Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þurrkaðir þorskhausar á markaði í Nígeríu. Mynd / Sigurjón Arason.
Þurrkaðir þorskhausar á markaði í Nígeríu. Mynd / Sigurjón Arason.
Á faglegum nótum 12. febrúar 2021

Nígeríumarkaður að taka við sér

Höfundur: Guðjón Einarsson

Nígería er nánast eini markaður Íslendinga fyrir þurrkaðar fisk­afurðir. Þess vegna var það mikið áfall fyrir þessa vinnslu­grein hérlendis þegar verð hrundi skyndilega árið 2015 og útflutningur stöðvað­ist tíma­bundið. Í kjölfar hremm­inganna fækkaði þurrk­verk­smiðj­um á Ís­l­andi úr rúmlega tuttugu í þrettán. Núna virðist greinin hafa náð vopn­um sínum á ný.

Ástæðan fyrir þessum mark­aðs­vandræðum var sú að um mitt ár 2015 setti Seðlabanki Nígeríu reglur sem takmörkuðu gjaldeyrisyfirfærslur vegna innflutnings til landsins á ýmsum vörutegundum, meðal annars sjávarafurðum. Þetta var gert vegna gífurlegs samdráttar sem orðið hafði á gjaldeyristekjum þjóðarinnar vegna lækkandi olíuverðs en olía er langmikilvægasta útflutningsgrein landins. Nígerískir innflytjendur sem ekki gátu lengur fengið gjaldeyri eftir venjulegum leiðum urðu að snúa sér að svarta markaðnum þar sem verðið á dollarnum var tvisvar til þrisvar sinnum hærra en opinbert skráð gengi. Þetta þrýsti á lækkun á innflutningsverði.

Magn minnkaði lítið en verð hrapaði

Þegar skoðaðar eru tölur Hagstofu Íslands um útflutning á þurrkuðum afurðum frá Íslandi vekur athygli að útflutt magn fyrir og eftir verðhrunið í Nígeríu minnkaði furðulítið á þessum árum (sjá skýringarmynd). Árið 2015 nam útflutningurinn 24.000 tonnum og verðmætin (FOB) námu 13,7 milljörðum króna. Árið 2016 minnkaði útflutt magn í 21.000 tonn en verðið hrapaði um helming, eða niður í 6,5 milljarða. Árið 2017 voru tölurnar 19.000 tonn og 6,1 milljarður. Árið 2018 voru flutt út 21.000 tonn fyrir 7,6 milljarða. Árið 2019 var tonnafjöldinn svipaður en verðmæti komið í 9,2 milljarða króna. Lækkun á gengi íslensku krónunnar kann að hafa þar einhver áhrif.

Markaðurinn að lagast

„Markaðurinn hefur smám saman verið að lagast eftir hrunið mikla,“ segir Víkingur Þórir Víkingsson, framkvæmdastjóri Haustaks hf. á Reykjanesi, í samtali við Bændablaðið, en fyrirtækið er í hópi stærstu framleiðendanna.

,,Ein af afleiðingum verðhrunsins var sú að hætt var að framleiða dýrari afurðir eins og ufsakótelettur, fisk og afskurð, sem markaðurinn réði ekki við að borga fyrir. Hráefnið er því fyrst og fremst hausar og bein sem ekki er hægt að vinna á annan hátt með arðsamara móti.“

Víkingur Þórir segir að heims­faraldurinn hafi ekki haft nein veruleg áhrif á útflutninginn til Nígeríu. Reyndar hafi orðið einhverjar tafir í skipaflutningum, svo sem eins og fyrir síðustu jól, en að öðru leyti hafi hlutirnir gengið bærilega fyrir sig.

Á skreiðarmarkaði í Nígeríu. Mynd / Sigurjón Arason.


Þurrkverksmiðjum fækkar

Þegar markaðurinn í Nígeríu hrundi voru yfir 20 fyrirtæki á Íslandi í fiskþurrkun með um 350 manns í vinnu auk afleiddra starfa. Greinin skilaði töluvert á annan tug milljarða í útflutningstekjur á ári. Það hrikti eðlilega í stoðunum í greininni og svo fór að sex til sjö fiskþurrkanir lögðu upp laupana og nokkrar sameinuðust þannig að nú eru þrettán eftir.

Nígería nánast eini markaðurinn

Nígería hefur verið og er enn nánast eina markaðssvæðið fyrir þurrkaðar afurðir frá Íslandi.
„Við höfum selt til Bretlands og Bandaríkjanna en bara í mjög litlum mæli. Sem dæmi má nefna að af 150 gámum fara einn eða tveir eitthvað annað en til Nígeríu,“ segir Víkingur. Nígería er miðstöð þessara viðskipta og þaðan dreifist eitthvað af vörunni til annarra Afríkulanda. Eftir hrunið var reynt að leita annarra markaða fyrir þessa vöru, svo sem í Asíu, en það skilaði litlu, að sögn Víkings.

