Beittar uppgræðslur á hálendi Íslands, reynsla bænda, aðferðir og árangur
Sumarið 2016 fór ég ríðandi umhverfis Heklu. Í þeirri ferð sá ég uppgræðslur víðs vegar, sem ég hafði ekki vitað að væru til, þó að ég hafi sjálf fylgst með uppgræðslustarfinu á Biskupstungnaafrétti alla tíð. Ég sá líka land í öðru ástandi en lýst hefur verið á svæðinu sem nefnt er gosbeltið. Þá datt mér í hug að rannsaka beittu uppgræðslurnar á hálendinu, sem ég hafði haldið að væru fáar og strjálar en ekki um alla tranta, eins og ég komst að í þessari hestaferð.
Nú hef ég lokið þessari rannsókn með mastersritgerð frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Rannsóknin byggir á skoðunarferðum um valin uppgræðslusvæði á afréttum og viðtölum við rúmlega tuttugu bændur sem best þekkja til uppgræðslustarfs á viðkomandi svæði. Auk þeirra þakka ég leiðbeinanda mínum, dr. Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur, fyrir frábæra handleiðslu og samstarf.
Ritgerðin er á íslensku og er nú aðgengileg á Skemman.is á slóðinni http://hdl.handle.net/1946/40102.
Í þessari grein segi ég aðeins frá sögu uppgræðslustarfs á afréttum landsins og kynni helstu niðurstöður úr rannsóknarverkefni mínu.
Áburðarsekkir Landgræðslufélags Biskupstungna innan Bláfells vorið 2019.
Saga og umfang uppgræðslustarfs
Uppgræðslustörf hófust á afréttum svo einhverju nemi um og upp úr 1970, víða að frumkvæði sveitarfélaganna. Frá upphafi og fram á tíunda áratuginn sá Landgræðslan að mestu um áburðardreifingu. Dreift var með flugvélum í stórum stíl en sveitarfélögin greiddu hluta kostnaðar. Miklum fjármunum var varið til landgræðslu vegna þjóðargjafarinnar frá árinu 1974 og um nokkurt árabil þar á eftir. Á árunum 1975-1979 gæti áburði hafa verið dreift á 2.500-3.000 ha árlega á afréttum landsins. Uppgræðslur á húnvetnsku heiðunum vegna Blönduvirkjunar hófust árið 1981. Þar var borið á stór svæði árlega. Árið 1988 gæti áburði hafa verið dreift á um 2.000 ha á hálendinu, þar af um helmingur sem tilheyrði Blönduvirkjun.
Þegar þjóðargjafarinnar naut ekki lengur við dró úr fjárveitingum og um 1990 hafði áburðarflugið minnkað um tvo þriðju frá því sem mest var. Á næstu árum varð stefnubreyting í landgræðslumálum. Bændur og aðrir heimamenn tóku að sér framkvæmdir við uppgræðslurnar og fengu til þess fjármagn annars staðar frá, meðal annars frá Landgræðslunni. Stofnunin hafði þó áfram ákveðna umsjón með verkefnunum. Verkefni um uppgræðslu heimalanda, Bændur græða landið, hóf göngu sína og varð þegar mjög fjölmennt. Landgræðslufélög voru stofnuð. Áhugi bænda var til staðar og margir höfðu þegar komið sér upp mikilli reynslu af uppgræðslu lands. Bændur notuðu hey og fleira til uppgræðslu í auknum mæli og nýttu til þess þekkingu sína og tækni.
Landbótaáætlanir vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt komu til framkvæmda frá árinu 2003. Árið 1988, löngu áður en gæðastýringin kom til, starfaði Landgræðslan með 19 aðilum að uppgræðslu örfoka lands til beitar. Árið 2009 var 21 afréttur með landbótaáætlun þar sem unnið var að uppgræðslum og árið 2013 voru þessar áætlanir orðnar 27.
Fyrstu árin eftir hrun drógust framkvæmdir saman á landsvísu. Árið 2009 gæti hafa verið unnið á 1.200 ha á afréttum og árin 2012-2015 gæti hafa verið unnið á um 2.100 hekturum árlega. Árin 2016-2017 rýmkaðist fjárhagur til landgræðslustarfs nokkuð og árlegt umfang uppgræðslustarfs á afréttum gæti hafa verið um 5.500-6.000 ha þessi ár.
