Skorti samtal og samráð til að Bændasamtökin gætu haft skoðun á samningnum
Nýverið var lokið við gerð nýs fríverslunarsamnings milli Íslands og Bretlands. Samningurinn veitir gagnkvæman aðgang að mörkuðum samkvæmt nánari skilyrðum þegar kemur að vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum og opinberum innkaupum.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að við samningsferlið hafi samtal og samráð skort til að landbúnaðurinn gæti haft skoðun á samningnum. „Það er umhugsunarvert að önnur hagsmunasamtök hafi haft talsverða vitneskju um drög að samningi sem var í undirbúningi í utanríkisráðuneytinu sem hvorki hagsmunasamtök í sjávarútvegi eða landbúnaði máttu hafa skoðun á, þar sem um drög var að ræða. Þá þykja það sérstök vinnubrögð að tilkynna um fríverslunarsamninginn á föstudegi en sýna ekki innihald hans fyrr en rúmum tveimur sólarhringum síðar á heimasíðu Stjórnarráðsins.“
Umfangsmikill samningur
Fyrir vöruviðskipti eru kjarnahagsmunir Íslands tryggðir fyrir útflutning, þar með talið fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarvörur. Samningurinn auðveldar þá þjónustuviðskipti milli ríkjanna, auk þess sem íslensk fyrirtæki munu hafa aðgang að opinberum útboðum í Bretlandi.
Samningurinn er umfangsmikill og í honum er að finna ákvæði á sviði hugverkaréttinda, heilbrigðisreglna fyrir matvæli, tæknilegra reglugerða ríkisstyrkja, samkeppnismála starfsumhverfis lítilla og meðalstórra fyrirtækja, góðrar reglusetningar og samstarfs á því sviði og margt fleira.Þá inniheldur samningurinn skuldbindingar á sviði umhverfisverndar og baráttu gegn hlýnun jarðar auk skuldbindinga á sviði vinnuréttar. Þar er jafnframt að finna sérstakan kafla um jafnréttismál og valdeflingu kvenna í viðskiptum.
Framsækinn og yfirgripsmikill fríverslunarsamningur
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir að um sé að ræða framsækinn og yfirgripsmikinn fríverslunarsamning sem nær til flestra sviða viðskipta á milli ríkjanna og reglna sem hafa áhrif á þau. „Í ljósi þess að Bretland er einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslands og vegna náinna tengsla ríkjanna þótti afar brýnt að ljúka framtíðarsamningi við Bretland á þessum tímapunkti.“