Úlfar hafsins II
Háhyrningar eru með háþróað heilabú og auðvelt að þjálfa þá og því vinsæl sýningardýr í sædýragörðum. Rúmlega sextíu háhyrningar voru veiddir við Ísland og seldir lifandi í sædýrasöfn á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.
Bakhorn háhyrninga, hyrnan, eru stór og áberandi. Við kynþroska stækkar horn karldýranna mikið og geta orðið allt að 1,8 metrar á hæð og þeir bera íslenskt nafn sitt af því. Að öllum líkindum er stór bakuggi kyntákn því hann hjálpar þeim ekki við sund. Bægslin eru einnig stór og breið við endana. Sporðurinn er með greinilegri skoru í miðjunni.
Eins og alkunna er lafir hornið á sumum háhyrningum út á hlið og var Keiko gott dæmi um það. Lafandi horn eru þekkt bæði í náttúrunni og í sædýrasöfnum en mun algengari meðal dýra í gíslingu.
Hefðbundnar nytjar á háhyrningum eru litlar. Norðmenn veiddu eitthvað af háhyrningi ásamt hrefnu og andarnefju hér við land um miðja síðustu öld og voru dýrin nýtt á svipaðan hátt. Um tíma var talsvert veitt af lifandi ungdýrum til að nota sem sýningardýr í sjávardýra- og skemmtigörðum.
Síldveiðimönnum hefur lengi verið illa við háhyrninga vegna þess hvað þeir sækja mikið í síld. Á sjötta áratug síðustu aldar, þegar síldin var veidd í reknet, var ágangur háhyrninga svo mikill að íslenska ríkisstjórnin fór þess á leit við bandaríska herinn að hann skærist í leikinn. Beiðninni var vel tekið og varpaði varnarliðið djúpsprengjum og beitti vélbyssum úr flugvélum í stórum stíl til að drepa háhyrninga á síldarmiðunum við Reykjanes.
Þrátt fyrir að háhyrningar séu lítið nytjaðir í dag voru veiðar á lifandi dýrum mjög hagkvæmar enda menn tilbúnir að greiða ævintýralegar upphæðir fyrir þau. Þær veiðar tengdust yfirleitt sædýragörðum enda háhyrningar vinsæl sýningardýr sem auðvelt er að þjálfa til að leika alls kyns kúnstir.
Rúmlega sextíu háhyrningar voru veiddir við Ísland og seldir lifandi í sædýrasöfn á áttunda og níunda áratugnum. Frægastur þeirra er Keiko sem var veiddur 1979 og geymdur í Sædýrasafninu í Hafnarfirði þar til hann var seldur til Ameríku. Keiko var fluttur til Íslands árið 1998 í þeim tilgangi að sleppa honum aftur út í náttúruna sem var að lokum gert en hann drapst ári síðar.
Veiðar á lifandi háhyrningum eru að mestu hættar í dag. Á undanförnum áratugum hefur aukist andstaða við að halda hvölum, og reyndar öðrum dýrum, í dýragörðum og hafa dýraverndarsamtök beitt sér fyrir því að sleppa þeim.
Lúðvík Kristjánsson segir í Íslenskum sjávarháttum að veturinn 1918 hafi Húnaflói verið ísilagður og á honum tvær vakir. Í annarri vökinni voru sjö háhyrningar og tveir hnúfubakar.
Bátur með ífærum og köðlum var dreginn út á vökina. Ífærunni var komið fyrir í blástursholu eins háhyrningsins og hann síðan dreginn á land með böndum og reyndist hann gæfur. Þegar átti að leggja skepnuna í hjartastað kipptist hún svo harkalega við að ísinn brotnaði undan henni. Að lokum tókst að ná öllum hvölunum upp á ísinn og drepa, að einum háhyrningi undanskildum sem hvarf undir ísinn og kom ekki upp aftur.