Augljóst er að bændur standa fyrir miklum meirihluta þess sem gert er í uppgræðslumálum á Íslandi nú um stundir. Stór hluti þessara verkefna er á beittum svæðum, bæði stóru sameiginlegu uppgræðslurnar vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt og uppgræðslur á heimalöndum undir merkjum Bændur græða landið.
Tilraunir og rannsóknir
Frá 1960 og í nokkra áratugi, fram um aldamót, voru gerðar ýmsar tilraunir og rannsóknir varðandi uppgræðslur á hálendinu. Fyrst voru gerðar tilraunir til að ganga úr skugga um hvort unnt væri að græða upp land með áburði og sáningu í mikilli hæð yfir sjávarmáli, meðal annars á Holtamannaafrétti og Sprengisandi. Þar var borið á mjög rýr og gróðursnauð öræfi í nokkur ár.
Áburðargjöfin þétti staðargróður ár frá ári en sáðgresi lifði ekki af við þær aðstæður. Þessar tilraunir voru gerðar með það fyrir augum að bæta vatnsmiðlun og draga úr sandfoki á vatnasvæði Þjórsár, sem þótti raunhæft og einnig var lagt til að dreifa áburðinum úr flugvél. Sú aðferð við áburðardreifingu var einmitt viðhöfð næsta áratuginn við uppgræðslu á afréttum.
Frá árinu 1981 græddi Landgræðslan upp mikil afréttarsvæði á húnvetnsku heiðunum fyrir Rafmagnsveitur ríkisins, síðar Landsvirkjun. Áburði og fræi var að mestu dreift með flugi og tilgangurinn var að bæta eigendum Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar fyrir haglendið sem fór undir Blöndulón. Þegar ráðist var í þetta verkefni, var orðið ljóst að uppgræðslur á hálendi voru raunhæfar og báru árangur en aðferðir voru í þróun og framvinda gróðurs í uppgræðslum til lengri tíma var lítt þekkt. Margar rannsóknir og tilraunir voru gerðar af Rannsóknastofnun landbúnaðarins í tengslum við þessar uppgræðslur á árunum 1981-1997. Eftir að rannsóknirnar á húnvetnsku heiðunum runnu sitt skeið, hefur lítið verið unnið að rannsóknum á uppgræðslum á hálendinu og beittar uppgræðslur hafa hlotið afar takmarkaða athygli.
Helstu niðurstöður - viðhorf bænda til uppgræðslustarfs
Á hverju svæði hafa menn sína sögu að segja af uppgræðslustarfinu, sem hófst á ýmsum tímum og hafði mismunandi aðdraganda en er nú sameinað undir merkjum gæðastýringar í sauðfjárrækt. Ávallt hefur Landgræðslan haft einhverja aðkomu að þessu starfi. Til að skilja afstöðu fólks, sérstaklega til samskiptanna við Landgræðsluna, þarf að kynna sér sögu svæðisins og hvers konar samskipti hafa farið þar fram.
Markmið bænda með uppgræðslustarfi eru í fyrsta lagi að uppfylla skilyrði gæðastýringar, til að geta nýtt landið til sauðfjárbeitar. Þó að sauðfjárbændur séu ekki einir um uppgræðslustarfið, virðast hagsmunir sauðfjárbúskaparins alls staðar vera grunnurinn.
Annað markmið bænda með uppgræðslustarfi er að ná árangri. Árangurinn felst í því að landið lokist af gróðri, að gróðurinn verði sem fjölbreyttastur og að gróðurinn lifi. Menn vilja stöðva rof og gróðureyðingu. Aukinn gróður og beit telst ótvírætt merki um árangur.
Þriðja markmið bænda með uppgræðslustarfi er beitarhagræði, það er að græða land undir beit eða til beitarstjórnunar.
Yfirleitt velja bændur svæði til uppgræðslu í samráði við Landgræðsluna. Vel gengur með það samstarf þar sem landgræðslufulltrúar og bændur leggja sömu atriði til grundvallar við svæðavalið.
