Jeep Renegade PHEV, skemmtilegur bíll á góðu verði
Í nóvember síðastliðnum prófaði ég rafmagns/bensínbílinn Jeep Compass Trailhawk, bíl sem mér fannst koma frábærlega vel út við prófun, en nú prófaði ég „litla bróður hans“, Jeep Renegade Trailhawk PHEV, svipað útbúinn bíl með rafmagns- og bensínvél.
21,9 km á rafmagni, 86,7 á bensíni og eyddi 7,9 lítrum af bensíni á 108 km prufuakstri.
Kraftmikill miðað við stærð og þyngd
Vélarnar eru tvær, rafmagns og bensín. Rafmagnsvélin drífur afturöxulinn og bensínvélin er 1300 cc og tengist framöxli, samanlagt eru vélarnar 240 hestöfl.
Sjálfskiptingin er sexþrepa, lægsti punktur undir bíl er 20,1 cm.
Miðað við kraft og þyngd er bíllinn skemmtilega sprækur, sérstaklega ef maður setur gírskiptinguna í sportstillingu. Ef maður er með bílinn í auto-stillingunni og hann fullhlaðinn er hann bara að keyra á rafmagnsmótornum (í afturhjóladrifinu) og á að komast allt að 50 km við bestu aðstæður. Hins vegar ef maður setur á sportstillinguna (sem mér fannst skemmtilegast að keyra bílinn í), þá fer bensínmótorinn í gang og bíllinn keyrir á báðum mótorunum í fjórhjóladrifi.
Dekkin sem bíllinn kemur á eru merkt M+S, en eru ekki snjó- og hálkudekk fyrir íslenskar aðstæður.
Prufuaksturinn var rúmir 100 km
Ég var með bílinn í tvo daga, fyrri daginn voru götur auðar og engin hálka. Þann dag keyrði ég mest innanbæjar og mest á rafmagninu. Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum með hávaðamælinguna inni í bílnum á rafmagnsmótornum, en á 90 km hraða mældist hann 71,1 db. (Compass bíllinn var með mun betri mælingu, 67,4 db. á sama vegi og hraða).
Seinni daginn var mikil hálka (hafði gert frostrigningu um nóttina) og þegar ég setti bílinn í gang var hann ein klakabrynja. Það kom mér á óvart hvað bíllinn var fljótur að hitna að innan og bræða klakann af framrúðunni. Þessi upphitun tók að vísu nokkra kílómetra af rafhlöðunni.
Uppgefin eyðsla á bílnum miðað við 100 km akstur er 2,0 lítrar á hundraðið (hef aldrei skilið þessar uppgefnu eyðslutölur á tvinnbílum). Ég keyrði bílinn alls rúma 108 km og fór á rafmagninu 21,9 km, á bensínvélinni 86,7 km og var að eyða alls 7,9 lítrum af bensíni. Nokkuð gott fannst mér miðað við að ég var mest í sportstillingunni að fullnýta öll 240 hestöflin.
Fullbúið varadekk og ágætis pláss fyrir farangur miðað við stærð bíls.
Skemmtileg fjöðrun
Á holóttum vegslóða prófaði ég allar stillingarnar í skiptingunni, en sniðugust var snow-stillingin. Með stillt á hana tók bíllinn svo mjúklega að þegar maður fór af stað eða gaf snögglega í einfaldlega spólaði bíllinn ekki. Til að hægt sé að nota rock, mud og sand þarf að setja bílinn í lága drifið, en þá virðist hann taka tiltölulega jafnt á öll hjól (einhvers konar tregðulæsing á milli hjóla). Á holóttum vegi vinnur fjöðrunin vel og þrátt fyrir að bíllinn sé stuttur og frekar léttur að aftan var hann ekkert að „hrekkja“ með afturendanum (ekki laus að aftan í holum eins og oft vill vera á mjög stuttum bílum).
Mikið af aukahlutum og öryggisbúnaði
Verðið á bílnum er 5.499.000, sem einhverjum hefði fundist hátt verð á svona litlum bíl, en miðað við hvað mikið af aukabúnaði er í bílnum er þetta að mínu mati mjög gott verð.
Bíllinn er með hita í stýri og sætum, ABS hemlalæsivörn, stöðugleikastýringu, 6 loftpúða, veltivörn, mjög góð ledljós, blindhornsvörn, bakkmyndavél, bílastæðaaðstoð (hjálparbúnaður til að leggja í stæði), GPS leiðsögubúnað og margt fleira. Bíllinn kemur með fullbúnu varadekki.
Eftir þennan stutta akstur á bílnum fann ég nánast ekkert sem ég gat sett út á bílinn fyrir utan frekar litla dráttargetu (1.150 kg), en dekkin var ég ekki sáttur við sem sögð eru ætluð fyrir drullu og snjó, en hefði kosið betri vetrardekk fyrir aksturinn. Svo var það hvað bíllinn mældist með mikinn hávaða inni í bílnum á 90 (sérstaklega miðað við hvað stærri bíllinn var með góða mælingu í nóvember).
Helstu mál og upplýsingar:
Lengd 1.800 mm
Hæð 1.670 mm
Breidd 1.800 mm