Hyggjast reisa 88 megavatta rafgreiningarstöð til að framleiða vetni í stórum stíl
Gerður var samningur um miðjan janúar við framleiðsludeild Thyssenkrupp Uhde Chlorine Engineers á vistvænu vetni (Green Hydrogen product division) í því skyni að byggja 88 megavatta (MW) vatnsrafgreiningarverksmiðju í Kanada. Samningurinn er með fyrirvara um áreiðanleikakönnun.
Verkefnið snýst um að setja upp rafgreiningarverksmiðju til að framleiða vetni fyrir kanadíska ríkisorkufyrirtækið Hydro-Québec sem er einn stærsti vatnsaflsorkuframleiðandi í Norður-Ameríku. Vatnsgreiningarverksmiðjan verður byggð í Varennes í Quebec og á að framleiða 11.100 tonn af grænu vetni árlega.
Bæði vetnið og súrefnið sem er aukaafurð rafgreiningarferlisins, verður notað í lífeldsneytisverksmiðju til að framleiða lífeldsneyti úr sorpi fyrir flutningageirann.
Afl rafgreiningarverksmiðjunnar verður 88 megawött (MW) og verður þetta ein stærsta framleiðslueining fyrir grænt vetni í heiminum. Gangsetning er áætluð síðla árs 2023.
„Þetta verkefni er frábær lýsing á því hversu mikilvægt samspil öruggs aðgangs að samkeppnishæfri endurnýjanlegri orku og notkun skalaðrar tækni til vetnisframleiðslu er,“ segir Sami Pelkonen, framkvæmdastjóri Chemical & Process Technologies rekstrareiningar Thyssenkrupp.
Denis Krude, forstjóri Uhde, klórverkfræðideildar Thyssenkrupp, bætir við:
„Quebec sem svæði og Hydro-Québec sem viðskiptavinur bjóða upp á kjöraðstæður til að setja vatnsrafgreiningartækni okkar í margra megavatta kvarða í fyrsta skipti.“
Vetnisframleiðsla með rafgreiningu á vatni er vart talin samkeppnishæf sem orkumiðill nema það sé framleitt í stórum skala. Rafgreining vatns frá Thyssenkrupp upp á nokkur hundruð megavött er talin ná þeirri stærðarhagkvæmni sem sóst er eftir.