunum átti garðyrkjustöðvum eftir að fjölga verulega og þær sem byggðar voru á þeim árum urðu stærri en hinar sem á undan komu. Flatarmál gróðurhúsa jókst úr 10.000 fermetrum árið 1940 í nærri 70.000 árið 1950.

Íslenskri ylræktun er ógnað vegna óvæntra verðhækkana á raforku

Ylrækt er blómstrandi atvinnugrein sem hefur verið í örum vexti á undanförnum árum. Garðyrkju- bændur hafa fullan hug á að auka enn hlut heilnæmrar íslenskrar vöru á markaði. Til þess að svo megi vera þarf samt meira til en áræðni og dugnað. Ytra umhverfi verður að vera með þeim hætti að hægt sé að reka fyrirtækin með sóma.

Ræktun með notkun raflýsingar allt árið um kring hefur vaxið mikið og leitt til þess að ýmsar íslenskar garðyrkjuafurðir fást nú allt árið. Aukinn raforkukostnaður sem orðið hefur undanfarið og virðist að óbreyttu ætla að halda áfram er raunveruleg ógn við þessa jákvæðu þróun. Grundvallarbreyting á fyrirkomulagi raforkusölu til garðyrkjubænda með tilkomu óvænts uppboðsmarkaðar á raforku hefur átt sér stað á fáum árum og veldur því að varla verður hægt að stunda ræktun að vetrarlagi öllu lengur og setur öll framtíðaráform um vaxandi ylrækt í uppnám.

Staðreyndin er sú að ylræktun matjurta er fæðuöryggismál sem ríkisvaldinu er skylt að verja þegar að því er vegið. Engar garðyrkjustöðvar geta staðið undir hækkun raforkuverðs um ríflega 10% á hverju ári ofan á aðrar verðhækkanir, árum saman, líkt og nú blasir við að óbreyttu. Slík gjöf til búgreinar á hundrað ára afmæli hennar er ekki vel þegin.

Skylt efni: ylrækt

Þjóðbúningur að gjöf frá konum á Íslandi til kvenna á Nýja Íslandi
Lesendarýni 14. febrúar 2025

Þjóðbúningur að gjöf frá konum á Íslandi til kvenna á Nýja Íslandi

Íslenskur hópur kvenna sameinast nú um stórbrotna gjöf sem mun gleðja og styrkja...

Íslenska kýrin í mikilli framför
Lesendarýni 12. febrúar 2025

Íslenska kýrin í mikilli framför

Það liggur fyrir mikið afrek hjá kúabændum á þessari öld hversu stórstígar framf...

Kolefnisskógrækt á villigötum
Lesendarýni 11. febrúar 2025

Kolefnisskógrækt á villigötum

Á samfélagsmiðlinum Vísi birtist umfjöllun um skógræktina á Þverá og í Saltvík í...

Að gefnu tilefni
Lesendarýni 10. febrúar 2025

Að gefnu tilefni

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtist grein eftir þá félaga Baldur Helga Ben...

Ljótur er ég
Lesendarýni 5. febrúar 2025

Ljótur er ég

Sykur skiptir öllu máli. Án hans væru einungis sykurlausir drykkir í boði og mig...

Fokskaðar á þökum
Lesendarýni 3. febrúar 2025

Fokskaðar á þökum

Á hverju ári koma ofsaveður hér á landi þar sem allt lauslegt, og sumt fast, tek...

Bláskelin er bjargvættur
Lesendarýni 31. janúar 2025

Bláskelin er bjargvættur

Ein allra stærsta áskorun samtímans er hvernig hægt verður að mæta vaxandi þörf ...

Raunhæfar leiðir til að efla nautgriparækt á Íslandi
Lesendarýni 30. janúar 2025

Raunhæfar leiðir til að efla nautgriparækt á Íslandi

Samkvæmt öllum tölulegum upplýsingum um afkomu íslenskra kúabænda sem lesa hefur...