Fer skógrækt saman með endurheimt votlendis?
Það er ágætt að árétta það strax í upphafi að allar aðgerðir sem draga úr áhrifum loftslagsbreytinga eru af hinu góða. Með breyttri neyslu má draga úr ýmsum óþarfa eins og matarsóun og brennslu á jarðefnaeldsneyti. Landeigendur verða einnig að huga að sinni landnotkun með það í huga að draga úr loftslagsáhrifum hennar. Þá er yfirleitt talað um skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis.
Hér verður stiklað á stóru um aðstæður hverrar aðgerðar fyrir sig ásamt nokkrum atriðum sem vert er að hafa í huga.
Fuglalíf og fleira
Allar landgerðirnar eru búsvæði fyrir fugla. Smáfuglar eru einkennandi fyrir skóga. Í móum og graslendi (t.d. framræstu landi) eru allmargar tegundir áberandi og jafn vel gróðurlausir melar og sandar skarta nokkru fuglalífi en fábreyttu. Allmargir fuglar sækja líka í votlendi, vötn og strandsvæði. Sumar tegundir votlendisfugla gera sér óðöl á tjörnum og vötnum þar sem einungis er pláss fyrir eitt fuglapar á stóru svæði. Munar þá um hvern poll.
Ákvarðanir um landnotkun hafa áhrif á fugla, spendýr, plöntur, sveppi og reyndar allt í náttúrunni. Þær hafa einnig áhrif á kolefnisjöfnuð, frjósemi, vatnsbúskap, jarðvegsrof og margt fleira. Allt skiptir þetta máli, en náttúruvernd, loftslagsvernd, vatnsvernd, jarðvegsvernd, fornleifavernd o.fl. hafa síður en svo í för með sér að viðhalda þurfi óbreyttu ástandi eða að það eina rétta sé að endurheimta eitthvað fyrra ástand.
Skógrækt
Ef ætlunin er að rækta skóg skal taka inn ótal atriði. Það þarf að friða svæði fyrir lausagöngufé. Það þarf að skipuleggja og gróðursetja í svæðið. Það þarf að hirða um svæðið svo það fari ekki í órækt, svo fátt eitt sé nefnt. Skógurinn nýtist aftur á móti til timburframleiðslu og lífríki í jarðvegi batnar þegar árin líða svo auðveldara er að hefja skógrækt að nýju eftir að trén hafa verið felld til nytja. Um fáum árum frá gróðursetningu er hægt að nýta skóga til beitar. Auk alls þess hagræna, umhverfislega og félagslega ágóða sem skógar hafa í för með sér er ljóst að skógrækt getur verið öflugasta leiðin sem raunveruleg völ er á til að binda CO2 úr andrúmsloftinu sé rétt staðið að málum.
Landgræðsla
Landgræðsla og skógrækt hafa misjafnar áherslur en eiga það sameiginlegt að efla gróður. Á rofnu landi sem friðað er fyrir beit má nota ýmsar trjátegundir, ásamt öðrum gróðri, til uppgræðslu lands. Landgræðsla fæst þó að mestu við meðferð beitilands þar sem tré nýtast ekki og þar sem loftslagsávinningur uppgræðsluaðgerða með áburðargjöf eða grassáningu er misjafn, t.d. eftir því hversu beitarálagið er mikið. Þar eru þó talsverðir möguleikar á að bæta kolefnisforða jarðvegs á stórum svæðum ef rétt er að málum staðið.
Endurheimt votlendis
Í gegnum tíðina hefur verið litið á votlendi sem lélega landnýtingu enda var land ræst fram umvörpum um drjúga hríð á seinni hluta síðustu aldar. Það er lítt aðgengilegt mannkindinni sem öðrum kindum og þar vex sérhæfður gróður sem nýtist búpeningi takmarkað til beitar, helst þó hrossum. Þegar votlendi er ræst fram geta aðstæður breyst mikið á örfáum árum. Jarðvegur sígur hægt og bítandi með auknu niðurbroti lífræns efnis. Grasspretta eykst. Landið verður greiðfærara. Áður voru hins vegar stór svæði ræst fram í engum sérstökum tilgangi. Með endurheimt votlendis er ætlunin að ná fram fyrra ástandi og þar með draga úr niðurbroti og meðfylgjandi losun CO2. Eins og með skógrækt og landgræðslu er þar talsverður breytileiki í árangri eftir aðstæðum en loftslagsávinningur getur þó verið umtalsverður sé rétt staðið að málum.
Loftslagið
Allt eru þetta frábærar leiðir í baráttunni við hlýnun jarðar. Endurheimt votlendis krefst lítils undirbúnings og árangur næst svo að segja strax að lokinni skurðauppfyllingu. Kostnaður fellst einkum í vinnuvélum og tiltölulega lítilli vinnu fólks og má ná drjúgum árangri á fáum dögum. Ósamstaða virðist vera um árangur samdráttar í kolefnislosun enda eru aðstæður misjafnar. Flestir virðast þó sammála um að endurheimt votlendis sé skjót leið til aðgerða við loftslagsbreytingar.
Undirbúningur landgræðslu er mismikill. Einfaldar aðgerðir, t.d. áburðardreifing, með nokkurra ára eftirfylgni eru algengar í landgræðslu. Oft er um mikið landflæmi að ræða og mikið undir. Þegar kemur að mati á kolefnisbindingu þá fellst árangur einkum í að auka kolefnisforða jarðvegs. Uppbygging þess kolefnisforða fylgir framvindu gróðurs, sem er þó mjög mishröð eftir aðstæðum.
Skógrækt er dýr á hvern hektara lands samanborið við að dreifa áburði eða fylla upp í skurði. Árangur í kolefnisbindingu getur þó verið mun meiri eftir tegundum og aðstæðum. Í ríku landi með hraðsprottnar tegundir má ná miklum árangri á skömmum tíma, skógræktarlega séð, en í rýru landi er bindingin minni. Skógrækt bindur kolefni svo lengi sem ræktun stendur yfir og ekki síður í jarðvegi en í trjánum sjálfum. Viðarvöxtur og kolefnisbinding hangir saman og þar með er auðvelt að sannreyna nákvæmni kolefnisbindingar í skógum.
Munur á aðgerðum
Skógrækt og endurheimt votlendis fer alls ekki vel saman á sama blettinum. Endurheimt votlendis hækkar grunnvatnsstöðu og í landi þar sem grunnvatnsstaða er há er ekki hægt að rækta tré með góðu móti. Þegar ráðist er í viðamikla skógrækt innan um votlendi og í kringum tjarnir getur það haft þurrkandi áhrif jarðveginn í skóginum en reynslan hér á landi er sú að skógurinn þurrkar ekki mýrarnar.
Endurheimt votlendis er vafalítið gagnleg aðferð til að stemma sigu við uppgufun gróðurhúsaloftegunda þegar land er ekki í notkun og ætlunin er að hafa það þannig. Það er alltaf gott og göfugt af landeigendum að nýta land sitt til að stemma stigu við loftslagsbrjálæðinu, sama með hvaða hætti það er gert og enn betra er að landeigendur geri sér grein fyrir öllum möguleikum sem eru í stöðunni. Best er líklega að gera eitthvað fremur en ekki neitt.
Hlynur Gauti Sigurðsson,
framkvæmdastjóri Landssamtaka
skógareigenda