Átak verði gert í hnitsetningu landamerkja á starfssvæði BSE
Búnaðarsamband Eyjafjarðar vill gangast fyrir átaki um hnitsetningu landamerkja á starfssvæði sínu með það að markmiði að landamerki allra bújarða innan vébanda BSE verði hnitsett fyrir árslok 2020. „Afar mikilvægt er að ekki ríki óvissa eða ágreiningur um landamerki bújarða,“ segir í tillögu sem samþykkt var á aðalfundi BSE á dögunum.
Landamerkjalýsingar eru til fyrir flest allar jarðir á Íslandi segir í greinargerð með tillögunni. Merkjalýsingar þessar voru að mestu leyti skráðar á síðustu tveimur áratugum 19. aldar í kjölfarið á settum lögum um landamerki nr. 5 frá árinu 1882. Landamerkjalýsingarnar sem hér er vitnað til ganga í daglegu tali almennt undir heitinu landamerkjabréf.
Má deila um hversu örugg heimildin er
Ný lög um landamerki nr. 41 tóku gildi árið 1919 og eru þau í fullu gildi. Í þeim er m.a. kveðið á um að landeiganda sé skylt að gera glöggva skrá um landamerki sé hún ekki tiltæk. Þrátt fyrir að landamerkjabréf hafi verið gerð fyrir flestar jarðir má deila um hversu glögg og örugg sú heimild er.
Í texta bréfanna er landamerkjum aðeins lýst með tilvísun í örnefni og kennileiti á jörðinni. Þrátt fyrir tilurð landmerkjabréfanna er vitneskja um rétt landamerki víða að tapast með brotthvarfi eldri kynslóða, og einnig er sú hætta fyrir hendi ef jarðir ganga kaupum og sölum.