Skorað á stjórnvöld að hefja strax vinnu við aðgerðaráætlun vegna lífrænnar ræktunar
Aðalfundur VOR (félags bænda í lífrænum búskap og fullvinnslu afurða) hélt aðalfund sinn 15. apríl. Var samþykkt að VOR myndi eiga aðild að Bændasamtökum Íslands í þeirri breyttu mynd af félagskerfi sem samþykkt var á Búnaðarþingi í mars. Á fundinum var samþykkt áskorun til stjórnvalda að hefja þegar í stað vinnu við aðgerðaráætlun vegna lífrænnar ræktunar.
Í ályktuninni kemur fram að Ísland sé verulega á eftir þeim löndum sem það ber sig saman við, hvað varðar þróun lífrænnar ræktunar og skort hefur verið á að til væri aðgerðaráætlun sem fylgt væri stig af stigi. „Slíkar áætlanir hafa reynst vel í nágrannalöndum okkar og lífræn ræktun blómstrar þar. Í þeirri þróun sem hafin er í Evrópu er hætt við að hefðbundin íslensk framleiðsla sitji eftir og verði undir í samkeppni við innflutt matvæli.
Í nýsamþykktri matvælastefnu er lögð áhersla á öryggi og heilnæmi matvæla og sjálfbærni framleiðslunnar. Ekkert er betur til þess fallið að standast þessi viðmið en lífræn ræktun og framleiðsla.“
Eygló áfram formaður
Að sögn Eyglóar Bjarkar Ólafsdóttur, formanns VOR, þarf ekki að gera breytingar á samþykktum félagsins vegna breytinga á félagskerfi bænda, því það verði áfram sjálfstætt félag með aðild að Bændasamtökum Íslands.
Hún segir að kosið hafi verið um nokkur stjórnarsæti á fundinum samkvæmt samþykktum. Stjórn skipa áfram þau Eygló, Guðmundur Ólafsson, Kristján Oddsson og Guðfinnur Jakobsson. Nýr aðalmaður í stjórn er Eiður Eyþórsson, sem starfar á Sólheimum, en Karen Jónsdóttir hverfur úr stjórn. Eygló verður áfram formaður, Guðmundur ritari og Kristján gjaldkeri.
Skorað á stjórnvöld að banna alla útiræktun erfðabreyttra lífvera
Önnur ályktun var samþykkt á fundinum um útiræktun á erfðabreyttum plöntum. Þar er skorað á stjórnvöld að leggja bann við allri útiræktun erfðabreyttra lífvera til næstu fimm ára. „Ræktun erfðabreyttra plantna utandyra felur í sér áhættu fyrir umhverfið, aðra ræktun og veikir grundvöll og ímynd matvælaframleiðslu sem byggir á gæðum og heilbrigði umhverfis,“ segir í áskoruninni.
Telur VOR að miðað við núverandi lagaramma og ferli við leyfisveitingar, séu mörk milli tilrauna og markaðssetningar það óljós og þekking á áhrifum sleppingar svo takmörkuð hér á landi, að tilefni sé til að leggja bann við allri útiræktun erfðabreyttra lífvera á Íslandi. Slepping sé ekki réttlætanleg þar sem hægt er að rækta umræddar lyfjaplöntur með öruggum hætti undir þaki án þess að ímynd og umgjörð landbúnaðar og matvælaframleiðslu sé lögð að veði.
Áburðarmálin í brennidepli IFOAM
Í kjölfar aðalfundarins var efnt til málþings sem haldið var með fjarfundarfyrirkomulagi, sem hægt er að nálgast í gegnum Facebook-síðu VOR. Þar talaði Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, um Bændasamtök Íslands í breyttri mynd, Hildur Harðardóttir frá Umhverfisstofnun um lífræn matvæli – Svaninn og opinber innkaup, Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, um lífræna sauðfjárrækt – áskoranir og tækifæri, dr. Ólafur R. Dýrmundsson sagði fréttir frá Evrópuhópi IFOAM – þar sem áburðarmál eru í brennidepli – og loks flutti Guðmundur Tómas Axelsson erindi um lífrænt Ísland árið 2021 – hugmyndir til stafrænnar miðlunar, en hann kemur frá WebMo Design.