Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Hluti mögulegs inntaksstíflustæðis í farvegi Geitdalsár.
Hluti mögulegs inntaksstíflustæðis í farvegi Geitdalsár.
Mynd / Umhverfismatsskýrsla Geitdalsárvirkjunar ehf., 2025.
Fréttir 26. febrúar 2025

Enn er deilt um Geitdalsárvirkjun

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Fyrirhuguð framkvæmd allt að 9,9 MW virkjunar í Geitdalsá, á hálendi Austurlands, vekur enn blendin viðbrögð. Umhverfismatsskýrsla hefur verið í kynningu í gátt Skipulagsstofnunar.

Skipulagsstofnun auglýsti nýlega umhverfismat framkvæmda, þ.e. umhverfismatsskýrslu Geitdalsárvirkjunar ehf. í kynningu, fyrir allt að 9,9 MW virkjun í Geitdalsá í Múlaþingi. Frestur til að skila inn umsögnum um skýrsluna í Skipulagsgátt rennur út 22. febrúar og er matið aðgengilegt á vef Skipulagsstofnunar.

Upphafleg hönnun Geitdalsárvirkjunar. Hætt hefur verið við miðlunarlón sem er neðst til vinstri á kortinu. Kort/map.is-Bbl.

Orkugeta Geitdalsárvirkjunar er áætluð verða um 56 GWst/ári, skv. kynningu Skipulagsstofnunar, og verður virkjað rennsli 5,2 m3/s. Fyrirkomulag virkjunar í Geitdalsá er á þann hátt að áin verður stífluð vestan Hesteyrarfjalls, neðan ármóta við Innri-Sauðá. Áætlað rúmmál Hesteyrarlóns er 3,9 GL og flatarmál þess 36 ha við hæsta flóðvatnsborð. Vatn verður leitt í stöðvarhús um 6.800 m langa pípu. Framkvæmdin krefst 13 km vegagerðar. Áætluð efnisþörf er um 400 þúsund rúmmetrar og verður efni sótt í sjö námur innan framkvæmdasvæðisins. Ætlunin er að tengja virkjunina inn á tengivirki Landsnets við Hryggstekk með 33 kV jarðstreng sem lagður verður meðfram Geitdalsvegi um 17 km leið.

Gangsetning líkleg árið 2029
Skírnir Sigurbjörnsson.

Geitdalsárvirkjun ehf. kynnti umhverfismatsskýrsluna á opnum fundi 30. janúar sl. á Egilsstöðum. Skírnir Sigurbjörnsson er í forsvari fyrir framkvæmdina. „Fljótlega eftir að kynningu umhverfismatsskýrslunnar lýkur ætti álit Skipulagsstofnunar að liggja fyrir. Eftir það hefst vinna við skipulagsmál, frekari hönnun og leyfisveitingar. Við erum að vona að öll tilskilin leyfi geti legið fyrir árið 2026. Við þurfum svo þrjú sumur í framkvæmdir. Virkjunin gæti því verið gangsett í fyrsta lagi 2028 en ég tel að 2029 sé líklegra. Það er nú þannig með íslenska stjórnsýslu að hún er ekki mjög skilvirk þegar kemur að þessum málaflokki,“ segir Skírnir.

Landið sem áætlað er að fari undir Geitdalsvirkjun er í eigu Múlaþings annars vegar og íslenska ríkisins hins vegar og liggja samningar um rannsókna- og nýtingarleyfi fyrir. Framkvæmdaraðili hefur óskað eftir nauðsynlegum breytingum á aðalskipulagi og er ætlunin að tillaga að breyttu aðalskipulagi liggi fyrir að loknu mati á umhverfisáhrifum.

Sveitarstjórnarfólk áhugasamt

Áform um Geitdalsárvirkjun hafa mætt talsverðri andstöðu frá upphafi. Skírnir segir þó ekki upplifun forsvarsmanna virkjunarinnar að andstaða ríki um verkefnið. „Lýðræðislega kjörinn meirihluti í Múlaþingi hefur verið mjög áhugasamur um verkefnið. Við erum búin að vinna í mati á umhverfisáhrifum í þrjú ár og við kynntum niðurstöður á opnu húsi á Egilsstöðum nú í janúar. Þar mættu sjö manns og ég var ekki að skynja að neinn væri neikvæður. Það er því spurning hvort við getum ekki bara sagt að verkefnið sé vinsælt. Svo segja allar skoðanakannanir að vatnsafl njóti mikils fylgis á Íslandi,“ segir Skírnir enn fremur.

Andrés Skúlason.

