Dreifing búfjáráburðar takmörkuð í drögum að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu
Dreifing búfjáráburðar mun verða óleyfileg á öllu landi sem er innan við 50 metra fjarlægð frá árvatni, lindum, stöðuvötnum eða borholum og innan við 250 m frá borholum fyrir neysluvatn, samkvæmt drögum að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu sem nú er til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir drögin en þar má finna níu viðmið um sjálfæra nýtingu lands til jarðræktar og akuryrkju og leiðbeiningar þess efnis til hliðsjónar.
Tilræði við landbúnað víða
Í viðauka sem fylgir drögunum eru tilgreind viðmið vegna útskolunarhættu og tímasetningu áburðardreifingar. Þar eru settar ýmsar kvaðir á dreifingu áburðar, s.s. utan vaxtartíma plantna, við ákveðnar veðuraðstæður og í miklum halla (>20%). Þá mun dreifing tilbúins áburðar vera óleyfileg á öllu landi sem er innan við 5-10 m fjarlægð frá vatni (árvatni, lindum, stöðuvötnum eða borholum). Nokkur umræða hefur þó skapast um kvaðir er banna dreifingu búfjáráburðar í innan við 50 m fjarlægð frá árvatni, lindum, stöðuvötnum eða borholum og innan við 250 m frá borholum fyrir neysluvatn.
„Þetta er óviðunandi plagg,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson bóndi á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði. „Þetta er í raun tilræði við landbúnað víða. Með því að banna dreifingu búfjáráburðar á öllu landi innan við 50 metra frá vatni er verið að skera af væna sneið af ræktarlandi landsins.“
Hann segir augljóst að mjög stór hluti af ræktarlandi liggi innan við 50 metra frá vatni, ám og lækjum. „Að stórum hluta til eru bújarðir á Íslandi í dölum, með straumvatn eftir miðjunni. Fjölmargar landspildur sem eru aðeins 100 metrar á breidd, eða minni. Það þýðir að þú ert aldrei lengra frá skurði en 50 metra.“ Því þurfi að skilgreina betur hvað við er átt, þegar talað er um vatn. „Skurður er ekki það sama og skurður. Til eru virkir drenskurðir og þar rennur vatn, er það árvatn? Hvenær er lækur á?"
Baldur Helgi segir drögin virðast ganga töluvert lengra en danskar reglugerðir um sömu mál. „Þar á að gæta að því að búfjáráburður skolist ekki út í vatn, t.d. með því að dreifa honum ekki út í á. Í drögunum er bann sett á dreifingu innan við 50 metrar frá vatni í landi þar sem köfnunarefnisútskolun er hverfandi í samanburði við Danmörku. Svo virðist ekkert tillit eiga að taka til tækni við dreifingu. Niðurfelling dregur til að mynda mjög úr hættu á útskolun áburðarefna.“
Baldur hyggst skila inn umsögn um reglugerðardrögin og hvetur bændur til að gera slíkt hið sama.
Vakta á notkun og ástand jarðvegs
Meginreglur sjálfbærrar landnýtingar í tengslum við akuryrkju eru skilgreindar út frá alþjóðlegri samþykkt í Voluntary Guidelines for Sustainable Soil Management, riti Landbúnaðar og matvælastofnunnar Sameinuðu þjóðanna (FAO) frá árinu 2017 og er í samræmi við Jarðvegssáttmála sömu stofnunnar.
Samkvæmt drögunum byggir sjálfbær notkun lands í akuryrkju á meginatriðum jarðvegsverndar til að vernda gæði jarðvegsins, með því að huga að eðlisrænum, efnafræði-, líffræði- og vistfræðilegum þáttum í hnignun hans. Þá eru tiltekin atriði sem huga skuli að til að koma í veg fyrir hnignun jarðvegs.
Lagður er grunnur að mati á ástandi á akuryrkjulandi en tiltekið að ekki sé hægt að setja fram töluleg gildi fyrir sjálfbærnimælivísa jarðvegs vegna mikils breytileika jarðvegseinkenna. Hins vegar er lagt til að regluleg sýnataka fari fram til að vakta notkun og ástand jarðvegs.
Í drögunum má einnig finna leiðbeiningar um aðgerðir í akuryrkju til að stuðla að sjálfbærri nýtingu lands. Leitast á við að koma lífrænum úrgangsefnum aftur í hringrásina, s.s. með því að saxa hálm og látinn falla til jarðar til að fjarlægja ekki næringarefni í of miklu magni úr jarðveginum. Einnig má finna þar aðferðir sem hægt er að nýta til að verjast gegn rofi í ökrum og bæta kolefnisbindingu, s.s. með breytingu á fyrirkomulagi ræktunar, vetrarþekju, ræktun þekjandi tegunda samhliða aðaluppskeru, skiptirækt, nýtingu niturbindandi tegunda, stölluðum ræktunarbeðum í hallandi landi og varðbeltum eða varnarsvæðum.
Þá skal forðast jarðvinnslu á tímabilinu 15.nóvember til 15.mars til að koma í veg fyrir vind- og vatnsrof jarðvegs.
Frestur til að skila inn umsögn um drögin er til 22. október næstkomandi.