Hópurinn við fjósið í Gunnbjarnarholti.
Hópurinn við fjósið í Gunnbjarnarholti.
Mynd / Aðsendar
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Höfundur: Andri Már Sigurðsson, formaður Félags frjótækna.

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbourg í Frakklandi. Samtökin nefnast Permanent Commission of European Insemination and Animal Breeding Technicians og eru aðildarlönd samtakanna tólf talsins, en Ísland bættist í hópinn árið 2022.

Andri Már Sigurðsson.

Samtökin halda ráðstefnu sína á tveggja ára fresti í einu af aðildarlöndunum og dvöldu gestir hennar hér á landi frá 11.– 16. september sl. Hafði Frjótæknafélag Íslands veg og vanda af skipulagningu ráðstefnunnar og dagskrá tengda henni. Gestir að þessu sinni voru 36 talsins frá níu löndum; frjótæknar, rekstraraðilar sæðinga, sérfræðingar í fósturvísaflutningum og ráðunautar í kynbótastarfi.

Ýmsar nýjungar kynntar

Sjálf ráðstefnan fór fram laugardaginn 15. september sl. á Hótel Selfossi. Þar kynnti hvert land stöðu á gangi mála þegar kemur að þróun sæðingastarfsemi og ræktunarstarfi. Einnig var farið yfir menntunarmál, kjaramál og kynntar ýmsar nýjungar. Af nýjungum má nefna að FABA í Finnlandi kynnti nýja tækni í notkun hitamyndavéla til að greina vandamál varðandi klaufhirðu kúa áður en þau vandamál verða sýnileg. Viking Genetics kynnti nýja tækni sem kallast CFIT (e. Cattle Feed Intake Technology), en þar er notast við þrívíddarmyndavélar og gervigreind til að bera kennsl á kýrnar, meta þyngd og holdastig einstakra gripa, ásamt því að mæla hversu mikið þær éta. Greiningar bera kennsl á hversu skilvirkar kýr eru í að breyta fóðri í mjólk og eru grundvöllur að kynbótaeinkunn fyrir eiginleikann (e. Saved Feed Index); því hærri einkunn þeim mun skilvirkari er kýrin að breyta fóðri í afurðir og þar með hagkvæmari í framleiðslu. Fyrirtækið IMV, sem framleiðir margs konar búnað og rekstrarvörur fyrir sæðingar, kynnti sæðingatækið AlphaVision sem útbúið er myndavél og gæti komið að góðu gagni við verklega kennslu í kúasæðingum. Fulltrúi Íslands var með kynningu á sæðingaappi sem er í þróun í samstarfi Búnaðarsambandanna, RML og finnska fyrirtækisins MTech og er það nú í prófun hjá frjótæknum hér á landi. Það hefur hlotið nafnið FANG. Vonir standa til að appið komi að mestu til með að taka við af símsvörum og símatímum í framtíðinni. Í appinu koma bændur til með að panta sæðingar og aðra þjónustu frjótækna. Frjótæknar skrá sæðingarnar og fangskoðanir jafnóðum í gegnum appið eftir að verki lýkur á hverjum bæ, jafnframt sem möguleiki er að senda bændum smáskilaboð í upphafi dags um hvenær frjótæknirinn er væntanlegur heim á bæ þann daginn.

Góðar móttökur hvarvetna

Auk þess faglega var farið með með hópinn vítt og breitt um Suðurland. Skoðaðar voru helstu perlur íslenskrar náttúru, þar á meðal Gullfoss, Geysir, Seljalandsfoss og Skógafoss. Einnig var farið í kynningu á starfsemi MS á Selfossi ásamt góðum heimsóknum á mektarbýlin Gunnbjarnarholt og Þorvaldseyri. Alls staðar var mjög vel tekið á móti hópnum og fékk hann góða kynningu á starfsemi þessara aðila. Einnig bauð Kynbótastöð Suðurlands hópnum í mat að Stóra-Ármóti, þar sem Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur hjá RML, mætti með góða kynningu á íslenska kúastofninum ásamt gangi mála í mjólkurframleiðslunni á Íslandi.

Páll Eggert Ólafsson á Þorvaldseyri leiðir ráðstefnugesti í allan sannleika um búskapinn.
Íslenska náttúran gleður

Ráðstefnugestir voru einróma um að Íslandsferðin hefði heppnast einstaklega vel og verið fróðleg og skemmtileg. Erlend tengsl af þessu tagi eru faglegur styrkur fyrir innlenda frjótækna, auk þess að víkka sjóndeildarhring stéttarinnar. Bændur og fyrirtæki sem tóku á móti hópnum fá miklar þakkir fyrir þeirra framlag, sem og styrktaraðilar ráðstefnunnar, sem eru Nautastöðin á Hesti, Búnaðarsamband Suðurlands, Búnaðarsamband Eyjafjarðar og Auðhumla svf. en án þeirra myndarlega framlags hefði þessi viðburður vart orðið að veruleika. Næsta ráðstefna samtakanna verður svo haldin í Þýskalandi árið 2026.

Skylt efni: frjótæknar

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts
Lesendarýni 19. september 2024

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts

Í Bændablaðinu 2.11. 2023 var fjallað um bindingu CO2 vegna framleiðslu kindakjö...