Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Tollar og tómatar
Lesendarýni 16. september 2024

Tollar og tómatar

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur og verkefnastjóri hjá MS.

Eins og sólin sest í vestri er nokkuð árvisst að upp komi umræða um tolla á landbúnaðarvörur og verðlag hér á landi og samanburður við önnur lönd eða ríkjabandalög í því efni.

Erna Bjarnadóttir.

Alþjóðaviðskipti byggja á alþjóðlegum samningum milli ríkja – m.ö.o. ríki semja sérstaklega um hvaða viðskiptakjör gilda þegar vörur fara landa á milli. Þegar talað er um
viðskiptakjör er þó ekki alltaf gerður greinarmunur á hvað eru almenn kjör og hvað eru kjör samkvæmt sérstökum tvíhliða samningum milli ríkja og/eða viðskiptabandalaga.

Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) hefur mesta þýðingu í þessu sambandi. Þar koma ríki heims saman og ræða um viðskipti á heimsvísu. Þegar samningur um viðskipti með landbúnaðarvörur var gerður á hennar vegum skuldbundu ríkin sig til að leggja ekki á hærri tolla en sem nam tilteknu þaki (tollabindingar). Tollar geta hins vegar verið lægri en hámarkið. Þessir kjör bjóðast öllum sem eiga aðild að WTO. Ef ríki, sem er aðili að WTO, semur um frekari tollalækkanir við annað ríki, þá ber því að bjóða öðrum ríkjum sömu kjör. Þetta leiðir af svokallaðri MFN reglu og nefnast þau kjör MFN kjör (e. Most Favoured Nation, bestu-kjara- meðferð). Til viðbótar bætast síðan kjör samkvæmt viðskiptasamningum eða fríverslunarsamningum, t.d. tvíhliða samningur ESB og Íslands um viðskipti með landbúnaðarvörur eða EFTA-ríkjanna við Kanada, Kólumbíu og fleiri lönd. Þessir samningar byggja oft á flóknum samningaviðræðum og leiða til tollfrelsis í viðskiptum með vörur. Á móti koma svo betri kjör – markaðsaðgangur – (tollfrelsi eða lækkaða tolla) fyrir íslenskar vörur.

Tollfrelsi og tómatar

Sem dæmi um þetta má taka tolla á nýtt og kælt nautgripakjöt, sem hefur tollskrárnúmerið: 0201.0000. Almennur tollur (MFN) er 30% og 357 kr/kg. Tollur gagnvart ESB er 18% og 214 kr/kg. Önnur EFTA lönd njóta sömu kjara og lönd ESB, sem og Bretland, en þar er í gildi tvíhliða samkomulag um fríverslun. Í sumum tilvikum eru viðskiptakjörin enn betri, t.d. er enginn tollur lagður á þessa vöru í viðskiptum við Færeyjar.

Tómatar eru annað dæmi. Því er oft ranglega haldið fram að tollar á innflutta tómata hafi verið lagðir af. Almennur tollur á tómata í tollskrárnúmeri 0702.0090 er 10%. Tollar hafa hins vegar verið felldir niður í fjölmörgum tilvikum við gerð fríverslunarsamninga við ýmis tækifæri bæði á vegum EFTA, og tvíhliða samninga eins og milli Íslands og ESB eða Íslands og Bretlands. Vara sem þessi telst því alls ekki tollfrjáls í skýrslum WTO um Ísland heldur væri talin með vörum þar sem almenn kjör fela í sér álagningu % tolls.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að þótt ríki, t.d. Ísland, semji um betri viðskiptakjör, s.s. tollalækkun, við annað ríki á grundvelli tvíhliðasamninga þá leiðir það ekki ávallt til þess á grundvelli MFN reglunnar að önnur ríki, sem eru aðilar að WTO, njóti tollalækkunarinnar. Þannig ber íslenska ríkinu ekki skylda til að bjóða öðrum ríkjum 18% toll í stað 30% tolls þótt samið hafi verið um 18% toll við ESB.

Hvernig er þá hægt að bera þetta saman milli landa?

WTO gefur reglulega út skýrslu um svokallaðan „viðskipta prófíl“ þeirra ríkja sem eru aðilar að stofnuninni. Þar er að finna sérstakt yfirlit um landbúnaðarvörur en um þær gildir sérstakur samningur. Þar er greint hvaða kjör bjóðast öllum aðilum að WTO (tvíhliða viðskiptasamningar falla ekki undir þetta). Mjög áhugavert er að skoða þessa skýrslu WTO. Þannig eru engar mjólkurvörur tollfrjálsar inn í ESB, 21,7% undirliða ávaxta og grænmetis, 6,5% korn og brauðvara og 27,1% vara sem tilheyra flokknum kaffi og te. Sömu tölur fyrir Ísland eru 0%, mjólkurvara, 21,6% ávaxta og grænmetis, 22,2% korn og brauðvara, og 35,9% vara sem teljast kaffi og tevörur. Indland sem dæmi leggur tolla á allar vörur í þessum flokkum. Það er útúrsnúningur að blanda tollfrelsi í viðskiptum milli ESB landanna inn í umræðu um þetta. Innri markaður ESB er sérstaks eðlis í því sambandi og gilda sérreglur um viðskipti með vörur þar eins og bent er á af hálfu WTO, sbr. XXIV. gr. GATT-samningsins.

