Aukið virði garðyrkjuafurða í Stóra-Fjarðarhorni
Einu garðyrkjubændurnir í útiræktun grænmetis á Vestfjörðum búa í Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði á Ströndum og fengu þeir nýlega stuðning til að auka virði garðyrkjuafurða sinna.
Ábúendurnir Ágúst Helgi Sigurðsson og Guðfinna Lára Hávarðardóttir eru með blandaðan búskap, sauðfjárrækt að uppistöðu en einnig í nautgriparækt og garðyrkju. Matvælaráðuneytið úthlutaði þeim nýlega þróunarstyrk til að leita nýrra úrvinnsluleiða með annars flokks garðyrkjuafurðir þeirra til aukinnar verðmætasköpunar, sem hingað til hafa verið nýttar í gripafóður á býlinu.
Prófuðu útirækt fyrst 2020
Guðfinna segir að þau hjónin hafi keypt jarðirnar StóraFjarðarhorn og Þrúðardal árið 2016. „Þá var þar sauðfjárbú sem hefur jafnt og þétt stækkað og er enn í dag aðalbúgreinin. „Við hófum markvissa ræktun á Angus-nautgripum eftir að nýtt erfðaefni var flutt til landsins. Árið 2022 fengum við okkar fyrstu hreinræktuðu gripi og höfum ræktað nautgripi síðan þá. Við byrjuðum að prófa okkur áfram með útiræktun árið 2020 og höfum svo smám saman verið að finna okkar fjöl þar. Síðasta sumar vorum við meira í neðanjarðarræktun sem kom sér vel þar sem tíðarfarið var mjög erfitt fyrir garðyrkju á okkar svæði.
Samhliða fjölbreyttum búskap höfum við sett upp vinnslurými með leyfi frá Mast þar sem hentar vel að vinna bæði úr kjöti og garðávöxtum. Það er Byggðastofnun og byggðaþróunarverkefninu Sterkum Ströndum að þakka að þessi matvælavinnsla varð til. Við höfum ýmist selt afurðirnar í verslanir eða beint til neytenda. Á næstu vikum stefnum við á að opna betur sýnilega sölugátt á vefnum til að bæta utanumhald og við tökum glöð á móti nýjum viðskiptavinum.“
Auka virði grænmetisins
„Hingað til höfum við nýtt annars flokks garðyrkjuafurðir í fóður fyrir eigin gripi en langar að sjá hvaða aðferðir eru raunhæfar til að auka virði þeirra og auka þannig geymsluog sölutíma vörunnar,“ útskýrir Guðfinna áfram.
„Við munum beita gamalgrónum aðferðum í bland við nýstárlegri leiðir til að prófa okkur áfram í nýtingu annars flokks afurða. Til dæmis höfum við aðgang að frostþurrkara sem opnar fjölmargar úrvinnsluleiðir. Samhliða þessu erum við að skoða hvort og þá hvernig afurðirnar okkar geta hentað mismunandi viðskiptavinum. Kosturinn við að vera lítil vinnsla er að við getum hreyft okkur hratt og svarað kalli. Markmið okkar er að halda úti störfum á svæðinu svo við erum sífellt að leita leiða til að byggja upp fjölbreyttan viðskiptavinahóp sem getur orðið til þess að um heilsársvinnslu verði að ræða.
Við erum sömuleiðis sífellt að leita leiða til að tengja búgreinarnar sem best saman og reyna að samnýta tilfallandi kostnað þannig að hann verði sem minnstur og samlegðaráhrifin verði sem mest.“

Ýmislegt að læra
Að sögn Guðfinnu tekur tíma að koma búgreinum af stað frá byrjunarpunkti. „Það tekur til dæmis rúmlega tvö ár að framleiða einn nautgrip frá því kýr er sædd og þar til kálfurinn fer í slátrun, vonandi sem vel holdfyllt ungnaut.
Sömuleiðis með garðyrkjuna. Við höfum þurft að afla okkur allrar reynslu sjálf enda einu aðilarnir í útiræktun á Vestfjörðum. Það þarf að læra inn á það að rækta við sjávarmál en sömuleiðis að læra inn á að nýta þau tækifæri sem það býður upp á. Við höfum aldrei ætlað okkur að keppa í magnframleiðslu heldur frekar einblína á sérstöðuna. Þess vegna sóttum við til dæmis um styrk úr þróunarfé garðyrkjunnar til að leita nýrra lausna og fylla í göt á markaði með nýrri framsetningu og auknu virði afurða okkar.“
Fjölbreyttur búskapur
Guðfinna segir að þau séu nú með um 700 kindur og 25 nautgripi á öllum aldri og verktakafyrirtæki sem sinnir allri almennri jarðvinnu, efnisflutningum og landbúnaðarverktöku. „Í garðyrkjunni reynum við að hafa fleiri tegundir en færri í ræktun sérstaklega því við erum enn að læra hvað hentar aðstæðunum okkar. Það eru ekki allar tegundir í ræktun á hverju ári en markmiðið er að bjóða upp á grænmeti í næsta nágrenni og þá þurftum við að horfa á fjölbreytni frekar en magn af hverri tegund. Við ræktum bæði hefðbundnar appelsínugular gulrætur og einnig önnur litaafbrigði, en gulrætur eru okkar aðalgrein ásamt kartöflum og næpum. Við höfum ræktað alls konar ofanjarðartegundir og munum halda því áfram. Þær tegundir sem hafa gengið hvað best hjá okkur eru káltegundir ýmiss konar, eins og blómkál, brokkolí, hvítkál, rauðkál, kínakál, grænkál, blöðrukál og toppkál, möguleikarnir eru óþrjótandi.
Framtíðarsýnin er björt og við teljum að það verði áfram eftirspurn eftir íslenskum matvælum. Við verðum áfram óhrædd við að fjárfesta í íslenskum landbúnaði og munum vonandi halda áfram að fá hugmyndir og líklega framkvæma þær flestar. Það verður fréttaefni þegar við hættum að fá hugmyndir,“ segir Guðfinna Lára Hávarðardóttir í Stóra-Fjarðarhorni á Ströndum.