Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Jakob K. Kristjánsson, skógarbóndi frá Hóli í Hvammssveit í Dalabyggð, með ungar Hryms-trjáplöntur.
Jakob K. Kristjánsson, skógarbóndi frá Hóli í Hvammssveit í Dalabyggð, með ungar Hryms-trjáplöntur.
Mynd / smh
Fréttir 15. nóvember 2024

Stórtæk ræktun á Hrym í Búðardal

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Ræktunarstöð fyrir lerkitegundina Hrym hefur verið stofnsett í Búðardal þar sem byrjað er að framleiða plöntur frá stiklingum, en samhliða verður reist fræhöll til að auka framboð enn frekar á þessari eftirsóttu trjátegund.

Hópur skógarbænda og fyrirtækja stendur á bak við verkefnið, sem felst í að byggja upp stórtæka ræktun á þessari lerkitegund.

Sjö ára Hrymur í haga í Dölunum.

Hrymur er einkar hentugur til skógræktar á þeim svæðum á Íslandi þar sem miklir umhleypingar eru, auk þess sem hann þykir afar öflugur við kolefnisbindingu.

Ætla að tryggja framboð næstu árin

Að sögn Jakobs K. Kristjánssonar, skógarbónda á Hóli í Hvammssveit í Dalabyggð, eru nokkrir skógarbændur af nálægum svæðum þátttakendur í verkefninu, auk fagfólks. „Þar sem við erum sjálfir skógarbændur, þá höfum við hugsað okkur að byrja næsta vor á að byggja upp akra, eða stór beð með Hrym- stiklingamæðrum til að tryggja framboð af góðum stiklingum næstu árin. Síðan hugsum við að nota helminginn af framleiðslunni til að byrja með í eigin skógrækt en selja hitt til að byrja að afla tekna fyrir verkefnið.“

Hann útskýrir að Hrymur sé lerkiblendingur og svipaðar tegundir séu talsvert notaðar í skógrækt í Kanada, Kína og í Evrópu. En jafnvel á svæðum þar sem hægt sé að ná nægilegum árvissum fræþroska þá sé náttúruleg kynblöndun flókin og erfið. Ekki sé heldur hægt að nota fræ frá fullvöxnum trjám því blendingsþrótturinn glatist í fræjum næstu kynslóðar. Fjölgun frá stiklingum eða með frumurækt sé einnig snúin, enda þurfi til þess sérhæfða kunnáttu, aðstöðu og tækjabúnað.

Stiklingaræktun er sú leið sem skógarbændurnir ætla að fara til að geta boðið upp á þessa eftirsóttu trjáplöntu.

„Við förum samt þá leið að fjölga Hrym frá stiklingum, enda hafði Rakel Jónsdóttir gert tilraunir með það hjá Skógræktinni sem sýndi fram á að það væri vel gerlegt, en vandasamt,“ segir Jakob og bætir við að til mikils sé að vinna því talið sé að eftirspurn sé á bilinu tvær til þrjár milljónir trjáplantna á ári hverju. Við stefnum á að framleiða að minnsta kosti 5–10 þúsund plöntur á næsta ári, sem yrði hægt að planta út í júní til september.“

Fræframleiðsla Skógræktarinnar minnkar

„Framleiðsla Skógræktarinnar frá fræi hefur farið minnkandi, en aðeins 12 þúsund plöntur voru í boði á þessu ári og á því næsta verður engin planta í boði frá þeim,“ heldur Jakob áfram.

„Fræplöntur Skógræktarinnar eru farnar að ganga úr sér og blómgunin farið minnkandi síðustu ár. Þar sem Hrymur er kynblendingur af rússalerki og evrópulerki þurfa bæði afbrigðin að blómgast álíka vel og á sama tíma – svo þarf að víxlfrjóvga handvirkt á milli og það er bara nokkurra daga gluggi á vorin. Síðasta vor misfórst blómgunin hjá þeim, eða var ekki á sama tíma, þannig að víxlfrjóvgunin tókst ekki. Þess vegna verður ekkert Hrym-fræ í boði næsta vor.“

Myndar sjaldan fræ á Íslandi

Jakob segir að lerki myndi ekki, eða afar sjaldan, fræ við íslenskar aðstæður þó svo að það vaxi svona vel á Íslandi. „Til að svo geti orðið er nauðsynlegt að hafa fræplönturnar í gróðurhúsi og stýra aðstæðum. Við ætlum samt að láta reyna á það. Nýjar fræplöntur eru valdar og ágræddar á stofn eldri öflugri planta – þetta er allt nokkur nákvæmnisvinna og síðan tekur að minnsta kosti 5–7 ár þar til nýjar fræplöntur byrja að mynda fræ í einhverjum mæli. Svo þetta er heldur ekki neitt einfalt mál og líka kostnaðarsamt,“ segir Jakob.

Hann segir að ekki sé farið að selja neitt úr tilraunaframleiðslunni, þó hún hafi heppnast nokkuð vel. „Það er enn þá óvissa hversu gott árangurshlutfallið verður – það er hlutfall stiklinga sem mynda rætur – svo við þurfum að skala þetta upp núna í vetur. Við byrjum að klippa stiklinga af fullum krafti næstu vikurnar og setja af stað,“ segir hann og bætir við að það taki um 6–8 mánuði í uppeldi áður en planta telst söluhæf.

Að klippa stiklinga og setja ræktun af stað taki um einn mánuð, ræting um þrjá til fjóra mánuði og áframræktun í stærri bökkum um tvo til þrjá mánuði áður en komið sé að aðlögun úti sem taki um hálfan til einn mánuð.

„Það er samt gott að þetta ferli er nánast óháð árstíma, nema síðasta skrefið um útiaðlögun. Ef tíminn passar ekki við íslenska sumarið þá er hægt að stýra því og setja plönturnar í dvalarástand yfir hluta úr vetri og vekja þær svo næsta vor. Þannig að ef við höfum nægan aðgang að stiklingum af ungum tveggja til fimm ára plöntum, þá er hægt að keyra að minnsta kosti tvær lotur á ári á sama búnaði og aðstöðu.“

Skylt efni: Skógrækt | lerki | Hrymur

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...