Verðjöfnunargjöld

Tollar eru ekki það eina sem hefur þýðingu í þessu sambandi því þótt tollar hafi verið felldir niður, þá eru dæmi til um að verðjöfnunargjöld séu lögð á innfluttar vörur. Á þetta við í samningum milli Íslands og ESB; verðjöfnunargjöld eru lögð á margar vörur við innflutning til ESB frá Íslandi þótt tollar hafi verið felldir niður. Sem dæmi má nefna jógúrt sem fellur undir bókun 3 við EES samninginn. Samkvæmt tvíhliða samningi Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur leggur ESB ekki tolla á jógúrt frá Íslandi en hins vegar nemur vörugjald á jógúrt í vörulið 0403 frá 12,4 EUR/100 kg upp í 168,8 EUR/100 kg (19 kr/kg – 234,8 kr/kg) eftir því um hvaða átta stafa tollkrárnúmer er að ræða. Til samanburðar nemur tollur á sömu vörur frá ESB samkvæmt íslensku tollskránni, 45-53 kr/kg eftir því um hvaða vöru nákvæmlega er verið að ræða. Mikilvægt er að halda því til haga að verðjöfnunargjöld eru að sjálfsögðu ígildi tolla í viðskiptum með þessar vörur þar sem niðurstaðan er sú sama – innflytjandi þarf að greiða verðjöfnunargjald við innflutning vörunnar.

Viðsjárverðir tímar eru í heiminum nú um stundir

Fyrir stuttu tilkynntu ESB, Bandaríkin og Kanada um að þau myndu hækka tolla á kínverska rafmagnsbíla þar sem innflutningur þessara bíla til Vesturlanda fæli í sér undirboð og væri ætlað að skaða bílaiðnaðinn á Vesturlöndum. Kínversk stjórnvöld hafa svarað þessu og boðað rannsókn á stuðningi við framleiðslu landbúnaðarvara frá ESB.

Mikilvægt er að hafa þessa stöðu alþjóðamála í huga þegar fjallað er um tolla í alþjóðlegum viðskiptum. Í dæminu um tómatana sáum við að þótt tollar hefðu verið felldir niður á tilteknum vörum var ákveðið að taka þá upp að nýju til að hafa „skiptimynt“ í framtíðarviðræðum um viðskiptasamninga.

Niðurlag

Á undanförnum misserum hafa átt sér stað miklar sveiflur í alþjóðaviðskiptum, fyrst vegna Covid-19 faraldursins og svo vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Alþjóðlegt viðskiptaumhverfi er nú orðið mun flóknara en áður, og dragast alþjóðaviðskipti nú saman.

Íslensk stjórnvöld verða að fylgjast vel með þessari þróun og vinna að samningum um viðskipti með heildarhagsmuni í huga en ekki kasta frá sér spilum sem þau kunna að hafa á hendi, t.d. með einhliða niðurfellingu tolla. Í alþjóðlegum viðskiptum gildir, líkt og í svo mörgu öðru, spakmælið úr Grettissögu: Sitt er hvort gæfa eða gjörvileiki. Íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðilar verða að standa vaktina í sífellt flóknari heimi.

Leshópar – Jafningjafræðsla
Lesendarýni 16. janúar 2025

Leshópar – Jafningjafræðsla

Ein yngsta grein landbúnaðar hér á landi er skógrækt. Bændur vítt og breitt um l...

Gervivísindi og fataleysi?
Lesendarýni 15. janúar 2025

Gervivísindi og fataleysi?

Lengi hef ég fylgst allnáið með þróun mála í fiskveiðum, stjórn þeirra, ráðgjöf ...

Strengdir þú nýársheit?
Lesendarýni 10. janúar 2025

Strengdir þú nýársheit?

Samkvæmt 4.000 ára gamalli hefð sem hófst í Babýlóníu, tíðkast í dag víða um hei...

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám
Lesendarýni 8. janúar 2025

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám

Síðastliðinn vetur vann Arev álitsgerð fyrir Landssamband veiðifélaga um gildand...

Loftslagsmál og orka
Lesendarýni 7. janúar 2025

Loftslagsmál og orka

Í Bændablaðinu þ. 7. nóvember er fjallað um áform um uppbyggingu vindmyllugarðs ...

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar k...

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...