Svæði eru valin til uppgræðslu til að ná árangri og að hluta vegna beitarhagræðis. Menn hafa engan áhuga fyrir starfi sem ekki ber árangur, svæðin eru valin eftir væntanlegum árangri og hætt er við svæði þar sem aðstæður eru erfiðar og vinnan ber ekki árangur. En mismunandi markmið vegast á, þannig að valið er ekki alltaf augljóst. Á að græða upp moldir eða vikra? Á að græða upp börð eða mela?
Aðgengi, kostnaður og fyrirhöfn skipta sköpum þegar kemur að því að velja verkefnin. Góður árangur er nokkurrar fyrirhafnar virði en bændur kæra sig ekki um að kosta til mikilli vinnu eða fjármunum fyrir lítinn eða óvissan árangur. Landfræðilegar aðstæður á hverjum stað ráða miklu um hvaða svæði og hvernig svæði eru tekin til uppgræðslu, svo sem gróðurfar, landrými, jarðvegur og færð. Þær hefðir sem fyrir eru á svæðinu hafa einnig áhrif.
Uppgræðsluaðferðir
Áburðardreifing er meginúrræðið við beittu uppgræðslurnar á hálendinu.
Áburðarskammtar eru frá 100 kg/ha til 300 kg/ha. Algengustu áburðarskammtar eru 200 kg/ha af tvígildum áburði en skammtastærðir eru tilkomnar vegna leiðbeininga frá Landgræðslunni.
Áburðinum er dreift eins snemma sumars og hægt er.
Menn taka fyrir ákveðið svæði og dreifa á það í nokkur ár. Síðan er sleppt úr ári eða árum í dreifingu, þar sem gróður hefur tekið vel við sér og þekja er orðin góð. Áburðurinn sem sparast er notaður til að dreifa á nýjum stað og svæðið þannig stækkað smám saman.
Þegar komin er ákveðin reynsla af uppgræðslustarfinu, vilja menn ráða sér meira sjálfir, hvar þeir dreifa og hve oft. Að dreifa eftir auganu er aðferðin sem bændur nota til að mæta breytileika og óvissu án þess að missa sjónar á markmiðunum.
Fræsáning. Þar sem einhver gróður er fyrir, nægir að nota áburð og yfirborðsdreifing á fræi bætir þar litlu við árangurinn. Í alveg gróðurlaust land, til dæmis aldauðan vikur, þarf að nota fræ. Til að sáningin komi að tilætluðum notum er best að fella fræið niður, til dæmis með raðsáðvél. Túnvingull vex vel niðurfelldur í vikur og mela.
Uppgræðsla vikurs. Vikur er áburðarfrekur. Í hreinan vikur eða vikursand þarf að nota fræ og helst að fella það niður. Annar jarðvegur, sem ekki er svo einsleitur og laus í sér, tekur betur við sér í uppgræðslu.
Uppgræðsla rofabarða. Áburður getur dugað ágætlega einn og sér til að græða lægri börð og þar sem er hlýtt og skýlt og gróður er í framför af sjálfsdáðum. Hey er borið í há börð og áburður borinn á í nokkur eða allmörg ár á eftir. Áburði er dreift í lægri börð eða jaðra. Uppgræðsla barða kostar nær alltaf margar áburðardreifingar og tekur langan tíma.
Við sáningu í rofabörð er best að fella fræið niður. Fræ af vallarfoxgrasi hefur reynst vel í rofabörð með öðru fræi. Snarrót dafnar vel sums staðar en beringspuntur miður.Menn láta erfiðustu börðin eiga sig.
Árangur uppgræðslustarfs
Eitt meginmarkmið bænda með uppgræðslum er að ná fullri þekju af gróðri sem getur lifað hjálparlaust. Við uppgræðslu barða og rofjaðra er stefnt að því að sár lokist og grói upp, rof hætti og gróður þeki moldir og börð. Bændur vinna að uppgræðslum á hverjum stað þar til þessum markmiðum er náð. Aðstæður ráða hvað það tekur langan tíma og hve mikið það kostar. Yfirleitt er mjög gróðurlítið fyrir á þessum stöðum, þannig að uppgræðslurnar hljóta að teljast árangursríkar, þar sem þær heppnast á annað borð. Mjög fátítt er að bændur hafi þurft frá að hverfa og hætta við aðgerðir, þar sem þeir vita nokkuð vel fyrir hvað þýðir að reyna með þeim úrræðum sem þeir búa yfir.
