Myndin sýnir þorskafla á Íslandsmiðum síðustu 80 árin. Eins og sjá má er meðalaflinn síðustu 40 árin rétt rúmlega helmingur þess sem veiddist að jafnaði 40 árin þar á undan eða frá 1944–1983. „Vituð þér enn eða hvað?“ (Völuspá).
Myndin sýnir þorskafla á Íslandsmiðum síðustu 80 árin. Eins og sjá má er meðalaflinn síðustu 40 árin rétt rúmlega helmingur þess sem veiddist að jafnaði 40 árin þar á undan eða frá 1944–1983. „Vituð þér enn eða hvað?“ (Völuspá).
Lesendarýni 15. janúar 2025

Gervivísindi og fataleysi?

Höfundur: Magnús Jónsson, veðurfræðingur og áhugamaður um fiskveiðar.

Lengi hef ég fylgst allnáið með þróun mála í fiskveiðum, stjórn þeirra, ráðgjöf vísindamanna, framgöngu stjórnmálamanna og hegðan handhafa fiskauðlindarinnar.

Magnús Jónsson.

Um þetta mætti skrifa langar bækur og framleiða margar Verbúðir. Raunar mætti hugsa sér að vinna sérstaka rannsóknaskýrslu um þessi málefni svo stórfelld áhrif sem þau hafa haft á þróun íslensks samfélags á síðustu áratugum. Í þessum skrifum er þó einungis fjallað um ráðgjöfina, forsendur hennar og árangur.

Öldruð tilgátuvísindi

Árið 1957 settu tveir breskir vísindamenn í fiskifræðum, þeir Ray Beverton og Sidney Holt, fram tilgátulíkan (BH-líkan) þar sem reynt er að reikna/herma væntanlegan fjölda fiska í tilteknum árgangi sem fall af fjölda einstaklinga af fyrri kynslóð. Þótt breyttar útgáfur af þessu líkani (sbr. Ricker) hafi verið notaðar í fiskivísindunum síðan er það í meginatriðum notað til að lýsa sambandi nýliðunar og stærðar hrygningarstofns enn þann dag í dag.

Á grundvelli þess var síðan innleidd alþjóðleg stefna (unnin af ICES o. fl.) á því hvernig hægt væri að hámarka sjálfbæra afrakstursgetu fiskistofna (Maximum Sustainable Yield, MSY). Þetta BH- líkan og ekki síst MSY-líkanið hefur á þeim mannsaldri sem liðinn er síðan það var sett fram verið gagnrýnt af mörgum. Athyglisverðasta gagnrýnin á MSY var þó sett fram af S. Holt sjálfum. Taldi hann m.a. að sú forsenda að líffræðileg framleiðni stofnsins réðist eingöngu af stærð hans og þéttleika væri röng. Þannig gætu tveir stofnar með nákvæmlega sama fjölda einstaklinga, af sömu stærð og með sama vaxtarhraða skilað mjög mismunandi afrakstri. Orðrétt sagði hann (í lauslegri þýðingu):

„.... Þessi stefna (MSY) er fullkomið dæmi um gervivísindi með lítinn reynslulegan eða traustan fræðilegan grunn. Sem markmið fyrir stjórnun fiskveiða er það ófullnægjandi og notkun þess eykur líklega óarðsemi, og jafnvel hrun fiskveiða.“

Togararall og stofnmat

Ein mikilvægustu gögnin í öllum stofnstærðarmælingum og útreikningum til ráðgjafar hér á landi er togararallið svokallaða. Frá upphafi þess 1985 hefur það legið undir mikilli gagnrýni skipstjórnarmanna og annarra sjómanna. Flestir þeir sem koma nálægt fiskveiðum vita að það eru minni líkur en meiri að hægt sé að reikna með að finna og veiða sömu fiskitegundina á einum og sama staðnum (í breytilegu veðri og sjávarstraumum) með sama veiðarfæri og á sama tíma ár eftir ár, jafnvel áratugum saman. Skiptir þá litlu máli hvort veiðarfærið er troll, dragnót, net, lína eða handfæri.

Þegar kemur að stofnmatinu skiptir líka máli hvaða reikniaðferðum er beitt og hvaða tölfræðilegar forsendur eru notaðar. Þetta kemur skýrt fram í grein eftir Guðmund Guðmundsson tölfræðing (Vísbending 21. apríl 2023) þar sem breytileikinn í þessu mati getur verið tugir prósenta (hundruð þúsunda tonna). Bendir hann m.a. á að a.m.k. tvær forsendur Hafró í sambandi stofnstærðar og rallvísitölu standist ekki. Þannig sé grunnurinn að öllum útreikningum í besta falli umdeildur en í versta falli fráleitur.