Norðmenn helstu keppinautarnir

Íslendingar eru ekki einir á markaðnum í Nígeríu með þurrkaðar afurðir. Norðmenn eru helstu keppinautarnir. Sá er munur á verkunaraðferðum þjóðanna að Íslendingar þurrka mest innandyra en Norðmenn mest utanhúss. Veðurfar hentar betur til útiþurrkunar í Noregi en á Íslandi. Norðmenn hengja upp fisk í skreið í verulegum mæli og selja betri vöruna til Ítalíu og hina lakari til Nígeríu. Íslendingar eru að mestu hættir skreiðarverkun. Í Noregi eru starfræktar þrjár verksmiðjur til inniþurrkunar og eru tvær þeirra í eigu Íslendinga. Þá reka Íslendingar eina þurrkverksmiðju í Bretlandi. Í Færeyjum er þurrkverksmiðja í eigu heimamanna.

Verslunarvara í árhundruð

Skreið og aðrar þurrkaðar fiskafurðir hafa verið verslunarvara í árhundruð í Evrópu og víðar, eins og fram kemur í Þurrkhandbókinni sem Matís hefur gefið út. Fyrr á öldum var skreið mikilvæg verslunarvara í innlendum og erlendum vöruskiptum Íslendinga. Þegar leið á 20. öldina og aflasamdráttur var orðinn staðreynd dró talsvert úr framleiðslu og útflutningi á skreið auk þess sem ýmsar blikur voru á lofti á stærsta markaðnum, Nígeríu, á þessum árum. Þar bar hæst sjálfstæðisstríð Bíafra sem leiddi til hafnbanns á Port Harcourt, sem var aðalinnflutningshöfnin fyrir skreið.

Samdráttur í skreið – aukning í hausum

Með minni afla og hækkandi verði á ferskum, frystum og sölt­uðum afurðum dró verulega úr hefðbundinni skreiðarverkun hérlendis og hún lagðist að mestu af. Aftur á móti jókst nýting hausa til þurrkunar umtalsvert og nú fara nánast allir bolfiskhausar sem á land koma í þurrkun innandyra og framleiðsla þurrkaðra hryggja hefur sömuleiðis aukist. Þá var einnig farið að þverskera ufsa og þurrka sem kótilettur.

Mikilvægur markaður

Nígería er í hópi mikilvægustu markaðslanda Íslendinga og eini markaðurinn fyrir þær þurrkuðu fiskafurðir sem við framleiðum, eins og áður kom fram. Tilraunir til að leita nýrra markaða hafa lítinn árangur borið. Þegar nígerísk stjórnvöld settu gjaldeyrishöft og innflutningsbann á innflutta matvöru, þar á meðal þurrkaðar afurðir, var yfirlýstur tilgangur þess að spara gjaldeyri og ýta um leið undir aukna innlenda matvælaframleiðslu sem gæti komið í stað þeirrar innfluttu.

Til að bragðbæta súpur

Innlendur þurrkaður fiskur er á boðstólum í Nígeríu en hann er þurrkaður í eldi og reyk og bragðið er því annað. Nígerískur innflytjandi, sem Snorri Eldjárn Hauksson ræddi við vegna lokaverkefnis síns í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri, sagði að reykþurrkaði fiskurinn væri auk þess dýrari en íslensku skreiðarhausarnir þannig að neytendur veldu frekar þá íslensku. Rík hefð væri hjá fjölskyldu hans fyrir neyslu á þurrkuðum fiskafurðum frá Íslandi. Mörgum fyndist súpa ekki vera súpa nema bitar af þurrkuðum hausum væru notaðir til þess að bragðbæta hana. Annar viðmælandi sagði að skreið og fiskhausar væru notaðir sem kraftur í rétti við hátíðleg tilefni, svo sem brúðkaup, afmæli og jarðarfarir.

Löng saga

Skreiðarviðskipti við Nígeríu eiga sér langa sögu. Í áðurnefndri lokaritgerð kemur fram að viðskipti Íslendinga við Nígeríu og önnur ríki Vestur-Afríku hafi hafist á 17.–18. öld með vöruskiptum á þurrkuðum fiskafurðum og saltfiski fyrir aðrar vörur og þræla á þessum svæðum. Seinna er talið að kristniboðar hafi komið með skreið með sér þegar þeir boðuðu kristna trú. Þessu til stuðnings er nefnt að stærsti þjóðflokkurinn sem neytir skreiðar og annarra þurrkaðra fiskafurða er Igbo, sem er að langmestu leyti kristinn. Þess má geta að sjálfstæðisbarátta Igbo þjóðflokksins, sem stofna vildi lýðveldið Bíafra í sunnanverðri Nígeríu, leiddi til borgarastyrjaldar. Stríðið hófst árið 1967 og stóð í tvö og hálft ár. Auk þeirra tugþúsunda sem féllu á vígvellinum létust tvær milljónir manna úr hungri og milljónir hröktust á vergang. En það er önnur saga.

Skylt efni: Skreið Nígería

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...