Leikfélag Hveragerðis sýnir "Nei Ráðherra!"
Leikfélag Hveragerðis, sem stofnað var á vetrarmánuðum árið 1947, hóf vegferð sína í febrúarbyrjun árið eftir, með gamanleiknum „Karlinn í kassanum“. Árið áður höfðu þeir þó „troðið upp“ að sögn blaðamanns í Vísi árið 1948, sem gefur gamanleiknum ágætis dóma.
„Gestir virtust halda heim ánægðir og var allur útbúnaður leiksviðs og gervi leikenda næsta gott!“
Leikfélagið, sem telur nú 74 ár, hefur í gegnum tíðina staðið undir því hrósi og gott betur, en félagið hefur sett upp eina eða fleiri leiksýningar á hverju ári síðan. Um 90 sýningar í fullri lengd, auk þess sem haldin hafa verið mörg skálda- eða bókmenntakvöld, revíur og skemmtanir. M.a. var í tilefni sextíu ára afmælis félagsins haldin vegleg afmælissýning, rokkóperan Jesus Christ Superstar, sem sýndi greinilega styrk félagsins enda í hópi öflugustu leikfélaga landsins.
Nú er gamanfarsinn „Nei, ráðherra!“ kominn á fjalirnar. Farsinn, sem átti að gleðja landsmenn í maí síðastliðinn, var settur á ís vegna Covid en nú er kominn tími til að hlæja almennilega eina kvöldstund. Leikarar eru tíu talsins, skemmtileg blanda, af þaulreyndum leikurum, sumum með yfir 40 leikverk í sarpinum, á meðan aðrir eru að stíga á svið í fyrsta sinn. Alls taka 23 manns þátt í uppsetningunni og áætlaðar sýningar eru þann: 10., 13., 22. og 23. október.