Erfitt að meta að ákveðnar aðgerðir leiði til ákveðins árangurs vegna þess flókna samspils sem leiðir til vistheimtar, en landið sjálft hefur þar mikil áhrif.
Stöðugur, grýttur jarðvegur er kostur sem kemur fram í tegundafjölbreytni. Grýttari jarðvegur gefur ekki endilega meiri þekju, því þar myndast yfirleitt lítil eða engin jarðvegsskán. Meirihluti þekju á fíngerðum jarðvegi, vikri eða sandi virðist vera skán og plöntutegundir eru fáar. Blandaður jarðvegur gefur af sér fjölbreyttari gróður.
Einsleitur gjóskujarðvegur er erfiður í uppgræðslu. Ef hraungrýti eða aur er samanvið vikurinn, ganga uppgræðslurnar miklu betur. Þar er gjarnan gróður fyrir, jarðvegur stöðugri og lífsskilyrði betri.
Moldarblandinn jarðvegur og raki eru ótvíræðir kostir. Besta vísbendingin um væntanlegan árangur er að þar sé einhver gróður fyrir, grastoddar, gróðurteygingar eða skán.
Skjól getur haft afgerandi áhrif á árangur uppgræðslu, sem birtist meðal annars í tegundafjölbreytni. Jarðvegur á sandhellu eða moldarklöpp hefur tekið vel við sér í uppgræðslu. Hreinn hvítur vikur og mýrarauði virðast vera jarðvegsgerðir sem gróður getur ekki lifað í.
Af öllum þeim niðurstöðum sem eru teknar saman hér að framan, sést að grjót í jarðvegi, hraun og aur í jarðvegi, sandhella undir og skjól eru allt kostir þegar kemur að uppgræðslu. Allt dregur þetta úr hreyfingu í jarðveginum og megin niðurstaðan er sú að hreyfing á jarðvegi standi gróðri helst fyrir þrifum við uppgræðslu á hálendinu.
Lúpína hefur ekki verið notuð í beittu uppgræðslurnar á hálendinu en hún breiðist þar út engu að síður. Bændur eru ekki hrifnir af lúpínu þar sem hún þrífst illa og þar sem hún á ekki að vera en annars staðar hafa menn ekki á móti henni.
Lúpína lifir vel á Suðurlandi og leggur þar undir sig landgræðslugirðingar. Hún breiðist enn meira út þegar girðingin er tekin og getur jafnvel breiðst útfyrir girðingar sem standa enn. Tilraunir til að eyða lúpínu, sem hefur jafnvel vaxið upp af aðeins einni plöntu, hafa mistekist. Lúpína þrífst illa á Norðausturlandi, hugsanlega vegna þurrks. Þar fer lúpínan aðallega yfir gróður sem fyrir er, en þekur ekki ógróið land eins og gerist á Suðurlandi.
Samspil viðhorfa, aðferða og árangurs við aðstæður
Hæð yfir sjó, skjólsæld, jarðvegur, úrkoma og gróðursæld áður en ráðist er í uppgræðsluna, ræður því hversu mikið þarf til að græða upp viðkomandi land. Bændur bregðast við þessum breytileika og jafna hann út með mismunandi stærð áburðarskammta, fjölda áburðardreifinga, með því að nota fræ eða ekki, fella fræið niður, dreifa kjötmjöli, dreifa heyi. Aðstæðurnar valda mismuninum en bændurnir minnka hann með aðgerðum sínum. Niðurstaða mín er að samspil bændanna, landsins og umhverfisins ráði hvernig uppgræðslurnar taka við sér, en að landið og umhverfið ráði mestu um hvaða gróður lifir til langframa og hvernig landið þróast eftir að uppgræðslustarfinu telst lokið.
