Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin saman við íslenska kúakynið, leiðir í ljós að möguleg framlegð væri mun meiri í mjólkurframleiðslu yrði hér skipt um kúakyn.
Í skýrslunni, sem heitir Samanburður á rekstrarhagkvæmni mjólkurframleiðslu á Íslandi með íslenskum og erlendum mjólkurkúakynjum, er meðal annars lagt mat á möguleg áhrif slíkra breytinga á rekstur kúabúa á Íslandi.
Einnig eru ýmis framkvæmdaratriði varðandi slíkan innflutning skoðuð og hugað að þáttum sem varða vernd íslenska kúakynsins.
Fram kemur að íslenskar mjólkurkýr skili minni meðalafurðum en helstu mjólkurframleiðslukyn nágrannalandanna og því hafi ítrekað verið stungið upp á innflutningi annarra kynja sem leið til að gera kúabúskap á Íslandi hagkvæmari.
Framlegð ykist um 3,3 milljarða
Til samanburðar við íslenska kúakynið voru norskar rauðar kýr (NRF), norrænar rauðar (NR), norrænar Holstein-kýr (NH) og danskar Jersey-kýr (DJ).
Í skýrslunni kemur fram að heildarframlegð kúabúskapar ykist um 3,3 milljarða íslenskra króna ef NR tæki hér yfir og aðeins litlu minna með NRF eða NH. Um tveggja milljarða aukning á framlegð myndi nást með DJ.
Færri kýr og samdráttur í metanlosun
Í skýrslunni er tekið dæmi um að ef horft sé á mjólkurframleiðslu í landinu í heild, gætu 14 þúsund kýr af NH- eða DJ-kyni skilað því sama og þær um það bil 25 þúsund kýr á Íslandi gera nú.
Þá segir í skýrslunni að vegna mikillar fækkunar kúa við að skipta yfir í nýtt kúakyn myndi heildar metanlosun kúastofnsins minnka um 10–24 prósent samkvæmt gefnum forsendum. Minnst væri minnkunin með NRF og mest með DJ. Mest kjötframleiðsla yrði aftur á móti með NRF.
Tryggja þurfi varðveislu gripa af íslenska kyninu
Varðandi áframhaldandi vernd á íslenska kúakyninu, segir í skýrslunni að stofninn sé lítið skyldur öðrum mjólkurframleiðslukynjum og hafi því mikið gildi fyrir varðveislu erfðaauðlinda nautgripa.
Ef annað kúakyn tæki yfir mjólkurframleiðslu á Íslandi þurfi að tryggja varðveislu óblandaðra gripa af íslenska kyninu. Kynbótastarfinu yrði þá nær eingöngu beitt í þágu viðhalds erfðafjölbreytni sem myndi valda kostnaði sem þyrfti að koma til móts við. Sá kostnaður væri þó lítill miðað við metinn ávinning af nýju kúakyni í mjólkurframleiðslunni.
Kemur ekki á óvart
„Niðurstöðurnar koma ekki á óvart,“ segir Jón Hjalti Eiríksson, kennari við Landbúnaðarháskóla Íslands og einn höfunda skýrslunnar. „Við fengum heldur meiri ábata heldur en var metinn árið 2007 en þó af sömu stærðargráðu. Stóru línurnar eru að það lítur út fyrir að það geti verið hægt að framleiða mjólk í landinu með töluvert minni kostnaði með öðru kúakyni. Það breytir því ekki að það er mikilvægt að íslenska kúakynið sé varðveitt með einhverjum hætti því það er mikilvæg erfðaauðlind.
Hvað verður gert með þessar upplýsingar er í höndum kúabænda og stjórnvalda, hvort kúabændur vilji fara í þessa vegferð og hvaða umgjörð verður um það til að tryggja sóttvarnir og varðveislu íslenska kúakynsins.“