„Áformin um Geitdalsárvirkjun hafa allt frá upphafi verið mjög umdeild og almenningur innan og utan svæðis andsnúinn stórvirkjanaframkvæmdum þarna. Þetta er engin smávirkjun, svo það sé sagt,“ segir Andrés Skúlason, verkefnastjóri hjá Landvernd.

Hann segir lykilatriði í andstöðu við virkjunina vera víðtæk náttúruspjöll á ört þverrandi víðernum á þessum hluta hálendis Austurlands, við jaðar Hrauna. Auk þess sé um að ræða mjög neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni, vistgerðir, mófugla, hreindýr og vatnalíf. Þá skerðist rennsli í Geitdalsá frá stíflu að stöðvarhúsi um langan veg um 50% með tilheyrandi óvissu fyrir hið heildstæða vatnshlot, með áhrifum á lífríki.

Varði ekki raforkuöryggi

„Það liggur fyrir að sveiflur í áætluðu lóni verða miklar og því mun fylgja rof á vel grónu landi og valda að óbreyttu áfoki og leir- og sandfjúki, sem er þó nægt fyrir,“ heldur Andrés áfram. „Þá er farið ranglega með að framkvæmdin hafi eitthvað með raforkuöryggi á Austurlandi að gera, því það er eins með þessa virkjun og aðrar í dag, að þeir munu einfaldlega selja hæstbjóðanda inn á almenna kerfinu. Og hvað sem öðru líður þá er ekki raforkuskortur á Austurlandi, þ.e. á því svæði jarðkringlunnar þar sem einmitt hvergi er framleidd meiri raforka, sé tekið mið af öllum mælikvörðum,“ segir hann.

Upplýsingaóreiða, segir NAUST

Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) fara nú yfir umhverfismatsskýrsluna. Samtökin hafa áður tjáð sig um málið, en vorið 2022 skilaði þáverandi formaður, Kristín Amalía Atladóttir, inn umsögn fyrir hönd samtakanna vegna matslýsingar virkjunarinnar. Þar var náttúru á svæðinu, sem nýtur sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum, lýst og fram kom m.a. að samtökin fái ekki séð hvaða brýnu almannahagsmunir séu í húfi sem réttlæti fyrirhugaða röskun á náttúruverðmætum sem ekki megi annars spilla samkvæmt þeim lögum.

Guðrún Óskarsdóttir.

Guðrún Óskarsdóttir, formaður NAUST, segir að í þeirri umsögn sé fjallað um upplýsingaóreiðu í umræðum um orkuskipti og framtíðarorkuþörf, sem eigi því miður enn vel við. „Í þeirri skýrslu sem nú er í kynningu er virkjunin talin hafa talsvert jákvæð áhrif á raforkuöryggi á svæðinu og því hefur verið haldið fram að hún sé enda til þess gerð,“ segir Guðrún. NAUST álíti þessa framsetningu dæmi um slíka upplýsingaóreiðu og það geti ekki talist annað en að bera í bakkafullan lækinn að ganga enn einu sinni á síminnkandi náttúru þessa svæðis til orkuöflunar, svæðis sem sé líklega sá blettur á jörðinni þar sem langmest endurnýjanleg orka á hvert mannsbarn er framleidd.

Tilvistarréttur náttúrunnar

„Það sem hins vegar er raunverulega takmörkuð auðlind á Austurlandi er lítt röskuð náttúra,“ heldur Guðrún áfram. „Það svæði sem hér um ræðir er lítt raskað og fáfarið og því hentugt fyrir hreindýr, fugla og fleiri dýr sem nýta svæðið og yrðu fyrir búsvæðatapi og ónæði af framkvæmdinni, auk þess sem vatnalíf myndi raskast mikið. Einnig bendir NAUST á tilvistarrétt náttúrunnar og þá auknu hættu á skaða fyrir lífríki sem aukinn aðgangur að svæði getur haft í för með sér. Af þessum sökum telja náttúruverndarsamtökin áform um Geitdalsárvirkjun vera óráð og vekja athygli á orkusóun í fjórðungnum og leiðum til að minnka hana,“ segir hún.

Varðandi orkuskiptin segir Guðrún NAUST vilja benda á hugtakið „carbon tunnel vision“, sem megi þýða sem kolefnisþröngsýni og lýsi því þegar einblínt er á útblástur koltvísýrings frá bruna jarðefnaeldsneytis við skilgreiningu umhverfisvandans sem við glímum við. „Þetta hefur í sífellt meira mæli verið notað til að réttlæta framkvæmdir við öflun „grænnar“ orku, framkvæmdir sem geta jafnvel verið mjög skaðlegar náttúrunni og því aðeins til þess fallnar að skjóta okkur í fótinn,“ segir hún. NAUST kalli eftir því að tekið verði fyrir notkun þessarar réttlætingar sem ekki eigi við rök að styðjast áður en hún leiði til aðgerða sem bæti gráu ofan á svart fyrir bæði náttúru og samfélag.