Árangur af uppgræðslum bænda er góður, þó að þær séu beittar og ekki lakari en á friðuðum uppgræðslum, enda telja bændur að beit og uppgræðslur fari vel saman. Friðun ein og sér gagnast ekki til að græða upp land á hálendinu, umfram það sem gerist með hóflegri beit, en undanfarna áratugi hefur gróður á afréttum verið í framför með þeirri sauðfjárbeit sem þar hefur verið.
Bændur þurfa að gæta bæði að hagsmunum búfjárins og landsins sem þeir eru að nýta. Fénu er hleypt á afréttinn, þegar það hentar bæði landinu og búfénu í samræmi við tíðarfar og árstíma.
Menn fylgjast með vorkomunni á afréttinum til að sjá hvenær óhætt er að sleppa fénu. Þeir sem eiga sauðfé á afrétti, fylgjast auk þess með því að einhverju leyti yfir sumarið. Bændur, sem sjálfir fara til fjalls árum saman, fylgjast með ástandi afrétta að hausti ár frá ári og ástand fjárins fer ekki fram hjá þeim heldur. Þetta fólk lifir í náttúrunni, nýtur kosta náttúrunnar og gætir hagsmuna hennar. Heimamaðurinn er talandi hluti náttúrunnar á viðkomandi stað og frá sínu sjónarhorni talar hann máli hennar.
Tillögur
Uppgræðslustarf bænda á hálendinu er umfangsmikið og árangursríkt. Ég fæ ekki séð að meiri árangur næðist eftir öðrum leiðum. Að mínu mati eru þessar uppgræðslur dæmi um gagnvirkni milli búskapar og náttúru, þar sem athafnir manna styrkja vistkerfið og koma landi og náttúru til góða. Tilkostnaður og fyrirhöfn dreifist á bæði heimamenn og opinbera aðila og er haldið í lágmarki. Vegna beitarafnotanna hafa bændur raunverulega hagsmuni af því að ná árangri. Með því móti er engin hætta á að fjármunir sem ætlaðir eru í uppgræðslurnar, hverfi í annað bruðl.
Hagsmunir bænda eru ómissandi drifkraftur fyrir uppgræðslustarfið, sem mikilvægt er að viðurkenna. Samstarf og samráð landgræðslufulltrúa og bænda hefur gengið vel og verið árangursríkt, þar sem sjónarmið bændanna hafa verið virt og höfð að leiðarljósi við ákvarðanir og framkvæmd. Í ljósi sögunnar tel ég heillavænlegast að ákvarðanir verði teknar á vettvangi heimamanna og að yfirráð þeirra á afréttunum verði ekki skert umfram það sem orðið er.
Uppgræðsla lands á hálendinu er langtímaverkefni. Markmið með uppgræðslustarfinu þurfa að vera skýr, sanngjörn, framkvæmanleg og raunsæ og liggja fyrir til lengri tíma. Ég tel mjög óráðlegt að stofna þessu starfi í hættu með breytingum eða valdboðum sem miða að öðru en því sem bændur telja skynsamlegt og geta fallist á.
Uppgræðsluverkefnin gætu styrkst enn frekar með meiri þekkingaröflun, fræðslu og samráði þeirra sem að þeim standa. Bændur hafa áhuga fyrir meiri þekkingu, svo fremi sem sú þekking byggi á öðru og meira en innantómum slagorðum. Meiri og betri fagleg aðstoð við gerð landbótaáætlana væri örugglega vel þegin víða. Enn vantar aðgengilegar og handhægar aðferðir til að meta árangur við uppgræðslur, sem bændur gætu notað við áætlanagerð og eftirfylgni.
Samband uppgræðsluaðgerða, tíma, aðstæðna og árangurs þarf að rannsaka enn frekar til að byggja undir landbótaáætlanir og fleira. Ég tel að kröftum okkar væri betur varið til margs annars en að agnúast endalaust út í sauðfjárbeit, í ljósi gróðurframfara undanfarinna áratuga og þess góða árangurs sem náðst hefur við uppgræðslu afréttarlands á vegum bænda.
Sigríður Jónsdóttir
Arnarholti