Sannleikurinn og umræðan

Mér finnst harla ólíklegt að endanlegur vísindalegur sannleikur um samspil, þróun og vöxt fiskistofna hafi verið settur fram í líkani fyrir 67 árum eða hafi fundist með því að toga ár eftir ár með 40 ára gömlu trolli á sama stað og á sama mánaðardegi í tiltekinn fastan tíma á nokkur hundruð stöðum á miðum umhverfis landið til að búa til gögn inn í umdeild líkön. Ég veit a.m.k. ekki um neina vísindagrein sem ekki hefur tekið stórfelldum breytingum, jafnvel kollsteypum á þessum tíma. Nægir þar að nefna, hagfræði, næringarfræði og loftslagsfræðin svo fáar óskyldar greinar séu nefndar. Í þessum fræðum og mörgum öðrum eru oft uppi afar ólík sjónarmið og ný þekking og reynsla hefur í mörgum tilvikum breytt afstöðu manna, jafnvel í grundvallaratriðum. Þannig segir Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Joseph Stiglitz, að hækkun stýrivaxta sé eins og olía á verðbólubálið meðan aðrir hagfræðingar halda í 20. aldar skoðanir á þessum málum. Í loftslagsfræðunum er bæði tekist á um faglegar orsakir og aðgerðir. Þar hefur m.a. komið fram að sumir vísindamenn telja að binding koltvísýrings með skógrækt á köldum landsvæðum sé í besta falli gagnslaus og í versta falli auki hún á hlýnun andrúmslofts. Loks hafa menn tekið eftir því að mikill munur getur verið á skoðunum jarðvísindamanna um framtíð eldgosahrinunnar á Reykjanesi. Allt eru þetta dæmi um frjóa fræðilega umræðu og leit að nýrri þekkingu. En í fiskveiðiráðgjöfinni virðist bara vera ein óbreytanleg stefna, forsendur og aðferð við gagnaöflun. Gagnrýnin umræða og skoðanaskipti um vísindalega nálgun Hafró hefur sjaldan verið vel tekið. Segja má að hún sé ekki einasta óumbeðin, heldur einnig óvelkomin eins og Tumi Tómasson fiskifræðingur benti á í skýrslu sinni um þessi mál frá 2002.

Nýliðun, hrygningarstofn og náttúrulegur dauði

Um það leyti sem kvótakerfið var sett á fyrir um 40 árum var aðaláherslan hjá Hafró á mikilvægi þess að byggja upp hrygningarstofn þorsks til að nýliðun batnaði og veiðin gæti vaxið jafnvel upp í 400–500 þúsund tonn á ári. Á árunum 1983–84 kom fram góð nýliðun þrátt fyrir fremur lítinn hrygningarstofn. Hins vegar hefur engin öflug nýliðun orðið síðan (verið að jafnaði um 135 milljón fiskar á ári, eða um 60% af því sem hún hafði verið að jafnaði í áratugi áður). Og þrátt fyrir mjög sterkan hrygningarstofn fyrir fáum árum (þann stærsta í 60 ár) batnaði nýliðun ekkert. Þessi staðreynd, sem stríðir gegn kenningum ICES-vísindamannanna og veldur ráðþroti og skilningsleysi þeirra, hefur hins vegar að því er virðist í engu breytt hugsanagangi fiskifræðinga, gagnaöflun, útreikningum eða veiðiráðgjöf.

Fyrir meira en 60 árum gerði Jón Jónsson fiskifræðingur athugun á náttúrulegum dauða í eldri þorski. Samkvæmt henni var þessi dauði talinn vera um 18% á ári. Síðan hefur að sögn engin tilraun verið gerð hér á landi til að skoða breytileika í þessari mikilvægu stærð. Þess vegna segir í öllum þeim ráðgefandi skýrslum frá Hafró sem ég hef lesið að þessi stærð sé ekki þekkt en hún sett í útreikningunum 0.2 (18%) í öllum árgöngum og í öllu árferði í hafinu og raunar hjá öllum nytjategundum. Allt saman óháð æti, stærð spendýrastofnanna í hafinu (sem sagðir eru um þessar mundir éta 13–14 milljónir tonna á ári), samspili og stærðarsamsetningu stofna, umhverfisþáttum o.fl.

Forsendur kvótasetningar

Þegar kvótasetning á þorsk var innleidd gáfu menn sér nokkrar forsendur. Ein sú mikilvægasta var að hér væri í meginatriðum einn þorskstofn við landið. Önnur forsenda var sú að við allar aðstæður í hafi og lífríki þess væri hagstætt að friða og geyma fisk til þess að hann gæti vaxið og gefið meira af sér þegar hann yrði eldri. Þriðja forsendan var sú að með því að takmarka veiðar sem mest myndi hrygningarstofninn vaxa og veiðistofninn sömuleiðis í framhaldi af þessu. Engin af þessum forsendum hefur staðist tímans tönn.

