Vorið kemur, heimur hlýnar
Nú er janúarsólin loksins að teygja sig yfir hæstu fjallstinda.
Geislar hennar færa okkur von um hlýrri og bjartari tíma og við hverja mínútu sem daginn tekur að lengja eru bændur í óðaönn að leggja grunninn að starfsárinu, skipuleggja ræktun, panta áburð og sáðvöru fyrir vorið.
Þetta er frábær tími til að fara yfir nýliðið ár, taka stöðuna, hvaða verkefni hafa áorkast síðastliðið ár og hvar séu tækifæri til að gera betur.
Íslenskur landbúnaður fékk mikla athygli á síðasta ári og augu þjóðarinnar opnuðust fyrir erfiðri stöðu landbúnaðarins. Bændasamtökin komu fram með skýr gögn um stöðu greinarinnar vegna gríðarlegra aðfanga- og vaxtahækkana síðustu ára en Samtök ungra bænda eiga hrós skilið fyrir sitt hlutverk í umræðunni, þau lyftu grettistaki með eftirminnilegum fundi sínum, Laun fyrir lífi. Síðar stofnaði matvælaráðherra ráðuneytisstjórahóp til að fjalla um stöðuna. Niðurstöður þess hóps staðfestu þann vanda sem landbúnaðurinn stendur raunverulega frammi fyrir og BÍ hafði ítrekað komið á framfæri. Nýverið lauk endurskoðun búvörusamninga en það var afdráttarlaus afstaða samninganefndar ríkisins að auknir fjármunir myndu ekki verða settir inn í samningana þrátt fyrir skýrar upplýsingar BÍ og niðurstöður ráðuneytisstjórahóps um að brýn þörf væri fyrir aukna fjármuni ef markmið stjórnarsáttmála og landbúnaðarstefnu um eflingu landbúnaðar eiga að nást. Það veldur miklum vonbrigðum að ekki hafi verið vilji til að nýta endurskoðun til að bregðast við viðurkenndum vanda landbúnaðarins.
Einbeitum okkur að lausnum
Fjárhagsstaðan er erfiðust hjá ungum bændum og þeim sem hafa nýlega fjárfest í uppbyggingu og bættum aðbúnaði, þ.e. þeim sem við treystum á að framleiða matvæli fyrir okkur á komandi árum. Atvinnuleysi er lítið og tækifæri bænda til að hætta búskap og snúa sér að öðru hafa líklega aldrei verið meiri með tilkomu aukins ferðamannafjölda, tækniþróunar og tækifæra til fjarvinnu.
Sé okkur alvara með umræðunni um fæðuöryggi, mikilvægi hreinleika og gæðanna sem íslenskar landbúnaðarafurðir eru margrómaðar fyrir, þurfum við að átta okkur á því að vandi landbúnaðarins er ekki einkavandi bænda, hann er vandi þjóðar. Vandinn hefur verið staðfestur og okkar brýnasta verkefni nú er að horfa fram á veginn og vinna að lausnum.
Fjárfesting í búrekstri er oftast mikil í hlutfalli við veltu og eðli rekstrarins þannig að tryggja verður aðgang bænda að hagstæðari lánum og þolinmóðu fjármagni. Bændur eru þekktir fyrir að vera góðir lántakar með sterkt veð og vilja til að greiða af lánum.
Flest tækifæri nýliðunar í landbúnaði eru á formi kynslóðaskipta. Til þess að liðka fyrir kynslóðaskiptum þarf að tryggja betri stöðu þeirra bænda sem nú eru í rekstri svo að ungum bændum bjóðist vænleg bú til að taka við af þeim eldri en einnig þarf að horfa til lausna sen nágrannaríki okkar hafa notast við, t.d. með óbeinum aðgerðum í gegnum skattkerfið sem liðka fyrir kynslóðaskiptum. Það er þó til lítils að auðvelda ungu fólki að fara af stað í búrekstur ef hann er ekki fjárhagslega arðbær. Á sama tíma og auknar kröfur hafa verið settar á framleiðsluhætti íslenskra búvara hefur tollvernd farið þverrandi og ekki eru gerðar sömu kröfur til framleiðsluhátta innfluttrar matvöru. Það sér hver að þannig er leikurinn ekki sanngjarn. Mikilvægustu aðgerðir sem stjórnvöld geta farið í til að liðka fyrir íslenskum landbúnaði og uppfylla lögbundnar skyldur sínar um kjör bænda er að leiðrétta tollvernd landbúnaðarafurða og tryggja að fjármagn búvörusamninga endurspegli þær kröfur sem hafa verið lagðar á landbúnaðinn síðustu ár um aukið magn og gæði.
Sömuleiðis þurfa bændur og afurðastöðvar að leita enn frekari leiða til að hagræða og lækka framleiðslukostnað. Fjöldi tækifæra liggur í að endurskoða og einfalda regluverk matvælaframleiðslu heilt yfir framleiðslukeðjuna og skapa starfsumhverfi sem gerir okkur kleift að hagræða, lækka framleiðslukostnað og efla samkeppnishæfni íslenskra búvara.
Efling á rannsóknum og menntun eru svo auðvitað grunnur að nýsköpun og vexti hverrar atvinnugreinar. Þar eigum við tækifæri til að gera enn betur.
Undirbúum jarðveginn
Næstu ár verða afskaplega mikilvæg fyrir framtíð íslensks landbúnaðar. Ráðast verður sem fyrst í vinnu nýrra búvörusamninga þar sem við byggjum grunninn að framtíðinni en meginmarkmið nýrra samninga hlýtur fyrst og fremst að verða að tryggja nægilega framleiðslu matvæla þar sem er horft til nútíma neysluhátta og eftirspurnar. Allar búgreinar þurfa viðunandi starfsumhverfi og tækifæri til framþróunar og nýsköpunar.
Bændasamtökin hafa vaxið á síðustu árum og fjöldamörgum stórum verkefnum verið ýtt úr vör. Nú þegar landbúnaðurinn gengur í gegnum ákveðna breytingatíma er nauðsynlegt fyrir BÍ að styrkja sambandið við grasrótina sem mótar stefnu samtakanna en eins og bændum er flestum kunnugt þarf að hlúa að, undirbúa jarðveginn og tryggja helstu næringarefni svo að grasrótin megi vaxa og dafna.