Ástralir hyggjast hefja framleiðslu á vetnisknúnum jeppum, trukkum, rútum og dráttarvélum
Ástralska fyrirtækið H2X kynnti í sumar þau metnaðarfullu markmið að koma í framleiðslu jeppum, trukkum, rútum og dráttarvélum sem búin verði vetnis-efnarafölum sem knýja rafmótora.
Fyrirtækið hefur þegar smíðað frumgerð jeppa eða jepplings sem heitir Snowy og er með 60 kW vetnis-efnarafal og með heildarafl drifbúnaðar upp á 190 kW, eða sem samsvarar 255 hestöflum. Það eru þó ekki bara fólksbílar sem menn hafa áhuga á að framleiða hjá H2X, því hugur eigenda stefnir líka á hönnun á þungum ökutækjum eins og trukkum, rútum og jafnvel dráttarvélum. Til að knýja þessi stóru tæki verða efnarafalar upp á 300 til 550 kW. Ráðgera forsvarsmenn H2X að framleiðsla geti hafist í júlí 2021.
Ef allt gengur upp mun H2X verða fyrsta fyrirtækið til að framleiða dráttarvél á ástralskri grundu síðan 1986 þegar International Harvester lokaði dráttarvéla-verksmiðju sinni í Geeloc, Victoríuríki.
Höfuðstöðvar H2X verða í Port Kembal nærri Wollongong, en þar er einmitt staðsett vetnisverksmiðja.
Yfirmenn H2X eru síður en svo nýgræðingar í bílaframleiðsluheiminum. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins heitir Brendan Norman, en lykilmaður og hönnuður með honum er Chris Reitz, sem starfað hefur m.a. með Audi, VW, Nissan og Fiat. Hönnuður drifbúnaðarins er Peter Zienau, sem starfað hefur með General Motors. Tæknistjórinn er Ian Thompson, sem á sinn bakgrunn í bílaiðnaði hjá Lotus og Aston Martin. Þá sér Alan Marder um stefnumörkun fyrirtækisins, en hann starfaði áður hjá Toyota.
Frumgerð af vetnisknúna jepplingnum Snowy frá H2X í Ástralíu.