Umhverfis landið er nú þekktur fjöldinn allur af „staðbundnum þorskstofnum“ og m.a.s. er stóri stofninn við Suðvesturland fjarri því að vera einsleitur; sennilega samsettur úr mörgum undirstofnum. Hugmyndir um að hægt væri að kaupa/leigja kvóta á Raufarhöfn og veiða hann síðan á miðum við Sandgerði eða Suðureyri stangast því algerlega á við raunveruleikann. Svipað má segja með stærðarþróun hrygningarstofns og veiðistofns. Það sem flestir sjómenn sjá nú sem eina árangur af þessari stefnu er, að nú veiðist miklu meira af stórþorski (sem þarf miklu meira æti en sá minni) en áður og að seiði og smáfiskur (ekki síst þorskur) er umtalsverður hluti af fæðu golþorskanna.

Aflaregla

Annað fyrirbæri sem meðal sjómanna er mjög gagnrýnt er svokölluð aflaregla. Tillögur um hana komu fyrst fram 1992. Voru þær unnar af nefnd sem samansett var af tveimur fulltrúum LÍÚ (SFS), þremur hagfræðingum, einum tölfræðingi og forstjóra Hafró. Þótt ég beri mikla virðingu fyrir þessum mönnum, einkum þeim síðastnefnda, er ég viss um að ekki komu mikil náttúrufræði, umhverfisþættir eða lífvísindi inn í vinnu þessarar nefndar.

Í skýrslu hennar, Hagkvæm nýting fiskistofna, sem kom út 1994 eru stórbrotnir útreikningar sem byggðust á því að innleidd yrði aflaregla upp á 22%, sem var tillaga nefndarinnar. Hins vegar ákváðu stjórnvöld að aflareglan yrði 25% og þannig var hún í um áratug. Við lestur þessarar skýrslu og þekkjandi þróunina síðan velti ég ítrekað fyrir mér áreiðanleika þeirra aðferða, líkanreikninga og spádóma sem þarna voru gerðir. Þar segir m.a:

  • Helstu niðurstöður hermireikninga miðað við 175 þúsund tonna upphafsafla voru þær að miklar líkur væru á að hægt yrði að byggja hrygningarstofninn upp í 700–800 þúsund tonn og veiðistofninn í 1.400– 1.600 þúsund tonn. Í jafnvægi gæti árlegur afrakstur slíks þorskstofns verið um 350 þúsund tonn.
  • Gera má ráð fyrir að 13 ár (þ.e. 2007) líði þar til þorskafli fer yfir 300.000 tonn, en það getur þó gerst fyrr. T.d. eru 7% líkur á því a það gerist árið 2002 eða fyrr en 15% líkur á að það gerist ekki fyrr en árið 2014 eða síðar.
  • Þorskafli leitar jafnvægis við 330.000 tonn með beitingu reglunnar. Veruleg frávik geta þó orðið á þessu eins og sést á dreifingu meðalafla yfir síðustu 7 ár hvers tímabils.
  • Gangi efling þorskstofnsins eftir mun það minnka afkastagetu loðnustofns og rækjustofns. Þannig má gera ráð fyrir að langtímameðaltal loðnuafla verði um 500.000 tonn á ári og rækjuafla um 30.000 tonn á ári. Veruleg frávik geta þó orðið frá þessu líkt og með þorskstofninn. Þessi frávik ganga hins vegar að jafnaði í öfuga átt við frávik þorskafla frá langtímameðaltali.

Hér má nefna að þorskafli var á þessum árum (1993–1995) í kringum 175.000 tonn (innan við helmingur þess sem hafði verið að jafnaði í um 50 ár þar á undan). Þá er rétt að nefna að meðalloðnuafli hefur síðustu 15 árin verið rúmlega 300.000 tonn á ári með fjögur loðnuleysisár. Rækjuráðgjöfin er um þessar mundir 4.000–5.000 tonn á ári (sem alls ekki næst að veiða) og vart hefur veiðst nokkur rækja inni á fjörðum eða flóum síðustu 20 árin. Mest allt var hrunið á þeim slóðum innan áratugs frá því að skýrslan 1994 kom út, þrátt fyrir að ráðgjöf væri fylgt.

Í mars 2001 var sami hópur auk forseta Sjómannasambands Íslands fenginn til að leggja mat á árangur af notkun aflareglunnar. Skilaði hópurinn niðurstöðum 2004 í skýrslu: Aflaregla fyrir þorskveiðar á Íslandsmiðum. Skemmst er frá því að segja að árangur af upptöku aflareglunnar var af nefndinni talinn umtalsverður þótt gera mætti enn betur með því að nota 22% regluna. Þarna voru menn að leggja mat á ca 10 ára gamla eigin vinnu sína.

Árið 2007 kom út enn ein skýrslan um þessi mál undir nafninu Þjóðhagsleg áhrif aflareglu. Þar er enn frekari hagfræðilegum líkanreikningum bætt ofan á þá útreikninga og spádóma sem settir höfðu verið fram í fyrri líkanreikningum um þróun þorskstofnsins og hagkvæmni veiða úr honum. Þar eru m.a. bornar saman „gildandi aflaregla“, „meðalhófsaflaregla“ og „hagkvæm aflaregla“ en sú síðastnefnda gerði ráð fyrir að enginn þorskur yrði veiddur á Íslandsmiðum í nokkur ár. Sama ár kom fram í útreikningum Hafró að stærð veiðistofns þorsks væri 649 þús. tonn (það vantar ekki nákvæmnina!) og hrygningarstofn 182 þús. tonn, báðar stærðir í sögulegu lágmarki og sama mátti segja um meðalþyngd allra aldurshópa í stofninum. Því lagði stofnunin til að leyfilegur heildarafli á fiskveiðiárinu 2007/2008 yrði 130 þús tonn og að aflareglan yrði 20%. Þannig var árangurinn eftir meira en áratugs langa notkun á aflareglu!

Það þarf mun meiri kunnáttu í stærðfræði og tölfræði en ég bý yfir til að halda skýrum þræði í þessum skýrslum. Raunar hef ég engan hitt (þeir hljóta þó að vera þó nokkrir) sem hefur lesið fyrrnefndar skýrslur og enginn skipstjórnarmaður sem ég hef rætt við hefur náð að botna í því hvernig helstu niðurstöður um ágæti aflareglunnar eru fengnar. Fróðlegt væri einnig að vita hversu margir þingmenn, ráðherrar og aðrir sem hafa þurft að taka ákvarðanir á grundvelli skýrslnanna hafa lesið þær og skilið. Sama gildir með flest fjölmiðlafólk sem nánast aldrei fjallar nú orðið um þessi mál.

Myndin sýnir að undangengin 40 ár er nýliðun þorsks ótengd stærð hrygningarstofns, öfugt við það sem haldið var fram fyrir daga kvótakerfisins. Líta má á þetta sem 40 ára fræðilega eyðimerkurgöngu.

Fataleysi í fiskveiðiráðgjöf

Ég hef áður sagt í skrifum mínum um þessi mál að á þeim síðustu 12 árum sem ég hef tengst fiskveiðum, hef ég enn ekki hitt skipstjórnarmenn eða sjómenn almennt sem hafa tiltrú á veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Raunar er afstaða sjómanna til hennar þannig að hún minnir einna helst á þekkt ævintýri H.C. Andersen, því æ oftar heyrir maður nefnda söguna um fatalausa keisarann þegar ráðgjöfin er rædd í þessum hópi. Síðan telst það til undantekninga að nokkur utan Hafró láti í ljós álit eða spyrji spurninga á þeim útreikningum sem stofnunin leggur fram á árlegum kynningum á veiðiráðgjöf sinni. Ekki frekar en að enginn í sögunni góðu vildi verða fyrstur til að spyrja um nýju fötin keisarans fyrr en saklaust barn benti á nekt hans hátignar.

Skylt efni: fiskveiðiráðgjöf

Leshópar – Jafningjafræðsla
Lesendarýni 16. janúar 2025

Leshópar – Jafningjafræðsla

Ein yngsta grein landbúnaðar hér á landi er skógrækt. Bændur vítt og breitt um l...

Gervivísindi og fataleysi?
Lesendarýni 15. janúar 2025

Gervivísindi og fataleysi?

Lengi hef ég fylgst allnáið með þróun mála í fiskveiðum, stjórn þeirra, ráðgjöf ...

Strengdir þú nýársheit?
Lesendarýni 10. janúar 2025

Strengdir þú nýársheit?

Samkvæmt 4.000 ára gamalli hefð sem hófst í Babýlóníu, tíðkast í dag víða um hei...

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám
Lesendarýni 8. janúar 2025

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám

Síðastliðinn vetur vann Arev álitsgerð fyrir Landssamband veiðifélaga um gildand...

Loftslagsmál og orka
Lesendarýni 7. janúar 2025

Loftslagsmál og orka

Í Bændablaðinu þ. 7. nóvember er fjallað um áform um uppbyggingu vindmyllugarðs ...

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar k...

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...