Skeiðönd
Skeiðönd er fremur sérkennileg buslönd með stóran og mikinn gogg sem hún notar til að sía fæðu úr vatni eða leðju. Líkt og aðrar buslendur þá stingur hún höfðinu ofan í vatnið í fæðuleit eða hálfkafar með stélið upp. Þessi fæða sem hún síar úr vatninu eru sviflæg krabbadýr, lirfur, skordýr, fræ og plöntuleifar. Hún er nokkuð minni en stokkönd, með fremur stuttan háls og þennan einkennandi stóra gogg sem er eins og skeið í laginu. Skeiðendur hafa ekki orpið hér á Íslandi nema í tæplega 100 ár og telst því nokkuð nýr varpfugl. Stofninn er lítill, eða um 50 pör, sem gerir hana að sjaldgæfustu andartegundinni sem verpir reglulega á Íslandi. Hún sækir helst í lífrík votlendissvæði og verpir hér í flestum landshlutum en er þó algengust á Norður- og Norðausturlandi. Hér er hún farfugl og er talið að þeir fuglar sem verpa hér hafi vetursetu í Bretlandseyjum og er Ísland sennilega á norðurmörkum útbreiðslu hennar í Evrópu.