Stærsta svínabú heims byggt í Kína
Í Kína er nú verið að byggja stærsta svínabú heims en það mun framleiða árlega 2,1 milljón grísa til slátrunar, en byggingarframkvæmdum lýkur síðar á þessu ári.
Það er fyrirtækið Muyuan Meat and Food Industry sem byggir þetta gríðarlega stóra svínabú sem mun verða með pláss fyrir 105 þúsund gyltur deilt niður á 21 sex hæða byggingar.
Alls nær byggingarsvæðið í heild sinni yfir um 180 hektara og auk þess fara um 200 hektarar undir vegi, stæði og önnur mannvirki sem tengjast þessari risastóru framkvæmd. Þannig þarf t.d. að gera sérstaka tengingu svínabúsins við bæði nærliggjandi hraðbraut, auk þess sem stoppustöð fyrir járnbraut er sett við búið. Auk þess verður byggt sérstakt sláturhús við búið enda stærðin slík að það er hagkvæmt.