Landbúnaðarráðherra virðist sem bændur telji sauðfjárbúskap vera lífsstíl umfram atvinnu
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í gær á Alþingi að honum virðist sem bændur telji sauðfjárbúskap vera meiri lífsstíl en spurning um afkomu. Landssamtök sauðfjárbænda (LS) gagnrýna harðlega þennan málflutning í yfirlýsingu.
Svar Kristjáns Þórs kom fram við spurningu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í umræðum um fjármálaáætlun þingins, þar sem hún spurði hann um það hvernig hann ætlaði að bæta kjör bænda.
LS segja í yfirlýsingunni að samtökin hafi þvert á móti kallað eftir viðbrögðum stjórnvalda varðandi aðgerðir sem geta bætt starfsumhverfi greinarinnar. „Telji ráðherra að sauðfjárbændur hafi ekki áhuga á afkomu sinni þá er hann ekki upplýstur um stöðu greinarinnar. Landssamtök sauðfjárbænda skora á stjórnvöld að efla landbúnaðarráðuneytið þannig að því sé stýrt af þekkingu og vilja til að starfa að uppbyggingu og eflingu landbúnaðar á Íslandi,“ segir í yfirlýsingunni.