Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Koparrista sem táknar harm þann sem fyllti Íslendinga er Eggert Ólafsson og kona hans, Ingibjörg Guðmundsdóttir, drukknuðu í Breiðafirði 31. maí 1768.
Koparrista sem táknar harm þann sem fyllti Íslendinga er Eggert Ólafsson og kona hans, Ingibjörg Guðmundsdóttir, drukknuðu í Breiðafirði 31. maí 1768.
Á faglegum nótum 26. apríl 2021

Um Kálsins tömdu náttúru

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Nú er sá tími upp runninn er huga þarf að sáningu og uppeldi matjurta til gróðursetningar í heimilisgarða, þegar jörð hlýnar. Að mörgu er að hyggja og gott er að fylgja leiðbeiningum vísdómsfólks í þeirri grein.

Gefnar hafa verið út margar íslenskar bækur og greinar um þetta efni. Skáldið og náttúrufræðingurinn Eggert Ólafsson (1726–1768) ritaði um uppeldi og gróðursetningu matjurta. Hann setti fram leiðsögn fyrir almenning um efnið í ritinu „Lachaonologia“ sem hann ritaði um 1763. Það er fyrsta íslenska leiðbeiningarritið um garðyrkju á Íslandi en var ekki gefið út fyrr en að honum látnum, árið 1774. Meðal þekktustu kvæða Eggerts er „Undir bláum sólar sali“ sem kórfólk þekkir vel, auk margra ljóðabálka í anda upplýsingarstefnunnar, t.d. „Búnaðarbálk“. Eggert var annar höfunda frægrar Íslandslýsingar sem var afrakstur áralangra rannsókna hans og Bjarna Pálssonar um Íslands hagi eftir miðja 18. öld. Hér á eftir eru birt nokkur brot af leiðbeiningum hans, sem gaman getur verið að kynnast.

Sáning

Allslags frækorn má í regnvatni deigja, vindþurrka síðan á fjöl án sólar fyrr en sáð sé. Einkanlega skyldi sú atferð brúkast við fræ það allt sem menn vita gamalt er orðið og efast um að uppkoma muni að gagni; verður það fyrr til að digna nær í jörðina kemur og samlaga sig hennar vessa. Veður velja menn gott og stillt, ekki þerristorm eða sólskins þurrk að eigi þorni strax jörðin og sæðið, heldur þykkviðris dag hægan þegar hlýtt er og molla, helst kvöldtíma þá jörðin er náttúrulega rök utan næturfrost sé að óttast, þá er betra að bíða morguntímans. Menn plaga að sá með vaxanda tungli öllum þeim maturtum, sem upp skulu vaxa, svo sem eru kála kyn og salöt etc. en hinum sem kólfa gefa skulu, svo sem næpur, rófur, laukar etc. með því minnkandi.

Meðferð ungplantna

Ungkál skal varlega upptaka, svo að rætlingar eður angar slitni sem minnst og blöðin ei heldur brotni. Jörð á rótunum á að fylgja svo mikil sem við loða kann og er best að hafa hreint trog til að leggja jurtirnar í. Sólin má ei skína á kálið frá því upp er tekið og til þess gróðursett er, að ei linist og ónýtist.

Allir forsjálir garðyrkjumenn velja milt og hægt veður til setningar káls og annara maturta. Mollur og þykkviðri eður úrkomu lítið veður er allra hentugast. Nú gengur þurrkur og sólskins dagar, en ungkál er svo mjög vaxið að ei má lengur bíða að skaðlausu af því það vex í soddan þröng mest til hæðar, en digurðin verður engin, dettur það svo út af nær gróðursett er, og þó viðréttist, þrekast aldrei né fær svo mikinn vöxt sem annars að sér átti; þá skal ei fara að setja fyrr en sól er af garði gengin. Sama gildir, þó ungkál sé tekið úr sáðkistu.

Planta má kál í skugga eður annars staðar undir garði hvar sól skín ei á í það sinn, þótt hátt væri á lofti. Bil á milli gróðursetninga skal vera 1 fet eður hálft annað, nær snemmgróið er, ei skal planta utarlega í reinarnar að ei verði rótin ber, ef að moldin kann hrynja úr bökkunum og er gott að þeir sé ei þvergnýptir.

Aðferðir við gróðursetningu

Gróðursetinn hefur sívalan staut í hendi, hálfrar álnar langan, er sú spíta aðdregin og mjó til annars enda. Með þessu smátóli mælir hann bæði bilið í milli raðanna og svo í röðunum sjálfum á milli kálsins sem setjast á. Gróðursetinn gjörir og með stautinum holukorn til að setja jurtina niður í. Skal það aðgæta, bæði að hún haldi sinni fyrri mold við rótina og einkum að rótin setjist rétt niður, og í því sópa moldinni í farið til stuðnings að heikist ei né hrukkist.

Nú er til annar máti óhultari og greiðari, nefnilega að brúka ekki staut heldur stinga í moldina vinstri hendi, halda jörðinni opinni og setja svo með hægri hendi urtina niður í gjána, taka höndina vinstri upp, láta moldina aftur samanfella og þjappa henni hóglega ofan til að urtarstofninum sem stendur við þetta stöðugur, en enginn blástur eða kuldi kemst að rótinni. Nær þessi reitur er alsettur vökvast hann hægt en þó jafnt og nægilega með smádropóttu drifi, og svona er farið reit af reit þar til garðurinn er fullur af nýjum gróðursetningum.

Strax eftir plantan skal vatna jurtunum vel, en jafnt hægt og smádropótt, svo hvörki brotni þær né bælist niður, eða moldin skolist á braut.

Forsíða garðyrkjubókar Eggerts Ólafssonar, gefin út af Birni í Sauðlauksdal 1774.

Ingólfur Guðnason

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...