„Rót allra umhverfisvandamála er ofnýting og sóun auðlinda og með því að taka á því, í stað þess að eltast við afleiðingar þess, getum við náð raunverulegum árangri,“ segir Guðrún.

Breytingar en sama ferli

Um það hvaða breytingum verkefnið hafi tekið frá því að hugmyndin kom fyrst fram opinberlega, segir Skírnir að skoðað hafi verið að miðla vatni inn á Leirudal og að veita vatni inn um hliðarinntak úr Miðá. „Við höfum fallið frá þeim áformum og verðum nú bara með miðlun í fyrirhuguðu inntakslóni við Hesteyri,“ útskýrir hann. Þannig hafi verið dregið verulega úr umfangi mannvirkja frá því sem kynnt var í matsáætlun.

Andrés gagnrýnir að forsvarsmenn Geitdalsárvirkjunar ehf. hafi fengið að setja fram nýjar áætlanir um nýja virkjun í Geitdalsá í miðju ferli. Breytingar á áformunum, m.a. minnkað framkvæmdasvæði, hafi átt að gera að verkum að hætt yrði við virkjunaráformin í þáverandi formi og virkjunin með breytingum færi í nýtt ferli sem önnur og ný framkvæmd, með öðrum áskorunum og áhrifum á umhverfi og náttúru. Segir hann að vandamálið hafi einfaldlega verið fært til þar sem veruleg stækkun á inntakslóni verði framkvæmd í staðinn.

„Stíflumannvirki sem áður áttu að vera fyrir inntakslón neðar í ánni verður nú samkvæmt ætlunum samhliða breytt í miðlunarlón með mikilli stækkun stíflumannvirkja. Því er að því marki verið að færa vandamálið til enda virkjunin áætluð jafnstór, þ.e. 9,9 MW, eins fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir Andrés.

Geitdalsá

Geitdalsá á upptök sín í lækjum og tjörnum á hálendinu upp af Hamarsdal og Fossárdal vestan Ódáðavatna, í jaðri svæðis sem nefnist Hraun. Geitdalsá rennur í norður, að hluta um gljúfur og í fossum og tekur á leiðinni við mörgum þverám og lækjum. Megin innrennslið í Geitdalsá er úr Leirudalsá, sem rennur í gegnum nokkur vötn á leið sinni úr vestri. Við ármót Leirudalsár og Geitdalsár, rennur sú síðarnefnda til norðurs niður Geitdal, sem er upp af Norðurdal. Áin rennur áfram niður Norðurdal og sameinast svo Múlaá í Skriðdal. Saman mynda þessar ár Grímsá, sem rennur út í Lagarfljót, rúmum 6 km frá Egilsstöðum.

Skepnur út undan í almannavörnum
Fréttir 1. apríl 2025

Skepnur út undan í almannavörnum

Dýraverndarsamband Íslands telur brýnt að styrkja stöðu dýra í almannavarnaástan...

Skoða bryggju austan við Vík
Fréttir 31. mars 2025

Skoða bryggju austan við Vík

Fyrirtækið EP Power Minerals Iceland ehf. hyggst gera bryggju við Alviðruhamra á...

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni
Fréttir 28. mars 2025

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni

Nærandi ferðaþjónusta er ný nálgun í ferðaþjónustu sem miðar að því að leggja ræ...

Endingarmeira malbik og vegklæðing
Fréttir 28. mars 2025

Endingarmeira malbik og vegklæðing

Með því að blanda hágæða jarðbiki úr endurunnum þakdúki í malbik eða vegklæðingu...

Amerísk kögurvængja og dvergmítill nýir landnemar
Fréttir 28. mars 2025

Amerísk kögurvængja og dvergmítill nýir landnemar

Dvergmítlar og ný tegund kögurvængju eru nýlegir landnemar á Íslandi og geta val...

Strandirnar standa sterkari eftir
Fréttir 27. mars 2025

Strandirnar standa sterkari eftir

Strandamenn hafa staðið í átaki til að stöðva fólksfækkun og efla innviði og atv...

Íslenskar paprikur árið um kring
Fréttir 27. mars 2025

Íslenskar paprikur árið um kring

Sölufélag garðyrkjumanna fékk nýverið 13,5 milljóna króna styrk vegna rannsókna ...

Brugðist við áfellisdómi
Fréttir 27. mars 2025

Brugðist við áfellisdómi

Matvælastofnun hefur brugðist við niðurstöðum stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoð...